19.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3106)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Skúli Guðmundsson:

Ég hefi farið fram á það við hæstv. forseta, að máli þessu verði frestað, en hann hefir ekki séð sér fært að verða við þeirri ósk minni. Ég verð að sætta mig við það, í þeirri von, að brtt. hv. þm. Barð. verði samþ. — Ég vil vísa frá þeirri aðdróttun í minn garð, að beiðni mín um frest hafi verið fram borin í þeim tilgangi, að reyna að eyðileggja málið. Ég hafði aðeins farið fram á frestun málsins með það fyrir augum, að málið yrði afgr. á réttan hátt, og vildi því vita, hvernig liti út með afgreiðslu fjárl.

Um andstöðu við málið er því ekki að ræða frá minni hálfu, og hv. þm. Snæf. getur ekki komið fram með slík ummæli, enda ekki séð fyrr en við atkvgr., hvaða afgreiðslu málið fær. Hinsvegar tel ég ekki sæmandi fyrir Alþ., á sama tíma sem draga verður úr öllum útgjöldum ríkissjóðs, að samþ. l., sem gætu haft á annað hundrað þús. króna útgjöld í för með sér, án þess að taka þær greiðslur á fjárlögin.