07.12.1939
Neðri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. muni síðar gera grein fyrir þeim atriðum, sem hv. þm. A.Húnv. hefir gert að umtalsefni, og ætla ég því nú við 2. umr. að gera lítillega grein fyrir sumum atriðum, sem einnig voru nokkuð rædd við 1. umr., en þá hafði ég ekki fyrir hendi þær upplýsingar, sem þurfti. Það var um útistandandi skuldir ríkisfyrirtækja. Því var haldið fram, að í árslok 1937 væru skuldir þessar í mesta ólestri, og í þáltill. frá minni hl. fjhn. er einnig komið inn á þetta sama mál og þar sérstaklega tekið til, að ástæða sé til að gera till. út af einni stofnun, áfengisverzlun ríkisins. Sama kom fram hjá hv. þm. A.-Húnv., og taldi hann, að þar þyrfti sérstaklega að koma við einhverri umbótastefnu. Nú hefi ég kynnt mér þetta mál betur en við 1. umr. Þá ræddi ég aðallega um raftækjaeinkasölu ríkisins, og kom ég fram með endanlegar upplýsingar um hennar viðskipti, og ætla ég ekki að fara frekar út í það. Þessi fyrirtæki hafa stofnað til skulda með því að kaupa vörur erlendis, og hafa þær skuldir aukizt nokkuð vegna yfirstandandi gjaldeyrisvandræða. Annars er rétt fyrir hv. þm. A.-Húnv. að beina aths. sínum til þess manns, sem nú ræður yfir þessum stofnunum. Mun hann frekar hafa að honum greiðan gang og þá frekar verða farið eftir þessum aths. en ég hefi gert.

Þá kem ég að hinum útistandandi skuldum þessara fyrirtækja, sem ég hefi fengið skýrslu um frá árslokum 1937. Skal ég fyrst minnast á áfengisverzlun ríkisins. Vil ég fyrst upplýsa það, að fyrir 1927, áður en núv. forstjóri tók við, var talsvert lánað af áfengi og einnig rekin lánsverzlun með aðrar vörur, sem einkasalan verzlaði með. Útsölumönnum var lánað allt áfengi, sem þeir fengu til sölumeðferðar, og urðu þeir eigendur varanna við móttöku. Og þótt samið væri um, að þeir skyldu greiða andvirðið um leið og vörurnar seldust, þá leiddi þetta fyrirkomulag til skuldatapa, og það allmikilla.

Þá var og læknum og lyfjabúðum lánaður allur spíritus og hjá lyfjabúðum einum var 93 þús. kr. skuld í árslok 1927, en þá sá hv. þm. A.-Húnv. ekki ástæðu til að flytja um það sérstaka þáltill., án þess að kynna sér málið nokkuð. Séu bornar saman skuldir lyfjabúða árið 1927 og 1937, þá sést, að þær voru, eins og áður er sagt, 93 þús. kr. 1921, en 8400 kr. 1937, og skuldir lækna og sjúkrahúsa hafa á sama tíma lækkað um 34 þús. kr., eða úr 47400 kr. í 12900 kr. Samtals eru útistandandi skuldir áfengisverzlunarinnar í árslok 39000 kr., að frádreginni skuld Hótel Borg, sem skuldaði 93 þús. kr., en í árslok 1927 voru þær 156 þús. kr. Þannig sést, að ef aths. hv. þm. A.-Húnv. átti að eiga á sér nokkurn rétt, hlaut hún að eiga við skuld Hótel Borg, og þá var hreinlegast að taka það fram í hinni umræddu þáltill., og að það var ekki gert, hlýtur að stafa af því, að hinir hv. flm. vilja sem minnst um þessa skuld tala, en ég veit ekki, hvað þeir hafa um að tala, fyrst þeir veigra sér við að nefna hana sérstaklega.

Hv. þm. A.-Húnv. tók það réttilega fram, að það mætti deila um, hvort rétt hefði verið að hleypa Hótel Borg í þessa skuld, sem nú er um 93 þús. kr. Þegar ég varð fjmrh., tók ég strax fyrir það, að þessu fyrirtæki væri nokkuð lánað. og krafðist þess, að það borgaði jafnóðum allar vörur, sem það fengi, og eftir það hefir þetta gengið svo. Um skuldina var þá gerður samningur, en hvernig því hagar nú, er mér ekki kunnugt. Ef tala á um skuldir áfengisverzlunarinnar, þá tel ég, að eigi að tala eingöngu um skuld Hótel Borg, og ég geri mig ekki að forsvarsmanni fyrir því. Fyrir 1927 rak áfengisverzlunin almenna lánsverzlun, en síðan hefir það ekki verið gert nema í þessu eina tilfelli, svo það var vel hægt að nefna það.

Tóbakseinkasala ríkisins átti útistandandi skuldir um áramót 1937 158 þús. kr. Þetta er fyrirtæki, sem selur árlega fyrir milljónir króna. Forstöðumaður þess upplýsir, að þessar útistandandi skuldir séu samkv. reikningum fyrirtækisins að mestu leyti hjá viðskiptamönnum þess utan Reykjavíkur og séu ýmist víxlar, sem eigi eru fallnir í gjalddaga, eða póstkröfur, sem ekki hafa verið innleystar. Miðað við viðskiptaveltu þessa fyrirtækis er ekki von, að útistandandi skuldir séu lægri, og verða allir að viðurkenna það. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að einkasala, sem tekur við af einkafyrirtæki. taki alveg fyrir alla lánsverzlun. Það gæti beinlínis orðið til þess, að sumir yrðu að loka verzlunum sínum. Ég tel útistandandi skuldir tóbakseinkasölunnar svo litlar hlutfallslega, að ósambærilegt sé við nokkurt annað fyrirtæki.

Þá voru skuldir viðtækjaverzlunarinnar í árslok 1937, sem hv. þm. sagði að hefðu verið 368900 kr., án þess að skyggnast nokkuð eftir, hvað þar stóð á bak við. Viðtækjaverzlunin hefir um 40 útsölustaði á landinu, og þær vörur, sem liggja hjá útsölunum, eru auðvitað færðar sem skuldir hjá þeim. Þá selur viðtækjaverzlunin viðtæki með afborgunum, sem greiðast upp á 12 mánuðum. Gerir það mörgum kleift að eignast viðtæki, sem annars mundu ekki geta það með neinu móti. Er þetta afborgunarfyrirkomulag mjög vinsælt hjá almenningi og tíðkast mjög víða í öðrum löndum, meira að segja víðast hvar með lengri gjaldfresti. Sundurliðaðar líta útistandandi skuldir viðtækjaverzlunarinnar þannig út:

Vörubirgðir hjá útsölumönnum ...... 97828.86

Útistandandi skuldir vegna afborgunarsölu ............................. 207079.12

Ríkisútvarpið ........................ 8188.94

Viðgerðarstofa útvarpsins ............ 13691.51 eða samtals um 330 þús. kr.

Útistandandi skuldir eru raunverulega alls um 32 þús. kr. E. t. v. tapast seinna meir eitthvað af þessum beinu skuldum, en ég geri ráð fyrir, að erfitt sé að reka slíkt fyrirtæki án þess, að smátöp geti átt sér stað. En það hlýtur að vera í þessari upphæð einni, sem sú óreiða er, sem hv. þm. A.- Húnv. talaði um.

Útistandandi skuldir bifreiðaeinkasölu ríkisins voru í árslok 1937 176 þús. kr. Bifreiðaeinkasalan selur bifreiðar með afborgunum, þannig, að venjulega er borgaður út helmingur verðsins, en hitt síðan greitt með afborgunum á 12 mánuðum, en kaupendurnir teljast eigendur bifreiðanna, er þeir hafa tekið við þeim. Það er sama og með viðtækin; mörgum verður ókleift að kaupa bifreið, ef þeir fá ekki gjaldfrest.

Hjólbarðar eru einnig seldir með afborgunum, og er þá verðið nokkru hærra en þegar selt er gegn staðgreiðslu. Vegna þessara lánsviðskipta á bifreiðaeinkasalan eðlilega nokkrar útistandandi skuldir, en reynslan hefir sýnt, að hún tapar yfirleitt ekki á þessum lánsviðskiptum, þar sem hún reiknar verðið dálítið hærra þegar lánað er, og gengur það til að mæta töpunum.

Einnig eru nokkrar vörubirgðir á útsölustöðum einkasölunnar, og eru þær reiknaðar sem útistandandi skuldir hjá umboðsmönnunum. Sé ég ekki ástæðu til að sundurliða þessar útistandandi skuldir nánar.

Ríkisprentsmiðjan Gutenberg hefir gefið skýrslu um sín viðskipti, og er hún á þann hátt, að ýmsar opinberar eða hálfopinberar stofnanir, eins og t. d. Landsbókasafnið, Búnaðarfélagið og fræðslumálastjórnin reka talsverða bókaútgáfu án þess að hafa með höndum nægilegt fé, og lánar prentsmiðjan þeim prentunina, eða þar með rekstrarfé. T. d. má heimfæra undir þessar skuldir í árslok 1937 um 26 þús. kr. Þar af skuldaði stórstúkan um 15 þús. og ógreitt var fyrir lagasafn um 5350 kr. Þá hafði prentsmiðjan starfað í átta ár, en samt ekki verið felldar niður á þeim tíma nema smáar skuldarupphæðir.

Landssmiðjan hefir svarað þessum aths. á þann hátt, sem einnig er rétt, að ekki verði komizt hjá, að slíkt fyrirtæki safni útistandandi skuldum, en mikið af skuldum hennar var hjá ríkisfyrirtækjum, sem greiddu rétt eftir áramót. Útistandandi skuldir hennar voru um 70 þús. um áramót 1937, en um áramót 1938 voru þær komnar niður í 47 þús.

Ég ætla, að af því, sem ég hefi tekið fram, sé nokkurnveginn ljóst, að þegar þetta er tekið í stórum dráttum, þá er ekki um mikla óreiðu að ræða, þótt nokkrar útistandandi skuldir séu, en það eru mest upphæðir, sem ekki er hægt að komast hjá að lána, nema reksturinn stöðvist að meira eða minna leyti. það er svo, ef ekkert á að selja nema gegn staðgreiðslu, þá verður mörgum ókleift að kaupa það, sem nauðsynlegt er.

Ég hefi talið þarna upp fleiri stofnanir en þær, sem heyrðu undir mitt ráðuneyti meðan ég var fjmrh., en ég taldi gott, að þetta kæmi fram í einu lagi, svo að menn geti dæmt um, að þarna væri ekki um að ræða neina djúptæka sviksemi.

Ég held, að hv. þm. A.-Húnv. hefði ekki hagað aths. sínum svona eins og hann gerði, ef honum hefðu verið ljósar allar ástæður; þá hefði hann aðeins gert aths. við það, sem betur mátti fara á annan veg.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að ég hafi tekið illa undir gagnrýni sína við 1. umr. Ég kannast ekki við það, þótt skærist í odda með okkur eftir að hann hafði hagað gagnrýni sinni á þann hátt, að hann gaf tilefni til þess. Hann sagði, að hann hefði flutt hógværa gagnrýni, en hún var ekki hógværari en svo, að hann komst að þeirri niðurstöðu, að reikningsskil ríkisins væru ein botnleysa, sem ekki væri hægt að vinna úr.

Þetta gramdist mér, af því að ég er þessum málum nokkuð kunnugur. Hv. þm. bætti ýmsu fleiru við, sem svo varð til þess að leiða í ljós, að hann hafði færzt meira í fang en hann var maður fyrir.

Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. muni aðallega beina máli sínu að þeim atriðum, sem hv. þm. A.-Húnv. tók fram. En ég vil segja út af því, sem hv. þm. sagði um það, að póstmálunum hefði verið breytt með reglugerð og flutt undir viðskmrn., og að ég hefði verið mjög ánægður með þá breytingu, að hv. þm. mun vita, að ég var mjög óánægður með þetta, en ég skal ekki fara nánar inn á það. Hv. þm. veit líka, að ég er ekki ánægður með hans gagnrýni, því ég tel, að gagnrýni verði að vera hófleg, ef hún á að koma að gagni, og einnig verður hún að vera óhlutdræg.

Þá vil ég benda hv. þm. A.-Húnv. á það, að ef nokkurt samræmi á að vera í framkomu hans og þessum ummælum, er hann telur þetta allt óhafandi, þá á hann að beina aths. sínum til þess ráðh., sem þetta heyrir undir nú, sem er formaður hans eigin flokks, eða ef hann fær því ekki framgengt þannig, þá er það hin rétta afstaða að flytja till. hér á Alþingi til að kippa þessu í lag.

Hv. þm. minntist enn lítillega á reikning ferðaskrifstofunnar, sem rætt var um við 1. umr., og spurði, hvort ekki hefði þá líka verið rétt að færa á reikninginn allan rekstrarhalla frá því árið 1934. Jú, auðvitað hefði það verið rétt, og ég vil benda hv. þm. á, að þetta er yfirleitt gert. Ef skuldir hjá einhverju fyrirtæki eru meiri en eignir, þá færir fyrirtækið það tap sem rekstrarhalla. Sumir kalla þetta tap skuldir umfram eignir. Hvorttveggja er rétt. Sumir sundurliða það, á hvaða ári rekstrarhallinn hefir orðið. Það er einnig rétt, ef menn vilja vera svo nákvæmir, og það er síður en svo ástæða til að vera að ámæla mönnum fyrir það, þótt þeir gangi þannig frá efnahagsreikningum sínum, að það komi nákvæmlega fram, hve mikið tap hefir orðið á hverju ári. Ég tel það einmitt mjög æskilegt.

Ég vil svo að endingu benda hv. þm. A.-Húnv. á, að með þeirri miklu gagnrýni, sem hann hefir flutt hér, hefir hann bundið sér töluverðan bagga um framkomu sína í framtíðinni, ef hann á í öllu framferði sínu að geta haldið þeirri línu, sem hann nú hefir gengið inn á. Sérstaklega hefir hann þar bundið framkomu sína í fjvn., a. m. k. mun ég taka eftir því, hvort hann heldur þeirri línu. Hann verður, samkv. álösunum sínum til forstöðumanna ríkisstofnana um, að þeir hafi farið fram úr fjárlögunum, að gera sér allt far um að áætla þeim í fjvn. réttar upphæðir til að starfa með. Mun ég taka eftir, hvernig hv. þm. leysir þetta starf af hendi, hvort það verður í samræmi við framkomu hans fram að þessu.