03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

48. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Sveinbjörn Högnason:

Mig langar til að gera örstutta aths. við ræðu hv. 4. þm. Reykv. Það gætir oft í ræðum hans einstakrar einsýni, þannig að manni finnst á allmörgum köflum í ræðum hans, að varla sé hægt að finna út, við hvað sé átt. En með ræðu sinni um þetta mál, sem hér liggur fyrir, finnst mér hann hafa sett alveg einstakt met í þessum efnum. Hann sagði sem sé, að fjárþröng bæjar- og sveitarfélaga væri, að mér skildist, eingöngu að kenna ráðstöfunum Alþ. og hinu sósíalistíska stjórnarfari á undanförnum árum. Nú vil ég spyrja hv. þm., hversu mikil útgjöld Reykjavíkurbæjar séu vegna álaga þingsins á bæjarfélagið undanfarin ár. Það er sérstaklega hart að heyra slíka einsýni og blindni um þau mál, sem verið er að fást við, hjá þeim manni, sem falið hefir verið að standa fyrir stærsta bæjarfélagi landsins. Það verður að telja sérstaklega furðulegt, að heyra þennan hv. þm. segja það, að allar ráðstafanir, sem gerðar hafi verið að undanförnu, hafi orðið bæjar- og sveitarfélögum til bölvunar, og að það sé eingöngu hinu sósíalistíska stjórnarfari að kenna, hvernig komið sé. Ég veit ekki betur en að það sé búið að verja allmiklu fé úr ríkissjóði að undanförnu til þess að styðja bæjar- og sveitarfélögin. Ég veit ekki betur en að búið sé að koma á jöfnunarsjóði með stórkostlegu framlagi ríkissjóðs hvert ár, til þess að koma bæjar- og sveitarfélögunum á réttan kjöl. En allt þetta á að vera bæjar- og sveitarfélögunum til bölvunar og til að koma þeim á kné eftir málflutningi hv. 4. þm. Reykv. Allir erfiðleikar bæjar- og sveitarfélaga hafa verið af völdum hins sósíalistíska stjórnarfars í landinu, eftir kenningu hv. 4. þm. Reykv. Það kann að vera, að það sé hægt að tala svona við einhver íhaldsbörn eða fyrir félögum einhverrar barnadeildar hér í Reykjavík. Það kann að vera, að það séu til þau börn, sem taka mark á svona ræðum, enda er þessi hv. þm. sjálfsagt einn af leiðtogum þeirra félaga hér í bænum, sem telja það ómaksins vert að hlusta á svona ræður. En að heyra slíka einsýni borna fram á Alþ., er vægast sagt hin mesta firra, og þó að maður hafi oft setið þegjandi undir slíkum ræðum þá er eins og maður fái óvirðingu á því að heyra slíkar firrur bornar fram hér á Alþ. Ég skal segja það rétt til gamans, að undir þessari ræðu hv. 4. þm. Reykv. fór ég að hugsa hvað andlegir innviðir væru í manni, sem talaði á þennan hátt, hvaða andleg stefna það væri, sem hefir yfirhöndina hjá honum. Það sagði einhver hv. þm. fyrir skömmu, að hv. 4. þm. Reykv. hefði verið borði á brýn, að hann væri „kommúnisti“, og mér virtist þessi ræða hans vera svo öfgakennd, að hún sýni mjög mikinn andlegan skyldleika við öfgastefnurnar, sem uppi eru í heiminum. Enda staðfesti hv. þm. kommúnista, sem síðast talaði, hið sama. Hann upplýsti, að eini þm., sem hefði verið á móti þessar lagasetningu í Ed., hefði verið þm. kommúnista. Þetta sýnir alveg ljóslega, að hv. 4. þm. Reykv. á mjög skylt við þær öfgastefnur, sem um ræðir , hvort það er nazismi eða kommúnismi, skal ég ekki segja um, enda er það nákvæmlega sama stefnan, eins og nú er orðið í heiminum. Það er einkennilegt að heyra þennan hv. þm. segja það, að eftir þessu frv. verði það beinlínis keppikefli fyrir bæjar- og sveitarfélögin að komast undir eftrlit hins opinbera. Ég fyrir mitt leyti þekki enga sveitastjórn sem ég gæti hugsað mér að óskaði eftir því að komast undir eftirlit . Ég er alveg vissum, að hverri sveitarstjórn þykir vansæmd að því að komast undri eftrilit hins opinbera; þær munu reyna að sýna sjálfsbjargarviðleitni, svo framarlega sem þær eru ekki sýktar af hinni andlegu pest, sem hv. 4. þm. Reykv. virðist vera svo gripinn af