29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

98. mál, verkamannabústaðir

*Pétur Halldórsson:

Það er ekki hægt að ræða skipulag bæjarins í sambandi við þetta mál. Það er satt, og ég hefi oft haft áhyggjur af því, að bærinn er óþarflega stór, miðað við mannfjölda og dýr í rekstri. Þetta kemur bara ekki þessu frv. við, eða hitt, hvort bærinn er ljótur í augum þessa sonar hans, sem síðast talaði. Ég hélt honum þætti fæðingarbær sinn fallegur og skemmtilegur. Nú þykir honum hann ljótur, og að því er virðist mest af því, að ég sé borgarstjóri. En aðalatriðið er, hvernig hægt sé að fá lán til eðlilegra bygginga. Ég held því fram, að opnun veðdeildarinnar sé nauðsynleg, því að nú sé búið að nota eins og fært reynist samvinnubyggingarfélögin og stöðva ábyrgðir á frekari lánum til þeirra. Árangur sá, að nokkrir menn í tveim flokkum hafa fengið góð og ódýr hús, sýnir einungis, að slík löggjöf er því verri sem hún gefur meiri fríðindi. Og þá eru lögin um verkamannabústaði verst, því að þau gefa fáeinum mönnum möguleika til að eignast hús sín þannig, að helmingurinn í þeim sé gefinn, miðað við aðra húskaupendur. Út af slíkum lögum er von, að spinnist deilur eins og þær, sem nú hefir mátt heyra milli hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. félmrh.