18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

42. mál, húsaleiga

*Ingvar Pálmason:

Þegar þetta frv. var til 2. umr., benti hv. 1. þm. N-M. á það, að hann teldi ákvæði 7. gr. frv. ekki sem heppilegust að því leyti, að þau myndu reynast nokkuð erfið í framkvæmd. Einstakir nm. tóku þetta til athugunar milli umr. og árangurinn varð sá, að við tveir nm., hv. 2. landsk. þm. og ég, urðum ásáttir um að flytja brtt. við 7. gr., sem er á þskj. 134. Að við erum bara 2 nm., sem flytjum þetta, stafar af því, að þriðji nm. var ekki mættur á fundi, þegar við ræddum þetta, en ég hygg, að hann hafi ekkert við brtt. að athuga.

Í brtt. okkar er stungið upp á því, að í bæjum utan Reykjavíkur annist fasteignamatsn. þau störf, sem húsaleigun. í Reykjavík eru ætluð, en í hreppunum verði þetta falið úttektarmönnum hreppanna ásamt oddvitum. Þetta byggist á því, að í sveitunum eru fasteignamatsnefndarmennirnir dreifðir um alla sýsluna og því erfiðleikum bundið fyrir þá að annast þessi störf. Við töldum líka, að þessum störfum væri eins vel borgið í höndum úttektarmanna, að því viðbættu, að hreppsnefndaroddvitinn ætti sæti í n. Þá þótti og heppilegra að hafa þetta ekki algerlega fastbundið, þannig að ríkisstj. væri veitt heimild til þess, ef ástæður þættu til, að ráðstafa þessu á annan hátt. Höfðum við í því sambandi sérstaklega fyrir augum stærri kauptúnin. Það gæti vel hugsazt, að t. d. á Akranesi, Keflavík og jafnvel Húsavík væri heppilegra að hafa aðra skipun á þessum málum en höfuðreglan í frv. gerir ráð fyrir, og töldum við af þeirri ástæðu rétt að hafa þessa heimild í frv.

Jafnhliða þessu flytjum við aðra brtt. á sama þskj. Er hún þess efnis, að á meðan húsaleigulögin gilda, skuli stimpilgjald af húsaleigusamningum ekki nema meiru en 2 krónum af hverjum samningi. Samkv. l. nr. 75 frá 1921 er þetta stimpilgjald mismunandi. Það er, að ég hygg, 25 aurar af hverjum 100 krónum, sem húsaleigan nemur. Af samningi, þar sem húsaleigan væri ákveðin 100 krónur um mánuðinn, myndi stimpilgjaldið því verða 3 krónur að viðbættum þeim viðaukum, sem mælt er fyrir um í öðrum l. Nú hefir það verið svo, eftir því sem ég bezt veit, að þetta stimpilgjald hefir innheimzt illa. Það er erfitt að hafa eftirlit með því, að þessu sé framfylgt. Ríkissjóður hefir því haft litlar tekjur af þessu. Við höfum þess vegna álitið heppilegast og lagt það til, að þetta gjald yrði lækkað. Af því gæti leitt það tvennt, að þessu stimpilgjaldsákvæði í l. nr. 75 frá 1921 yrði hægt að framfylgja betur en gert hefir verið, og svo einnig að koma í veg fyrir, að svo hátt stimpilgjald yrði sett á húsaleigusamninga, að það kæmi til með að hækka leiguna. Ég held þess vegna, að margt mæli með því, að þessi brtt. okkar verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég geri ráð fyrir, að frsm. n. muni minnast á brtt. hv. 1. þm. Reykv., en um þær vil ég aðeins taka það fram, að þær hafa ekki verið ræddar sérstaklega í n., og hafa nm. óbundnar hendur um þær. Frá mínu sjónarmiði held ég hinsvegar, að það sé ástæðulaust annað en samþ. 2. brtt. hans, en 1. brtt. tel ég til hins verra.