30.03.1939
Neðri deild: 30. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

57. mál, atvinnuframkvæmdir

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Þetta frv., sem liggur hér fyrir til umr., er borið fram af hálfu Sósíalistafl. ásamt öðrum frv., sem ýmist eru lögð fram eða verða lögð fram bráðlega. Það hefir orðið nokkur dráttur á, að þau kæmu. Beðið hefir verið eftir því, að nefndir þær, sem um atvinnumálin fjalla hér í þinginu, skiluðu áliti. En þar sem ekki eru horfur á, að þær skili neinu áliti, nema þá til flokka sinna, virðist ekki bíðandi eftir þeim lengur.

Það hefir oft verið kvartað yfir þeim glundroða, sem hér væri á opinberri tilhlutun í atvinnumálunum. og ekki að ástæðulausu. Á því er reynt að ráða bót með þessu frv. og skapa fast fyrirkomulag á yfirstjórn þessara mála og framkvæmdum. Það var eitt af aðalmálum Alþfl. á sinni tíð og eitt mesta kosningamál hans 1934. við samningana við Framsókn um stjórnarsamvinnu þá eftir kosningarnar var skipulagsnefnd atvinnumála stofnuð, sem spor í áttina, en þó náði hlutverk hennar ekki nærri eins langt og þm. Alþfl. höfðu ætlazt til.

Þetta frv. gengur að nokkru leyti í sömu átt, en að nokkru leyti í aðra. Við lítum svo á, að ekki sé eðlilegt né hagkvæmt, að frumkvæði og framkvæmd þessara mála sé í höndum stjórnarráðs. Hlutverk þess er nú orðið fyrst og fremst „administration“ undir stjórn pólitískra ráðherra. Þess vegna er lagt til, að stofnað sé sérstakt atvinnumálaráð eða „fagmálaráð“ til yfirstjórnar, samkv. nánari fyrirmælum frv. Ráðið skulu skipa 15 menn, og aðeins 5 þeirra kosnir af Alþingi hlutfallskosningu — sem sjálfsagt yrði pólitísk, þó að jafnframt yrði valið eftir sérþekkingu. Hinir 10 yrðu kosnir af samtökum þess fólks, sem að atvinnuvegunum starfar. Ráðið getur tekið í þjónustu sína verkfræðinga, hagfræðinga og aðra aðstoðarmenn eftir þörfum.

Verkefni ráðsins er að sjá um rannsókn á náttúrugæðum landsins, nýjum atvinnurekstri, framkvæmdum og framleiðslu á öllum sviðum atvinnulífsins og þjóðarbúskapnum í heild, gera um það tillögur og standa síðan fyrir áætlunum og framkvæmdum í samráði við atvinnumálaráðuneytið. Þá getur ráðið skipað sérnefndir til að hafa með höndum sérstök verkefni á tilteknum sviðum eða yfirstjórn einstakra framkvæmda og ráðið framkvæmdastjóra í samráði við atvmrh. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir, að atvinnumálaráð geti styrkt atvinnuframkvæmdir félaga, stofnana, einstaklinga, bæjareða sveitarfélaga með ábyrgðum, lánum eða beinum styrkjum á svipaðan hátt og fiskimálanefnd hefir gert, og verði að því keppt að nýta auðlindir landsins, efla atvinnuvegina, sem á þeim eru byggðir, og gera íslenzkt atvinnulíf sem sjálfstæðast. Þá er fyrst að telja sjávarútveginn með þeim iðnaði, sem nauðsynlegur er í sambandi við hann, hraðfrystihúsum, nýtízku vinnslutækjum í togurum o. s. frv., — í öðru lagi ýmis jarðarauðæfi, byggingarefni, vatnsorku, hveraorku o. þ. h., — í þriðja lagi garðrækt, og svo mætti telja áfram. Landbúnaðarframkvæmdir almennt eru ekki teknar hér með af því að yfirstjórn þeirra fellur undir Búnaðarfélagið.

Þá er gert ráð fyrir, að ráðinu sé heimilað að semja, með samþykki ríkisstjórnar og innan þeirra takmarka, sem ákveðin eru í lögum, um .,koncessiónir“ handa einstökum félögum eða stofnunum, þegar með því má efla framleiðsluna. Samþykki Alþingis verður þó vitanlega að koma til í stórmálum.

Þá má ráðið, með samþykki Alþingis, leggja fram hlutafé gegn hlutaframlagi annarstaðar að í fyrirtæki, sjálfsagt í hlutafélagsformi, er komi upp fullkomnum skipasmíðastöðvum og ef fært reynist stóriðju byggingarefna, áburðarframleiðslu, málmnámi o. fl. — Ráðið á þá að mega banna viðgerðir ísl. járnskipa erlendis.

Þá eru settar nokkrar reglur um hámark styrkveitinga (25%) og aðra skilmála og um endurgreiðslu sterks, ef fyrirtæki telst síðar vel fært um.

Viðvíkjandi fjáröflun er gert ráð fyrir, að veitingar lána og styrkja úr fiskimálasjóði verði í höndum ráðsins, að svo miklu leyti, sem það verður ekki falið öðrum aðilum með öðrum lögum. Annars skal vera sérstakur kafli í fjárlögum hvers árs, þar sem ákveðin eru og sundurliðuð fjárframlög og lánsheimildir eða ábyrgðir til ráðsins og þeirra framkvæmda, sem það hefir með höndum.

Það þarf svo víst ekki að lýsa meir þessu máli. Ég vil leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar, að lokinni þessari umræðu.