21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

96. mál, verðlag á vörum

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Árið 1937 voru sett lög, sem heimiluðu ríkisstj. að setja hámarksverð á vörur eða ákveða hámarksálagningu, að fengnum till. verðlagsnefndar. Samkv. þessum lögum var nefnd skipuð 1938, en það er ekki ætlun mín að rekja störf verðlagsnefndar hér. Í lögunum frá 1937 er stj. aðeins heimilað að ákveða hámarksverð og hámarksálagningu á vörum, en ef frv. þetta verður samþ., er bannað að hækka hundraðshluta álagningar á vörum fram yfir það, sem tíðkaðist fyrir 1. sept. síðastl., nema með sérstöku leyfi verðlagsnefndar. Þetta ákvæði þótti nauðsynlegt vegna þess ástands, er skapazt hefir af völdum stríðsins, til þess að fyrirbyggja, að vörur sem keyptar voru og greiddar með fyrirstríðsverði, væru hækkaðar óeðlilega, og um leið gerir það verðlagsnefnd hægara að hafa eftirlit með vöruverðinu.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en vil leyfa mér að óska þess, að því verði vísað til allshn. að umræðu lokinni.