19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (3297)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Sigurður Kristjánsson:

Ég gleymdi að taka það fram í ræðu minni áðan, að úr 4. gr. frv., þar sem talað er um sektarákvæði fyrir vanrækslu í að eyða eggjum svartbaks og hrafns, hafa fallið úr orðin: ef þess er kostur. Í þeim lögum, sem nú gilda um eyðingu vargfugls, er þetta ákvæði orðað svo, og það er ekki nema sjálfsagt, að þetta standi svo í hinum nýju lögum. Ég geri ekki ráð fyrir, að sektarákvæðunum verði beitt almennt í öllum hreppum, heldur er hér fyrst og fremst átt við afmarkaða staði, varpeyjar eða því um líkt. Til þess því að afstýra misskilningi, er þetta ákvæði tekið inn í frv. upp úr gildandi lögum.

Það var bersýnilegt af ræðu hv. 1. þm. Rang., að hann vildi ekki ræða af neinni alvöru um þetta mál. Fyrir þessum hv. þm. vakir aðeins ungæðislegur gáski, löngun til að koma að skrautyrðum sínum. Hv. þm. sagði, að við flm. þessa frv. skytum langt yfir það mark, sem sómasamlegt væri að flytja á Alþingi. Þótt sleppt sé þessum gífuryrðum, þá athugar hv. þm. það ekki, að hér á Alþingi hefir verið flutt og samþ. frv. um eyðingu veiðibjöllu. Munurinn á þessu frv. og gildandi lögum er í rauninni enginn nema sá, að lítilsháttar hærra fé er lagt til höfuðs vargfugli og hrafni. Þegar þessi hv. þm. ber okkur flm. það á brýn, að frv. okkar sé ekki sæmandi virðingu þingsins, þá bendir það óneitanlega í þá átt, að hann viti ekki um lögin frá 1936. Í þessu máli, eins og í svo mörgum öðrum efnum, talar því hv. 1. þm. Rang. eins og þegar blindur maður dæmir um lit, auk þess sem önnur ummæli hans báru það með sér, að hann hefir ekki einu sinni lesið frv. það, sem hann er að mótmæla. Nei, hv. þm. vill bara gáskast og flétta saman ræðustúf.

Hv. 1. þm. Rang. minntist á það, að æðarvarpinu væri eytt meira af mannavöldum en fugla, æðurin væri skotin og eggin tínd. En jafnvel þótt svo væri, þá verður slíkt ekki heft með því að lofa veiðibjöllunni að vaða uppi í þessum efnum. Ekki hefir varpið í Laufási vaxið við það.

Ég hefi heyrt sögu um mann, sem bjó á jörð, þar sem var æðarvarp. Hann sat yfir æðarfuglinum og veitti honum ljósmóðurhjálpina með því að borða eggin. Hvort hv. þm. hafi, þegar hann var í Laufási, farið eins að og þessi maður og gerzt ljósmóðir í sínu eigin varpi, skal ég auðvitað láta ósagt.

Mönnum getur það verið rökfræðilegt eða trúarbragðalegt atriði — og hv. þm. sagði það vera trú sína —, að náttúran sjái bezt fyrir jafnvægi í þessum sökum. En náttúran fer hér oft svo hörðum höndum um, að sterkari stofnar útrýma öðrum í jurta- og dýraríkinu. Við sjáum í jarðlögunum, hvernig dýra- og jurtastofnar hafa orðið að lúta í lægra haldi fyrir öðrum ránstegundum í náttúrunni. Meðal mannanna er það sama uppi á teningnum. Hv. þingdeildarmenn hafa nýlega látið í ljós vilja sinn, þegar stærri og sterkari þjóð réðst á smáþjóð til að eyðileggja sjálfstæði hennar og réttindi. Og hér gegnir sama máli, að náttúran mun eyðileggja mikil verðmæti, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að draga úr þeirri hættu, sem vofir yfir æðarfuglinum af hálfu vargfuglsins.