10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3391)

108. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég er sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að það er annað mál, hvort við göngum í Bernarsambandið eða samþ. þetta frv. Þetta frv. er fyrst og fremst til þess að vernda rétt íslenzkra listamanna hér á landi. Og mér finnst ástæða til þess, að við veitum okkar listamönnum samskonar vernd og aðrar þjóðir gera, svo að hver sem er geti ekki án leyfis farið með verk þeirra eftir eigin geðþótta sínum. Ég tel, að íslenzkir listamenn myndu verða frjálslyndir í þessu efni, svo að af því ættu ekki að hljótast nein óþægindi fyrir útvarpið. Við þurfum ekki að vernda útvarpið; það er vel verndað. Spurningin er miklu fremur, hvort ekki þurfi að vernda listamennina gagnvart útvarpinu. Útvarpið er að vísu stórt menningarfyrirtæki, en það má þó ekki ganga á réttindi listamannanna. Ég hefi ekkert á móti því, að málið verði athugað í n. Og það gæti komið til athugunar, að Alþingi léti í ljós vilja sinn um það, hvort við ættum að ganga í Bernarsambandið, því að þetta frv. ryður úr vegi þeim tálmunum fyrir því, sem eru í íslenzkum l. Ég held, eins og hv. 1. þm. Reykv., að ekki sé hætta á, að bókaútgefendur gjaldi afhroð vegna réttinda útlendra listamanna, þó að við göngum í sambandið. Það myndi reynast auðvelt að fá leyfi allra meiri háttar rithöfunda til að þýða bækur þeirra á íslenzku. Ég veit um einn enskan rithöfund, sem svaraði því, þegar hann var beðinn um leyfi til að þýða bók eftir hann á íslenzku, að bann tæki principielt æfinlega fé fyrir þýðingarleyfi, og því setti hann upp eina guineu eða 21 shillings fyrir þýðingarleyfið. Ég býst því við, að flestir erlendir rithöfundar myndu verða vægir í kröfum sínum fyrir þýðingarleyfi á íslenzku.