25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3540)

81. mál, vantraust á ríkisstjórninni, þingrof og kosningar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég mun ekki eyða mörgum orðum um hina svokölluðu vantraustsyfirlýsingu, sem hér liggur fyrir til umr. Það mun engum efa bundið, að vantrauststill. þessi mun óþinglegasta þáltill. um vantraust, sem nokkru sinni hefir verið borin fram á Alþingi, að undantekinni vantrauststill. þeirri, sem þessi sami flokkur bar hér fram um daginn, sem stjórnin gleymdi að ræða og flm. sömuleiðis að gera grein fyrir.

Vantraust þetta er borið fram áður en stjórnin fer nokkuð að starfa, en venjan er sú, að vantraust á stjórnir sé byggt á störfum þeirra, — því, sem þær eru taldar miður vel eða heppilega hafa gert. Vantraust þetta mun eiga að vera borið fram á grundvelli gengislækkunarinnar, en fyrir það mál hefir stjórnin fengið traust. Ræða hv. flm., sem átti að vera rökstuðningur fyrir vantraustinu, var aðallega upplestur á gömlum ræðum, hvað sagt hefði verið um ýmsa menn á ýmsum tímum. En þess var vandlega gætt, að lesa ekkert upp um hv. 3. þm. Reykv. (HV), sem er formaður í flokki þeirra kommúnistanna, sem að vantraustinu standa. Nei, hér er ekki um neina vantrauststill. að ræða, heldur er fundið upp á þessum skrípaleik til þess að fá tækifæri til að ræða stjórnmál almennt. Það er því með öllu ástæðulaust að fara að eyða mörgum orðum um þetta nú, þar sem stjórnin hefir fyrir nokkru ákveðið að ræða stjórnmál almennt í útvarpinu nú mjög bráðlega, sennilega í næstu viku. Þar er sá rétti vettvangur að ræða þessi mál, og frá því verður ekki horfið. Mér dettur því ekki í hug að fara að eyða tíma þingsins í að ræða þau hér að þessu sinni.