02.04.1940
Efri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

100. mál, talstöðvar í fiskiskip o. fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér þykir hlýða að lýsa ánægju minni yfir þessu máli og færa þeim þakkir, sem hafa að því unnið, bæði utan þings og innan, að því er komið þetta áleiðis. Ég hygg þetta sé einhver þýðingarmesta ráðstöfun, sem unnt er að gera fyrir öryggi bátaflotans. Reynslan hefir sýnt það, og á seinustu árum hefir tækninni í þessu efni fleygt svo fram, að það er réttnefnd bylting, og hefði fáa órað fyrir því svo skjótt. Það þarf ekki dæmi því til sönnunar, hve þýðingarmikil þessi tæki geta verið að öðru leyti, t. d. á síldveiðum. Á undanförnum þingum hefir þetta talstöðvamál verið uppi og talsvert gert stundum til að hjálpa því áleiðis. En nú kom báðum sjútvn. þingsins saman um, að ekki mættu líða mörg ár, þangað til talstöðvar kæmust í allar fleytur, sem á rúmsjó fara, og það svo, að kostnaður bátseigenda af þessu yrði mjög í hófi. Þó að hér sé sett lágmarkið „um 10 rúmlestir“, má ekki gleyma því, að taka þyrfti tillit til minni báta, og eiginlega er nauðsynin því meiri sem fleytan er veikari og minni. Orðalag frv. er ekki einskorðað við fulla 10 tonna stærð, og ég vildi láta koma fram í umr., að n. vildi ekki alveg einskorða það. — Nokkurn þátt í undirbúningi frv. átti aðalfundur Slysavarnafélags Íslands. Þá var um það rætt, að stjórn félagsins semdi frv. um þetta efni. Hin leiðin hefir verið farin, að sjútvn. Alþingis tækju þetta að sér. — Ég vona, að þetta frv. fái góðan byr.