07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Ísleifur Högnason:

Ég verð að þakka þá viðleitni, sem kemur fram hjá hv. þm. A.-Húnv. í því að gagnrýna ríkisreikninginn fyrir árið 1937. Hinsvegar verð ég að átelja Sjálfstfl. fyrir að kjósa þann mann til þessa starfs, sem sízt var hæfur til þess vegna þess, að hann er algerlega óbókhaldsfróður maður. Það er þess vegna auðvelt fyrir hæstv. ráðh., sem er bókhaldsfróður að snúa út úr fyrir honum og gera hann hlægilegan fyrir smávegis misskilning. En sökin hvílir auðvitað á Sjálfstfl., að hafa valið þennan mann til þessa starfs.

Ég ætla fyrst að byrja á því að mótmæla því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það skipti engu máli, þó sjóðseign væri færð hærri um áramót heldur en hún raunverulega væri. Það væri t. d. gaman að fá það upplýst, hvernig á því standi, að hjá tóbakseinkasölunni eru í sjóði rúmar 338 þús. kr., því þó eldri bókum hafi verið haldið opnum, þá getur það ekki munað svo miklu. Hjá áfengisverzluninni er t. d. örlítið í sjóði um áramót, svo það gefur tilefni til að halda, að gjaldkerinn geymi meiri eða minni upphæðir í sjóði óvaxtaðar.

Það er annars óviðkunnanlegt við 1. umr., að allar aths. skuli ekki vera teknar lið fyrir lið

og skýrðar. Það væri betra fyrir okkur hina, sem ekki komum nálægt endurskoðuninni, ef þær væru allar skýrðar fyrir okkur, áður en ríkisreikningurinn kemur til 2. umr. Ég myndi t. d. óska þess, að hæstv. forseti, sem er einn af endurskoðunarmönnunum, gerði grein fyrir þeim aths., sem hann hefir gert.

Ég ætla þá að minnast á 1. aths. hv. þm. A:-Húnv. við ríkisreikninginn 1937. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofnanir ríkisins verja á árinu almikilli upphæð til auglýsinga, og er þeirri upphæð, að því er virðist, varið til að styrkja blöðin fremur en þarfir stofnananna kalli á þessi fjárframlög. Ég hefi dregið saman þessar upphæðir hjá eftirtöldum stofnunum: Áfengisverzluninni, tóbakseinkasölunni, viðtækjaverzluninni, bifreiðasölunni og landssmiðjunni, og er það samtals kr. 19 700. Þetta skiptist þannig á blöðin: Nýja dagblaðið kr. 5388; Alþýðublaðið kr. 4 081; Morgunblaðið kr. 828; Vísir kr. 700; Þjóðviljinn kr. 333 og önnur blöð og tímarit kr. 8 424.“

Ég vil gera fyrirspurn, hvort það sé tilfellið, að neytendur tóbaks og brennivíns sé helzt að finna hjá lesendum Nýja dagblaðsins og Alþýðublaðsins.

Það er vitanlegt, að með þessu eru ríkisstofnanirnar að styrkja útgáfu ákveðinna blaða flokkanna, svo það er varla hægt að líkja þessu við annað en þjófnað. Ég sé eiginlega ekki mun á beinum þjófnaði og því, að fara svona óheiðarlega með fé ríkisins. Það er vitað, að forráðamenn blaðanna leggja stórfé með blöðunum, og það, sem ríkið þannig borgar fyrir auglýsingar, verður til þess að spara þeirra fé.

Þess er skemmst að minnast, að verkamenn í Vestmannaeyjum ætluðu sér að fara að gefa út blað. Ég var fenginn til þess að hringja til bæjarfógetans til þess að fá auglýsingar frá verðlagsnefnd. Þegar ég hringdi til hans, þá svaraði hann, að hann hefði fengið fyrirmæli um það frá viðskmrh., að hann mætti aðeins auglýsa í íhaldsblaðinu „Víði“ í Vestmannaeyjum. Þetta blað hefir nú stundum verið að hnýta í hæstv. ráðh., svo hann er með þessu að borga undir skammagreinar um sjálfan sig.

En mér þykir vanta í þessar aths. að gera grein fyrir því, hvaða vinnuafköst ýmsir forstjórar, fulltrúar, bókarar og nefndir láta í té fyrir þá tugi þúsunda, sem borgaðar eru til þeirra. Það er í raun og veru aðalatriðið, hvaða vinna er látin á móti þeim peningum, sem borgaðir eru. Það er á almannavitorði, að stj.flokkarnir halda uppi bitlingalýð í kringum sig, og borga þannig tugi og hundruð þúsunda til fólks fyrir sama sem enga vinnu. Skyldi ekki vera hægt að fækka þessum aðalbókurum, fulltrúum og nefndum? Annað skrifstofufólk á ríkisskrifstofunum mun vera svo lágt launað, að það er ekki sambærilegt við það, sem borgað er hjá einkafyrirtækjum, eins og hæstv. ráðh. hefir bent á.

Sem lítið dæmi úr þessum aths., sem ég álít margar hverjar réttmætar, vil ég benda á, að þekktur skriffinnur hefir fengið 2500 kr. fyrir að semja bók um jurtakynbætur. Mér vitanlega hefir sá maður enga þekkingu á þessu efni, enda hafa ekki fengizt fullnægjandi svör við þessari aths.

Ég vil svo ítreka það, að ég óska eftir, að nánari grein sé gerð fyrir aths. við þessa 1. umr. heldur en þegar hefir verið gerð.