07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 4. landsk. stóð hér upp til að aðstoða hv. þm. A.-Húnv. og kom þar sem hinn bókhaldsfróði maður, sem vantaði af hálfu Sjálfstfl. En mér fannst lítið batna við hans tilkomu.

Ég var búinn að upplýsa það um sjóði í reikningslok, að þessar stofnanir hafa haldið reikningunum opnum talsvert fram yfir áramót, — ég veit ekki hvað lengi á hverjum staðnum. Þá kemur út sú niðurstaða, sem orðið hefði, ef allar tekjur og greiðslur hefðu verið komnar til reiknings 31. des. og sjóðsupphæðin verið talin þann dag samkv. því. (ÍslH: Ég spurði, hver tilgangurinn væri). Tilgangurinn er auðvitað þessi, að fá allt með. Það er einskær misskilningur. að þetta þýði tap á bankavöxtum, því að hver upphæð er sett í banka um leið og hún innheimtist. Þessi sama aðferð er höfð með reikningslok landsreikningsins. Sjóður í reikningslok er þar ekki það, sem í kassanum liggur 1. jan. heldur hinn reikningslegi sjóður, sem til er, þegar allar tekjur eru komnar inn og greiðslur greiddar. Þetta er formsatriði, sem vel má haga öðruvísi, t. d. eins og danska ríkisbókhaldið gerir. En Norðmenn hafa sömu aðferð og hér hefir tíðkazt.

Þetta auglýsingamál, sem hv. þm. fór út í, er þannig til komið, eins og oft hefir verið upplýst, að þegar Nýja dagblaðið var stofnað, gerðu yfirvöld þessa bæjar þá ályktun að auglýsa þar ekki, heldur aðeins í blöðum, sem þeim stóðu nær, og sögðust ekki þurfa önnur blöð til að koma auglýsingunum til almennings. Við sögðum þeim blöðum þá, að það gætum við líka án hjálpar þeirra, og auglýstum í Nýja dagblaðinu. — Hitt er annað mál, sem hv. þm. talaði um, að við viljum ekki auglýsa í Þjóðviljanum, því að við álítum þann snepil ekki þess virði, að nokkur auglýsing sjáist þar frá ríkisstj., og er vel hægt að ræða það mál við þingmanninn síðar, ef hann óskar.

Viðvíkjandi því, hve mikið fé sé greitt utan heimildar, eins og hv. þm. A.-Húnv. falar um, á ýmsum reikningum, sem hann telur upp, og hve reikningsskilin séu í. mörgu óþolandi og hve landsreikningurinn komi seint, finnst mér, að nú veitti ekki af, að þessi hv. þm. og sumir samherjar hans tækju sig saman í andlitinu til að sjá um, að slíkt komi ekki oftar fyrir. Eins finnst mér, að hann hefði sjálfur átt að ganga úr skugga um sumt af því, sem hann spyr um. Gat hann ekki farið í bækur stofnananna til að sjá það sjálfur, hvenær reikningum þeirra var lokað? Honum hefði áreiðanlega ekki verið meinað það; ég held hann hafi nú fengið að sjá svo marga kladdana, og ég skil ekkert í þessari ómannblendni hjá honum, að gera það ekki.

Staðhæfingar hv. þm. (JPálm) í sambandi við það, að af góðri viðleitni minni hafi enginn árangur orðið, eru margar byggðar á misskilningi, sem varla tekur því að eltast við hann, svo sem þegar um eignahreyfingar er að ræða, ýmsar tilfærslur á reikningum fram og til baka o. s. frv. Umframgreiðslur hafa farið lækkandi ár frá ári og urðu hlutfallslega lægstar síðasta ár. Og ég veit ekki, hvort það hefir orðið „sjálfrátt“ eða „ósjálfrátt“, eins og sumir menn vilja nú komast að orði um slíka hluti. Hv. þm. talaði um botnleysu í reikningum, og ef hér er um botnleysu að ræða, er hún sumt af því, sem hann sagði.

Ég vil að lokum segja það, að hann þarf ekki fyrst og fremst að bera áhyggjur um fjárhag ríkisins, ef hægt er að halda honum í horfinu framvegis, ekki verr en hingað til. Og honum er óhætt að vanda betur málsmeðferð sína. Ummæli sín um símskeytið og greiðsluna til Eskifjarðar reynir hann nú að afsaka. Það var annar tónn en þegar hann kom fyrst með það; þá var hann ekkert að geta um, að greiðslan byggðist á vandlegri rannsókn. Hann veit líka, hvernig stendur á þessum 52 þús. kr. í stað 20 þús., sem hann telur samsvara þeim á landsreikningnum. Hann veit, að sumt af þessu var atvinnubótafé og var fært á þann lið í reikningum ríkissjóðs. Annað var fé úr jöfnunarsjóði, sem hreppnum bar, og bókfært þannig. Í þriðja lagi var svo opinberi styrkurinn. Það er ástæðulaust að finna að bókfærslu þessa fjár, hvað sem hinu líður, hvort upphæðin hafi verið hæfilega há.

Ég hefi mest rætt þau ummæli hv. þm., sem koma sjálfum reikningsskilunum við, því að þau ein snerta fjármálaráðuneytið beinlínis. En ég vil enn taka fram, hvaða barnaskapur það er, að hægt sé að leggja á fjmrh. ábyrgð á hverju litilræði, sem greitt er. Það verður heldur að skapa ábyrgð hjá sérhverjum aðila, sem með þessi atriði fer.