21.04.1939
Neðri deild: 45. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

83. mál, mæðiveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti! Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir inni að halda nokkrar brtt. við gildandi l. um þetta efni og eru þær í aðalatriðum samdar af mæðiveikin. og endurskoðaðar af landbn. Nd. Þær breyt., sem hér er sérstaklega farið fram á, eru í 1. gr. og eru um, að færðar verði til þær varnarlínur, sem ákveðnar eru í l., með því að það er greinilegt orðið að sumar þeirra eru orðnar óþarfar, en nauðsynlegt að breyta öðrum og færa þær til í samræmi við gang veikinnar í nærliggjandi héruðum.

Efni 2. gr. er það, að þar sem sérstakar girðingar hafa verið settar og bornar uppi af einstökum svæðum — eins og t. d. aukavarnarlínan, sem sett var á Snæfellsnesi síðastliðið ár — og svo stendur þar á að veikin hefir ekki gert vart við sig á þessu svæði síðastl. ár, þá sé heimilt að taka vörzlu varðlínunnar og viðhald girðingarinnar inn á kostnað ríkissjóðs, en þá verði þeir, sem á þessu svæði búa, að taka á sig hin almennu gjöld, sem allir bændur hafa orðið að taka á sig, sem búa utan mæðiveikisvæðanna. N. féllst á, að þetta væri réttlátt og nauðsynlegt, og leggur til, að þetta verði gert að l.

3. gr. er að efni til um það, að draga úr kostnaði þeirra manna, sem verða fyrir miklum ágangi vegna viðhalds eða vörzlu girðinga vegna mæðiveikinnar. Einstaka bændur hafa orðið fyrir svo miklum búsifjum þessa vegna, að ekki er hægt að mæta þeim bótalaust. Í 1. eins og þau eru nú eru ákvæði þar að lútandi lítt notuð. Í frv. er gert ráð fyrir, að hreppsfélag það, sem nýtur varnarlínunnar, sem þannig stendur á um, sé skylt til að bæta þetta tjón samkv. mati 2 manna.

Efni 4. gr. er að breyta nokkuð ákvæðinu um styrkveitingar samkv. mæðiveikilögunum, sem veittar eru til jarðræktar eða jarðræktarbóta. Breyt. miðar að því að breyta nokkuð hlutfallinu milli þessara styrkveitinga og haga þeim þannig, að jarðræktarstyrkur hækki nokkuð, svo það hvetji bændur til að vinna til slíks styrks heima hjá sér, í stað þess að vinna í vegavinnu. Þótt styrkur þessi sé hækkaður á hverja verkeiningu, er ekki þar með sagt, að hver einstakur bóndi hljóti hærri heildarstyrk. því í reglug. eru ákveðnar hámarksbætur til einstaklingsins, heldur fær hann meira fyrir þau verk, sem hann vinnur, eða réttara sagt: hann vinnur sér fljótar inn bæturnar nú en áður. Sömuleiðis er í gr. ákvæði um heimild til að verja þessu styrktarfé til vinnu við aðrar umbætur á jörð sinni en þær, sem jarðræktarstyrkur er greiddur fyrir samkv. jarðræktarlögum, ef einhver þau verk liggja fyrir, sem talin er meiri þörf á, að framkvæmd verði.

Í 5. gr. er mesta breytingin gerð á l., og skal ég lesa þá grein upp, með leyfi hæstv. forseta: „Aftan við 22. gr. laganna bætist ný málsgr. Nú virðist mæðiveikin vera í augljósri rénun hjá einstökum bændum, og er þá heimilt að styrkja þá til þess að koma sér upp fjárstofni og verja til þess fyrst og fremst því fé, sem þeim hefði annars borið samkv. 2. og 3. tölul. 19. gr., allt eftir nánari ákvæðum reglugerðar“.

Það, sem hér er um að ræða, er, að þegar stjórn mæðiveikin. og viðkomandi sveitarstjórn telja líkur til, að á einhverjum stað sé veikin í rénun, svo að stofn sá, sem eftir er, sé ómóttækilegur eða miður móttækilegur fyrir veikina en áður, þannig að líkur séu til, að hægt sé að koma upp nýjum stofni, má breyta bótafénu í það, að hjálpa bændum til að koma upp nýjum stofni. Er nauðsyn að gera slíkt svo fljótt sem hægt er að koma höndum undir, því það er óþolandi, ef bændur þurfa að búa við það að framfleyta sér á styrkjum. N. telur rétt að veita þessa heimild. Enda er það nauðynlegt, að bændur geti sem fyrst farið að ala upp hraustan bústofn til framtíðarinnar.

Þetta er aðalefni frv. Sé ég ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð, og þar sem það kemur frá n., sem hefir rætt um það, sé ég ekki ástæðu til að vísa því þangað aftur, en hinir einstöku þm. geta haft tækifæri til að athuga það og kynna sér á milli umr. og þá gert við það þær aths., sem þeim þurfa þykir.