14.03.1940
Efri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2007)

9. mál, brúasjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Við 2. umr. frv. varð sú breyt., að samþ. var eftir till. vegamálastjóra, að úr þeim sjóði, sem ætlazt er til, að myndist af viðbótarbenzínskatti, verði byggðar brýr, sem kosta allt niður í 20 þús. kr. með því er ætlazt til, að sjóðnum sé varið til að byggja brýr, sem eftir áætlun vegamálastjóra kosta 3–31/2 millj. kr. Þegar tillit er tekið til þess, að hans áætlanir eru byggðar á kostnaðinum eins og hann var fyrir stríð, þá mun vera óhætt að miða við hærri töluna, 31/2 millj. kr.

Innflutningsgjaldið af benzíni, — sem ætlazt er til að náist með þessu móti, mun nema 70–80 þús. kr. á ári, ef miðað er við það, sem verið hefir undanfarið, en eins og nú er, eða eftir að skömmtunin komst á í haust og bílanotkunin var takmörkuð, þá mun það nema í kringum 50 þús. kr. á ári, ef miðað er við benzínnotkunina á mánuði og teknir til samanburðar sömu mánuðir undanfarin ár, en benzínnotkunin er mismunandi eftir því, hvaða mánuður er.

Nú gerir hv. 1. þm. Reykv. það að till. sinni, að helmingnum af þessari upphæð sé varið til malbikunar vega. Ef upphæðin rennur öll til brúagerða, eins og lagt er til í frv., þá mun það taka 50 ár, með 70 þús. kr. á ári, að brúa allar þær ár, sem gert er ráð fyrir að verja fénu til að brúa, en ef miðað er við skömmtunina, þá tekur það 70 ár. Þetta þykir hv. þm. allt of mikill hraði. Hann sér það réttilega, að það er þörf á að malbika götur í kaupstöðunum, svo hann vill láta það komast að hér. Ég er samþykkur því, að þörf er á að malbika götur í kaupstöðunum, en hv. þm. ætti þá að koma með till. um að hækka gjaldið upp í 2 aura á lítra. Ef hann hefði komið með slíka till., þá er ég ekki frá því, að ég hefði getað gengið inn á hana. Ég veit þó ekki, hvað n. segir um það, svo ég get ekki talað fyrir hennar hönd, en hinsvegar er ég ákveðinn í því, að mér þykir silagangurinn fullmikill, þó gert sé ráð fyrir 50 árum, hvað þá ef gert er ráð fyrir 100 árum. Ég er því á móti till. hans í því formi, sem hún liggur fyrir í.

Hvað snertir till. hv. 1. landsk., þá er líkt um hana að segja, nema það, að þegar við flm. frv. tengdum saman benzínskatt og brýr, þá var það af þeirri ástæðu, að við sáum ekki, hvar ætti að spara á fjárl. til þess að verja í þessu skyni, því það varð þá að taka eitthvað af þeim tekjum, sem ríkissjóður heitir nú. Það varð því að reyna að finna leið til tekjuöflunar. Ef hv. þm. getur bent mér á einhverja liði á fjárl., sem megi spara, þá er hægt að tala nánar um þetta. Meðan það liggur ekki fyrir, en sú staðreynd er fyrir hendi, að þingið hefir síðastl. ár, eða síðan Hvítárbrú í Borgarfirði var reist, aldrei treyst sér til að láta svo mikið fé að mörkum til brúagerða, að hægt væri að byggja stórbrú, heldur hefir þótzt hafa nógu erfitt verkefni með höndum, að láta þær tekjur, sem ríkissjóður hefir haft á hverjum tíma, hrökkva fyrir nauðsynlegum útgjöldum, get ég ekki verið með því að taka af tekjum ríkissjóðs og verja í þessu skyni.

Annars er það oft svo hér á landi, að þó menn telji sig vera með þessu eða hinu, þá eru þeir það samt ekki. Ég man eftir því, að fyrir nokkrum árum kom ég á ákveðinn bæ, til aldraðs prests. Hann var þá nýbúinn að missa konu sína og son. Það barst margt í tal milli okkar, m. a. framtíðarlíf annarstaðar í heiminum. Ég man, að presturinn sagði: Ef ég bara mætti trúa því, að þau lifðu áfram, sonur minn og konan mín. — Þessi maður hafði starfað sem prestur alla æfi og prédikað fyrir mönnum trú á annað líf, en þegar reynslan kom til hans sjálfs, þá var hann svona.

Þeir menn, sem eru þannig settir, að þeir þurfa alltaf að vera að prédika án þess að vera í hjarta sinu sannfærðir, eru vanir að segja. þegar þeir sjá eitthvert gott mál: Ég er með þessu, — en þeir reyna bara að finna eitthvert útispjót til að drepa málið.

Þannig finnst mér hv. 1. þm. Reykv. fara í þessu máli, enda mun hann að nokkru leyti vera skapaður sem leikari.