07.12.1939
Neðri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

Jón Pálmason:

Við 1. umr. þessa frv. fór ég nokkrum orðum um ríkisreikninginn fyrir árið 1937, og í sambandi við hann þær aths., sem yfirskoðunarmenn gerðu, og svör ráðh. og till., er honum fylgdu. Nú hefir hv. fjhn. afgr. þetta mál á þann veg, að ekki er unnt annað en að láta umr. fara fram um þennan reikning og aths. í sambandi við hann. Satt að segja læt ég mig ekki miklu skipta, hvernig fer um þær till., er fram hafa komið frá meiri og minni hl. fjhn., þó að umr. um þær eigi að bíða þar til þær verða teknar á dagskrá. Þær eru líka takmarkaðar við þröngt svið. Við 1. umr. þessa máls gat ég þess, að þær aths., sem gerðar voru af endurskoðendum landsreikninganna sameiginlega, og einnig þær, sem ég hefi gert „prívatlega“, væru þannig vaxnar, að tilgangurinn með þeim væri sá, að koma því til leiðar, að breytt yrði til með þá hluti, sem að var fundið í rekstri ríkisins. M. ö. o. var tilgangurinn ekki fyrst og fremst sá, að álasa þeim, sem hlut hafa átt að máli, heldur hitt, í fyrsta lagi að fá því til vegar komið, að það endurtaki sig ekki, sem að hefir verið fundið. Þessu hefir verið illa tekið og mjög á annan hátt en mér hefði þótt eðlilegt og skiljanlegt. Ég vil í fyrsta lagi minnast á það, sem mun vera alkunnugt, að einn forstöðumaður hefir stefnt út af tiltölulega meinlausri fyrirspurn, og ætla ég ekki að fara meira inn á það.

Í öðru lagi er það kunnugt, að hæstv. viðskmrh. tók mjög gæflegri ræðu frá minni hálfu við 1. umr. þessa máls mjög illa, og kom þar fram samskonar regla og þekkzt hefir hjá honum áður, sem sé að allt væri í fínasta lagi og engin ástæða til að finna að neinu því, er snertir fjárstjórn hans og reikningsskil öll. Hæstv. viðskmrh. skrifaði svo grein í blað sitt og fór þar ýmsum heldur óeðlilegum orðum um mína frammistöðu í sambandi við endurskoðun ríkisreikninganna. Þeirri grein hefi ég ekki svarað, vegna þess að ég áleit, að það mál hlyti að biða þar til ríkisreikningurinn yrði til 2. umr. hér á Alþ. Hið þriðja, sem gerðist í þessu máli, var svo það, að eftir að minni hl. fjhn. hafði skilað till., sem er mjög vægilega orðuð og ekki tekin fyrir nema örfá atriði af þeim aths., sem endurskoðunarmenn ríkisreikninganna höfðu vísað til Alþ., þá flytur meiri hl. fjhn. eða einhver úr þeirri n. hér á Alþ. plagg með fyrirsögninni þáltill., en það er eiginlega ekki aðalatriði, því að grg. þess eru ósvífnar skammir í minn garð fyrir hlutdrægni í endurskoðun ríkisreikninganna, skammir, sem byggðar eru á vanþekkingu, misskilningi og illkvittni. Mér þykir það í sjálfu sér ekki ákaflega undarlegt, þó að svona plagg kæmi fram frá form. fjhn., hv. l. þm. Rang., en ég á mjög erfitt með að trúa því á jafnprúða menn sem hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að þeir eigi þar hlut að máli. Annars bera þessar undirtektir undir till. mínar vott um þá fjármálaspillingu, sem hefir verið ríkjandi hér á undanförnum árum, og það mun kosta mörg orð og jafnvel óvild og skammir að ráða bót þar á, og sennilega aldrei hægt meðan þeir menn ráða nokkru um, sem höfuðsök eiga á ástandinu.

En að því er snertir ádeilur á þau atriði í ríkisreikningnum, sem vísað hefir verið til aðgerða Alþ., þá skal þess getið, að ýmsir þm. úr liði fyrrv. ríkisstj. hafa tekið þeim mjög á annan veg en þessir menn, sem ég nefndi áðan, og á ég þar sérstaklega við þá, sem sæti eiga í hv. fjvn., því að mörg þau atriði, sem endurskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa vísað til aðgerða Alþ., hefir hv. fjvn. tekið til athugunar og gert um þau samþykktir, sem nú hafa verið að koma fram í frv., sem nm. í hv. Ed. hafa lagt fyrir Alþ. Munu þær till. koma nánar fram áður en þessu Alþ. verður slitið.

Úr því að svo er komið, að þessum aths. hefir verið tekið á þann veg, sem raun er á orðin, þá get ég sagt það, að eftir því, sem meiri úlfaþytur er gerður af þeim aðilum, sem hlut eiga að máli, því betur líkar mér. Það er ekki af því, að ég hafi tilhneigingu eða löngun til að standa í skömmum og illindum utan þings í blöðum eða á annan veg, og ekki heldur vegna þess, að mér sé nein ánægja að því, að þeir menn, sem að ýmsu leyti eru greindir og ég hefi að mörgu leyti ekki nema gott eitt um að segja, sýni sig í því að gera sig að undri, heldur er það vegna þess, að eftir því, sem þessir menn ganga lengra í að gera úlfaþyt út af þessu, eftir því smíða þeir fleiri vopn á þá fjármálaspillingu, sem ríkt hefir hér á undanförnum árum, og þá gefst betra tækifæri til þess að láta almenning í landinu vita, hvernig fjármálaafstaðan hefir verið undanfarin ár. Og þeir gera líka annað. Þeir knýja það fram, að ýms þau vopn, sem haldið hefir verið í skeiðum undanfarið, bæði af mér og öðrum, verður nú heimtað að dregin verði úr slíðrum og sýnd nakin á vígvelli íslenzkra stjórnmála. Hvort þetta verður til happa eða ekki, á reynslan eftir að skera úr.

En svo skal ég ekki fara fleiri orðum um þetta, en snúa máll mínu nokkru nánar að þeim atriðum, sem hér er ágreiningur um, og mun ég þess vegna fara dálítið gegnum ríkisreikninginn, aths. við hann, þau svör, er þar um ræðir, og þær till., er vísað hefir verið til aðgerða Alþ. Ég skal fyrst geta þess, að ýmislegt af því, sem við endurskoðunarmennirnir allir sameiginlega höfum talið athugavert í rekstri ríkisstofnana, er þannig vaxið, að áreiðanlega er brýn þörf á því að fá þar breytingu á. Í fyrsta lagi má telja það, að þær ríkisstofnanir, sem að ýmsu leyti eru reknar í þeim tilgangi, að ríkið hafi tekjur af þeim, t. d. verzlun með nautnavörur o. s. frv., hafa á undanförnum árum verið reknar á þann veg, að þær vörur hafa verið teknar að láni hjá erlendum þjóðum, og svo langt hefir þetta gengið, að við árslok 1937, sem þessi ríkisreikningur nær til, munu skuldir aðeins einnar þessarar verzlunar, tóbakseinkasölunnar, erlendis hafa numið hærri upphæð heldur en allur ársinnflutningur hennar. En hvað hinar einkasölur ríkisins snertir, eru skuldir þeirra erlendis nokkru minni, en allt gengur þar í sömu átt. Þar við bætist svo, að ýmsar af þessum stofnunum hafa verið látnar lána út vörur hér innanlands að meira eða minna leyti. Þetta er atriði, sem verður að breyta svo fljótt sem því verður komið við. Ég skal játa það, að ekki er unnt að breyta því í skyndi, vegna þess fjárhagsástands, sem ríkisstj. undanfarinna ára hefir skapað í okkar landi. Það verður þess vegna að fikra sig áfram smátt og smátt til þess að fá þessu breytt.

Svo langt hefir verið gengið að því er þetta snertir, að áfengisverzlun ríkisins hefir lánað einu fyrirtæki með einkasöluaðstöðu upphæð, er nemur 93 þús. kr. Ég verð að telja, að þetta sé atriði, er sé fullkomlega þess vert, að að því verði fundið. Það er nú svo, að ég er enginn öfgamaður að því er snertir nautnavörur, og enginn bannmaður né annað slíkt, en ég vil hafa hóf á þessum hlutum, og þegar svo langt er gengið, að slíkar vörur eru teknar að láni erlendis og lánaðar út hér innanlands, tel ég slíkt ganga úr hófi fram, þótt það sé að einhverju leyti gert til þess að afla tekna fyrir ríkissjóð.

Í öðru lagi er það svo, að rekstrarkostnaðurinn við ýmsar af þessum stofnunum er óhæfilega hár að mínu áliti. Það er alkunnugt, að hann hefir stöðugt verið að hækka á undanförnum árum. Ég verð að segja það, að það er augljóst mál, að ef svona gengur áfram, þá er þess ekki að vænta, að þessi rekstur sé til þess hagnaðar, sem tilætlunin hefir verið með þessari starfsemi. Ég skal í þessu sambandi nefna það, að mína fyrstu persónulegu aths. gerði ég viðvíkjandi auglýsingakostnaði. Það er nú eitt, að þess hefir víst ekki verið stórvægilega gætt, hvernig farið hefir verið með fé þeirra stofnana, sem hér um ræðir. Það er á það drepið, að nokkrar þessara stofnana hafa varið til auglýsingakostnaðar árið 1937 samkv. ríkisreikningnum 19 700 kr. Þetta hefðu ekki verið mjög smávægilegir hlutir eitt út af fyrir sig, en þegar þar við bætist, að mjög miklu af þessum auglýsingakostnaði hefir verið varið alveg að óþörfu til blaða Framsfl. og Alþfl., finnst mér sérstök ástæða til að gera það að ádeilumáli og mælast til, að framvegis verði ekki meira fé varið af þessum stofnunum til auglýsinga en nauðsyn krefur, hvað sem segja má um hagsmuni þeirra blaða, sem hér um ræðir. Ég vil ennfremur minnast á það í þessu sambandi, að ein af þessum stofnunum, tóbakseinkasala ríkisins, hefir fengið talsvert háar upphæðir frá erlendum firmum. Það kom fram í upplýsingum til fjárveitingan. á Alþ. 1938, að tóbakseinkasalan fékk 1936 erlendis frá nokkuð á 5. þús. kr. til auglýsingastarfsemi, og það fór allt til Alþýðubl. og Nýja dagbl. Ég fór fram á það meðan endurskoðun ríkisreikningsins stóð yfir, að við fengjum að vita skýrt, hve mikið þetta fé hefði verið árið 1937. Svo skrifuðum við endurskoðunarmenn tóbakseinkasölunni allir sameiginlega og kröfðumst þess, að hún gæfi skýrslu um, hve mikið þetta fé hefði verið árið 1937, en það kom engin skýrsla að heldur. Þess vegna gerði ég aths. viðvíkjandi þessu og spurði hæstv. viðskmrh., hve há þessi upphæð hefði verið. En vitið þið, hvað hæstv. viðskmrh. sagði? Hann svaraði því, að tóbakseinkasalan hefði ekki fengið neitt fé til auglýsingastarfsemi, heldur forstjórinn, og hann væri milligöngumaður um auglýsingastarfsemi undanfarinna ára. Þetta er alveg ósamrýmanlegt við það, sem fjárveitingan. hafði fengið upplýsingar um, að verið hefði á árinu 1936.

Þá skal ég víkja nokkuð að ásökunum þeim, sem meiri hl. fjhn. kemur með í plaggi sinu. Er þá fyrst það atriði, er snertir umframgreiðslur ríkisverzlana til launa handa föstum og sæmilega launuðum starfsmönnum, sem meiri hl. fjhn. og ýmsir þm. hafa talið stórt atriði til ásakana á mig fyrir hlutdrægni, að ég hefi vísað því til aðgerða Alþ., að þar hafi verið eytt fé að óþörfu. Ég skal skýra þetta nokkuð og byrja á því að minnast á tóbakseinkasöluna og launin þar. Það kom m. a. fyrir, að hv. fjvn. Alþ. fékk bréf um það, að einn starfsmaður tóbakseinkasölunnar hafi farið þaðan, vegna þess að hann fékk starf annarstaðar. Mun hann hafa verið gjaldkeri tóbakseinkasölunnar. Í þessu bréfi var farið fram á, að leyft yrði, að launum þessa manns yrði jafnað niður milli starfsfólksins til launahækkunar, því að það myndi verða hægt að komast hjá því að bæta nýjum starfsmanni við. Þetta hafði hæstv. þáv. fjmrh. (EystJ) samþ., að gengið yrði inn á, því að það hefði ekki í för með sér neinn nýjan kostnað. Ég skal ekki fara neitt út í það, hvort þetta séu eðlilegar till. eða ekki; það verða hv. þm. að gera upp við sjálfa sig. En þegar svona till. koma fram, sýna þær í fyrsta lagi, að þarna hefir verið einn starfsmaður, sem ekki var þörf fyrir, og í öðru lagi, að starfsmenn þessarar stofnunar, sem hafa hærri laun en tíðkast a. m. k. sumstaðar annarstaðar hjá ríkinu, fara þó fram á, að launum þessa manns sé jafnað niður á hina. Annars skal ég geta þess um allar þessar stofnanir, að eftir því, sem ég hefi kynnt mér þessi mál nánar, eftir því hefi ég sannfærzt betur um, að það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. (HermJ) hefir lýst yfir, að það sé víða hið mesta mein, að ýmislegt af því fólki, sem vinnur við stofnanir og starfrækslu ríkisins, vinnur ekki eins vel og þyrfti að vera. Ég veit það vel, að við allar þessar stofnanir er margt af góðu fólki, sem vinnur sín verk af prýði, en svo er líka við þær allar meira eða minna af fólki, sem er á einskonar framfæri á vegum þessara stofnana. Út í það skal ég ekki nánar fara, en myndi geta fært frekari rök fyrir, ef tækifæri gefst til.

Þá er það skoðun mín, eins og kom fram í frv. hér á Alþ. 1938, að það væri réttast og hagkvæmast að leggja niður landssmiðjuna. Það byggist á því, að ef það á að vera hugsanlegt, að það fyrirtæki sé samkeppnisfært, og ef það ætti að vera rekið á þann hátt sem þyrfti, þá væri nauðsynlegt að leggja mjög mikið fé í nýjar byggingar. Annaðhvort verður því að leggja það fyrirtæki niður og láta einkareksturinn annast þá starfsemi, eða leggja að nýju mikið fé í byggingar fyrir stofnunina.

Um ríkisútvarpið skal ég ekki fara mjög mörgum orðum, en ætla að geta þess, að um rekstur þess á árinu 1937 hélt ég útvarpserindi í fyrra, og hafa þá hv. þm. heyrt, hvaða aths. ég gerði.

Þá hefi ég gert aths. um og lagt töluverða áherzlu á, að það væri óhæfilega mikið talið í sjóði hjá ýmsum fyrirtækjum ríkisins við árslok. Að þessu leyti er ríkisútvarpið í raun og veru undantekning, því að það taldi ekki í sjóði nema 800 kr., þegar það lokaði reikningi sínum við áramótin 1937–1938. Það ber náttúrlega að viðurkenna, að í þessu efni er það allt annað hjá ríkisútvarpinu en hjá sumum þeim stofnunum ríkisins, sem telja í sjóði jafnvel svo hundruðum þús. kr. nemur. Að vísu eru þær að ýmsu leyti ekki sambærilegar við ríkisútvarpið, en ég held, að sú regla sé hin réttasta, að reikningum allra slíkra stofnana væri lokað sem næst áramótum og ekki talið í sjóði í slíkum reikningum nema sú upphæð, sem raunverulega er.

Næst skal ég svo minnast á þær aths., sem ég gerði út af rekstri pósthússins í Rvík. Það, sem stendur í aths., og það, sem hv. þdm. hafa aðgætt, er, að rekstrarkostnaður pósthússins í Rvík var 51 þús. kr. hærri en fjárlög heimiluðu. Orsakirnar, sem til þess liggja, eru aðallega þær. að ríkisstj. gaf út starfsreglur fyrir póstmenn 16. jan. 1937. Þessi reglugerð ríkisstj. hafði í för með sér 40 þús. kr. hækkun á útgjöldum við pósthúsið. Þegar slík aðferð er höfð, að gefa út bak við Alþingi reglugerð, sem fer í bága við fjárlög, er það athugavert fyrir hv. þm. Enda er það svo hjá mörgum starfsmönnum pósthússins. að aukalaun eru borguð fyrir eftirvinnu nærri eins þá og föstu launin. Það kann að vera, að hv.. 1. þm. Rang. og hv. viðskmrh. finnist þetta rétt og séu ánægðir yfir því, en það verður þá að ráðast, hvað öðrum hv. þm. finnst og öllum almenningi í landinu. Þessi reglugerð, sem ég gat um, er ekki birt í Stjórnartíðindum og þess vegna lítt kunn. Hvað það síðara snerti áttu launin að hækka með reglugerð, sem stjórnin setti, og er hún því búin að gilda lengur við pósthúsið. Er ómögulegt að segja eins og er, hve mikil aukaútgjöld þetta hefir í för með sér. Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en hefi tekið það sem eitt dæmi af mörgum, til að sýna eyðslu ríkisstj. umfram heimiluð fjárframlög til stofnana ríkisins. Þetta er ljóst dæmi, sem ég tel vera til athugunar, en ekki eftirbreytni. Annmarkarnir á því eru ljósir, en það er erfitt að bæta þá eins og vera þyrfti.

Nú skal ég koma að þessu dæmalausa plaggi frá hv. 1. þm. Rang. Það undarlega skeður, að eitt af því, sem hv. þm. þykir mest að, er það, að ég hafi ekki gert nógu margar aths. Ég hafi ekki gert aths. við það, sem ég átti að gera aths. við, og er fullyrt um hlutdrægni mína í þessu makalausa plaggi. Þessar ásakanir, að ég hafi ekki gert nógu miklar aths., vil ég ofurlítið gera að umtalsefni hér. Ég gat þess við 1. umr. þessa máls og lagði áherzlu á það, að mér fyndist allur þessi rekstur ríkisins og öll reikningsfærsla í það mikilli botnleysu, að það þyrfti miklu meiri tíma en við yfirskoðunarmenn reikninganna höfðum yfir að ráða til að athuga það nægilega. Það er ekki gott að gera við því, þó að það fari framhjá manni, sem full ástæða er að gera aths. við. Ég verð að segja það vegna þeirra ásakana í minn garð, sem hv. l. þm. Rang. kom með um það, að ég hefði ekki gert nógu miklar aths., að þá væri full ástæða að finna að þessu sama hjá hv. samstarfsmönnum mínum, sem gerðu miklu færri aths. en ég. Samstarfið við þá hv. 2. landsk. og hæstv. forseta var allt í bezta lagi að því leyti, að þeir eru ljúfir og samvinnuþýðir menn, en það kom fram hjá þeim, að þeir vildu gera miklu færri aths. en ég og finna að færri hlutum. Þetta stafar af því, að þeir hafa undanfarið verið með í því að samþ. það, sem ég tel athugunarvert við rekstur ríkisins. Í þessu sambandi skal ég víkja að þeim hlutum, sem hv. 1. þm. Rang. taldi í blaði sínu sönnun þess, að ég hefði beitt hlutdrægni. Það, sem hann telur fram, eru einkum aths. mínar um pósthúsið í Rvík, vegamálastjóra og eitt og annað, sem hann telur upp. En allur hans prósentureikningur er ekki annað en vitleysa og sannar ekki, að hlutdrægni hafi verið höfð í frammi. Hann er í samræmi við það, sem hv. viðskmrh. kom með sem sönnun þess, að ekki hefði verið eytt um skör fram, að í stjórnarráðinu hefði kostnaðurinn aðeins aukizt um 6½% á 10 árum, frá 1926–1936, en það kom í ljós, að aukningin var 97 þús. kr. á þessu tímabili. Eins er það með pósthúsið, þar sem eytt var 51 þúsundi umfram fjárlög. Það átti að bera vott um hlutdrægni frá minni hálfu, að ég vildi vísa því til Alþ., en til þess fannst mér full þörf, og þeir, sem telja það gott, eru ekki vandir að því, hvað ein ríkisstjórn má leyfa sér. Hvað snertir umframgreiðslu til vegamálastjóra, þá hafði kostnaður við mælingar farið fram úr áætlun mjög mikið. Svar vegamálastjóra við fyrirspurnum mínum upplýsti, að á árinu 1937 hefði starf hans verið mikið aukið, með því að setja undir umsjón hans alla pestarvegina, sem svo eru nefndir, og kostnaðurinn þess vegna meiri. Auk þessa átti hann að sjá um yfirstjórn mælinga og undirbúning og framkvæmd atvinnubótavinnu, og auk þess hafði stjórnin sjálf fyrirskipað honum að taka fleiri verkfræðinga en hann óskaði eftir. Þetta eru orsakirnar til þess, að kostnaðurinn varð svo mikill við þetta starf. Þó að ég hafi gert aths. við þetta, er engin ástæða til að taka hart á þessum kostnaðarauka. Svo segir hv. 1. þm. Rang., að hér sé um að ræða pólitíska hlutdrægni, þar sem vegamálastjóri sé minn flokksbróðir. Einnig áttu till. mínar og aths. um umframgreiðslu á skólum landsins að bera vott um hlutdrægni. Sú ásökun hv. þm. er fullkomlega byggð á misskilningi, eða einhverju ennþá verra. Í aths. mínum er þess getið, að kostnaður við 4 skóla umfram áætlun hafi orðið 49 þús. kr., og er tekið sem dæmi kostnaður við menntaskólann í Rvík, sem varð 18 þús. kr. umfram það, sem heimilað var. Þetta átti að vera enn ein sönnun um pólitíska hlutdrægni, af því að rektor skólans væri andstæðingur minn í pólitík. Ég veit ekki, hvað þessum hv. þm. kann að geta dottið í hug, úr því að hann getur komið með svo heimskulegar getsakir. Ég tók þennan skóla sem dæmi aðeins vegna þess, að hjá honum eru hæstar umframgreiðslur, hjá næsta skóla aðeins 12 þús. kr. Nú kemur þessi hv. 1. þm. Rang. með sinn prósentureikning og segir, að „prósentvís“ séu lægri umframgreiðslur við menntaskólann, þar sem kostnaðurinn sé hlutfallslega meiri, og þetta sanni hlutdrægni mína. Ég vil taka fram, ekki sízt af því að rektor menntaskólans er hér viðstaddur, að hann er eins og fjöldinn allur af forstjórum hjá ríkinu, að þeir vilja fá sem mest af peningum handa sínum stofnunum. Það vill náttúrlega hver skara eld að sinni köku, en ásakanirnar frá minni hálfu eru ekki til hans, heldur í garð ríkisstj., sem borgar gífurlegar upphæðir umfram fjárlög til stofnana, sem ríkið rekur. Ég skal nú ekki fara út í það að rekja sundur ýmsar aths., sem ég hefi gert og sanna illa meðferð á ríkisfénu á því ári, sem reikningurinn hljóðar um. Ég skal þó aðeins geta þess, að allar skýrslur, sem settar eru í aths., eru frá minni hálfu settar til að sýna, að hér þarf breytinga við, og ekki má halda áfram á sömu braut og undanfarið, ef von á að vera fyrir okkur um að geta haldið áfram að lifa í frjálsu þjóðfélagi. Allir skattar fara sívaxandi svo óhæfilega, að þeir eru að því komnir að sliga okkar framleiðslu.

Ég skal halda áfram að minnast á fleiri af þeim ásökunum, sem hv. 1. þm. Rang. kom með. Það var eitt atriði, sem átti að vera sláandi um illgirni mína, að ég kom með úrskurðartill. snertandi fiskimálan., sem bendir á, hvernig starf þeirrar nefndar hefir misheppnazt. Þær till. í aths. mínum voru sannanir fyrir þeirri vissu, að n. væri ekki til neinna happa og málum hennar væri bezt komið hjá öðrum aðilum. Nú skal ég taka fram, að það, sem ég hefi sagt um þessa stofnun, og það, sem þessar till. segja, er að raunverulega hafi nefndin tillögurétt. Hún er eitt af þeim fyrirtækjum, sem sjálfsagt er að losa ríkissjóð við. Stofnun fiskimálan. og sú aðferð, sem var höfð um hana, er í mínum augum augljóst dæmi þess, hvernig pólitísku valdi meiri hlutans hefir verið misbeitt undanfarið, til að niðast á minni hl. Það þurfti að breyta verkunaraðferðum og sölu á fiskafurðum, og það var sjálfsagt að stofna samband, sem hefði vald til þessa. Hin pólitíska afstaða meiri hl. á Alþ. réði því, að það var sett nefnd, sem ekki hafði þekkingu á þessum hlutum. Ég skal segja hv. þdm., hvernig ástæðurnar voru í fiskimálunum. Hver n. starfaði ofan á aðra við fiskframleiðsluna. Svo var hlaðið sköttum á sjávarútveginn, beint og óbeint, langt umfram þörf. Nú stendur þannig, að í S. Í. F. er 7 manna stjórn, í fiskimálan. 7 menn, í útflutningsn. 5 menn, og þar fyrir utan Fiskifélag Íslands, sem í raun og veru er stéttarfélag. svipað eins og Búnaðarfél. Ísl. er stéttarfél. bænda. Allir þessir menn, milli 20 og 30, eru á launum, fyrir utan framkvæmdarstjórana, og kostnaðurinn hvílir sem farg á framleiðslunni. vitlausast er að láta fiskimálan. vera við lýði, því að það starf, sem hún vinnur, er verra en ekki neitt. Henni eru fengnir miklir peningar í hendur, sem réttara væri að S. Í. F. fengi, og þeir peningar fara fyrir störf nefndarmanna og misheppnaða starfsemi vegna þekkingarskorts. Aths. mínar um þetta hafa verið teknar að nokkru til greina af ríkisstj. og fjvn., að því leyti, að peningarnir yrðu teknir af fiskimálan. og lagðir í ríkissjóð, en í henni væri fækkað niður í 3 menn, sem ekki hafa nema 10 kr. fyrir hvern fund í starfslaun.

Ég skal ekki fara lengra út í að ræða þær ásakanir, sem fram hafa komið um hlutdrægni frá minni hálfu í aths., en að síðustu víkja fáeinum orðum að atriði, sem var eitt af helztu deilumálunum við 1. umr. Þá gat hæstv. viðskmrh. þess, að ég hefði ekkert vit á bókhaldi, þegar um tvöfalt bókhald væri að ræða, og færði til sem dæmi aths., er snerti ferðaskrifstofu ríkisins. Það, sem mér þótti óeðlilegt, var, að rekstrarhalli fyrir árin 1936 og 1937 var færður til tekna á efnahagsreikningi sundurliðaður. Ég skal ekkert um það segja, hvort hæstv. viðskmrh. finnist, að færslan eigi að vera svo. En sé það rétt, þá væri eins rétt að færa á efnahagsreikninga allra stofnana ríkisins hallann öll árin, sem ráðh. var fjmrh., þannig: rekstrarhalli 1934, rekstrarhalli 1935, 1936 og 1937, allt sundurliðað. Ég er enginn bókhaldsfræðingur, það skal játað, en ég hygg, að slík færsla þekkist óvíða. Annað er auðséð, sem sé að rekstrarhalli á þessari stofnun á þessu ári nam eftir reikningum hennar 30295 kr., en ríkissjóður hafði lagt fram 44968 kr. Þessi upphæð er rúml. 14 þús. kr. hærri en fært er til reiknings sem halli. Í reikningi ferðaskrifstofunnar er hún talin til skulda við ríkissjóð, en hvergi til eigna hjá ríkissjóði, enda mun sú skuld reynast lítils virði. Einn liður enn kemur óskiljanlega fyrir sjónir; það er, að eignamegin er færður stofnkostnaður. Mér finnst, að það sé eðlilegra, að einhverjar eignir standi á bak við, en innanstokksmunir eru færðir á sérlið, en hér er færður stofnkostnaður 1445 kr. til eignar, án þess að eignir standi á bak við. Þetta fyrirtæki, ferðaskrifstofa ríkisins, er eitt af fleiri dæmum, sem sína, hvernig varið hefir verið fé ríkisins undanfarin ár. Málið var knúið fram og ferðaskrifstofan stofnuð á þeim grundvelli að kosta ríkissjóð ekki einn eyri, heldur lagður skattur á ferðalög í landinu. Sá skattur var 1937 26 þús. kr., en á 2 árum hefir ríkissjóður lagt fram 45 þús. kr., sem ekki eru færðar til eigna hjá ríkinu, en til skuldar hjá stofnuninni. En ég ætla að segja það, að eftir því, sem meira sannast um það, hvernig fjármálaspillingin er og hefir verið í okkar ríkisstofnunum og ríkisstarfrækslu og almenningur fær betur að sjá, hvernig fulltrúar hans hafa farið með sin völd undanfarin ár, eftir því eru meiri líkur til, að breyting fáist á, og þess væri þörf.