31.03.1939
Neðri deild: 31. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

59. mál, umboðsverzlun útgerðarinnar

*Flm. (Ísleifur Högnason):

Frv. þetta er borið fram sem tilraun til styrktar við útgerðina. Í því er farið fram á, að ríkisstj. verði falið að setja á stofn umboðsverzlun fyrir útgerðina. Nú er innkaupum útgerðarinnar á veiðarfærum o. fl. háttað á þann veg, að umboðssalar ferðast um landið og fá útvegsmenn til þess að kaupa af sér. Umboðslaunin eru oft 10% og þar yfir; verða þau út af fyrir sig tilfinnanlegur skattur fyrir útgerðina. Hér er aftur lagt til, að umboðslaun þau, sem útgerðarmenn greiði umboðsverzluninni, megi ekki nema meiru en 3% af cif-verði vörunnar. Þá er og gert ráð fyrir, að umboðsmönnum verzlunarinnar skuli greidd ómakslaun sín með 1% af cif-verði pantaðrar og greiddrar vöru. Á þessum lið yrði því ekki svo lítill sparnaður. Auk þess myndu fást miklu hagkvæmari innkaup með því að hafa verzlunina á einni hendi heldur en hafa hana í höndum fjölda manna, eins og nú er.

Þá myndi þetta og skapa miklu meira öryggi, ef t. d. styrjöld brýzt út, sem alltaf má gera ráð fyrir að geti orðið á hverju augnabliki.