18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

16. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þeir áttust við hér áðan í ræðum, hv.. þm. S.-Þ. og hv. 1. þm. N.-M., og ætlaði ég mér ekki að svo komnu máli að blanda mér inn í þeirra mál. En þar sem frsm. meiri hl. samgmn. virtist í ræðu sinni gera ráð fyrir því, að ég segði hér nokkur orð, þá get ég ekki verið að neita honum um það og verð við þeirri ósk hans.

Hv. 1. þm. N.-M. fór mjög mikið með tölur hér, eins og honum er títt. Nú sagði hann, að hv. þm. S.-Þ. hefði brugðið sér um það, að hann falsaði tölur. Ég tók ekki eftir því, hvort hv. þm. S.-Þ. sagði það alveg afdráttarlaust, en hv. þm. S.-Þ. ætti að vita bezt og vera kunnugast um það, hvernig hv. 1. þm. N.-M. fer með tölur. En oft hefir verið talið, að tölur frá hendi þessa hv. þm. séu lítt ábyggilegar, og má vera, að það sé enn meira nú en verið hefir. En mér virðist vera farinn að minnka sá brúaáhugi, sem hefir verið í honum fyrr, því að hann hefir jafnan viljað hafa framlög í vegabætur yfir vatnsföll og land, og viljað gera mikið að slíku. En nú virðist mér hann vilja stinga við fótum, og alls ekki vilja, að ríkissjóður styrki fleiri vegi eða að teknir séu fleiri vegir í þjóðvegatölu, og þá sjálfsagt líka hætta að brúa ár, sem ekki eru á vegum í þjóðvegatölu. Hann ætlar sýslum að gera það, skilst mér. Hv. þm. lýsti því yfir, að ríkissjóður væri þess ekki megnugur að taka fleiri vegi upp í þjóðvegatölu. En hann hyggur, að sýslufélögin séu þess megnug að vinna nú meira en áður að sýsluvegunum. Því að við vitum, að eftir því sem samgöngur aukast og bílakstur vex, er krafizt, að ekki þurfi að stöðvast við reiðgötur, sem ruddar hafa verið fyrir klyfjahesta, heldur að bílar geti óhindrað farið yfir héruðin. Og við því geta sýslusjóðir ekki reist rönd, að gera bílvegi, sem mjög verður að vanda til.

Ef hv. þm. vildi nú sleppa þessum eina eyri, sem hann fékk lagðan á hvern benzínlítra nú á þessu þingi til brúargerða, aðallega fyrir sitt kjördæmi, og upphæðinni, nær 100 þús. kr., væri skipt milli sýsluvegasjóða, þá þyrfti nú varla að taka nýja vegi í þjóðvegatölu, en móti því stritast hv. þm. eins og hann getur.

Annað hljóð mun hafa verið í þeim strokk 1936, þegar þá voru rædd vegal. hér á þingi, því ef maður athugar vegal. frá þeim tíma, þá sér maður fljótt, að það hefir ekki einn einasti hv. þm. verið jafngráðugur í að koma vegum í þjóðvegatölu eins og einmitt hv. 1. þm. N.-M. Því að í kjördæmi hv. 1. þm. N.-M. eru 4–5 vegir, sem komast í þjóðvegatölu, þegar aðrar sýslur hafa látið sér nægja tekna einn eða í mesta lagi tvo vegi. Nú þarf þessi hv. þm. ekki meiri þjóðvegi, og þá geta hinir beðið rólegir og eiga helzt að sjá fyrir sínum vegum sjálfir.

En hitt finnst mér ekki óeðlilegt, þó að önnur héruð vilji njóta jafnréttis á við þetta hérað, sem hefir sótt á svo fast áður fyrr og verið mikið styrkt, og þm. þeirra reyni að fá jafnmikil réttindi og fríðindi fyrir þau héruð, sem standa þeim næst, eins og þetta eina hérað, Norður-Múlasýsla, hefir fengið áður fyrr, eins og ég gat um.

Ég minntist á það, að hann hefði getið þess, að ríkissjóður væri ekki fær um að taka fleiri vegi í þjóðvegatölu. En ég hefi líka bent á, að það væri ómögulegt, að héruðin gætu haldið við þessum vegum eins og krafizt er nú, nema þeim komi tekjuauki.

Þá gat hv. þm. um það, að þeir menn, sem vildu auka vegakerfið í landinu, hefðu mjög litla ábyrgðartilfinningu. Ég verð að segja, að það er til ábyrgðartilfinning gagnvart fleirum heldur en aðeins ríkissjóði. Það verður að athuga, hvað héruðin þola, og við það verður dálítið að miða vegagerð og viðhald vega.

Hv. þm. bar okkur það á brýn, að þetta væri aðeins kjósendadekur. En slík orð finnast mér koma úr hörðustu átt, því að hafi nokkur þm. dekrað við sína kjósendur og farið eftir þeirra kröfum, þá er það hv. 1. þm. N.-M. Og það hefir heyrzt, að kommúnistasella væri austur í Jökuldalshéraði, og talið er, að hv. þm. teygi höndina nokkuð í áttina til kommúnista hér við atkvgr.

Þeir vegir, sem nú eru þegar í þessu frv., hvort sem það verður samþ. eða ekki, eru taldir í héruðunum vissir að komast í þjóðvegatölu eftir eitt eða tvö ár, og héruðin munu ekki hreyfa hönd né fót til þess að bæta þá. Og ég tel ekki farsælla fyrir ríkið að geyma sér að taka þá og bíða eftir því, að þeir gangi enn meir úr sér, heldur en taka á móti þeim nú þegar eins og þeir eru. Og sízt er það til bóta að fresta viðhaldi þessara vega, og á næsta þingi verða ekki minni átök um þá, og gæti mér komið til hugar, að það væri þá einhver vegarspottinn í Norður-Múlasýslu svona rétt undir kosningar, sem þyrfti að líta á og kannske að koma í þjóðvegatölu.