04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2025)

35. mál, rafveitulánasjóður

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Þess gerist ekki þörf við þessa 1. umr. að tala langt mál, en þó vil ég segja fáein orð út af ræðum tveggja hv. þm., er um málið hafa fjallað. Hv. þm. Ísaf. benti á það réttilega, að aðstaða rafmagnsveitnanna væri allmisjöfn og verð á raforkunni misjafnt. Hann lagði á það áherzlu, að afkoma þessara fyrirtækja hefði versnað mjög vegna gengisbreytingarinnar, og er það rétt, en þetta skiptir ekki máli í þessu sambandi, því að af sömu ástæðum hafa orðið tilsvarandi hækkanir á kolum og olíu, sem til landsins eru flutt og þeir verða að kaupa, er ekki hafa raforkuna. En það er sérstakur hagnaður rafmagnsnotenda, að þeir losna við hækkun á þessum vörum af völdum styrjaldarinnar, sem ég hefi áður bent á.

Ég býst við því, að þegar hv. þm. Ísaf. mælti fyrir því á Alþingi, að ríkissjóður gengi í ábyrgð fyrir Ísafjörð, er verið var að koma upp rafmagnsveitu þar, þá hafi hann haldið því fram, að fyrirtækið væri gróðavænlegt. Ég geri því ekki ráð fyrir, að þó að þá hefði verið búið að lögleiða þetta gjald, hefði hann talið það miklu máli skipta. Og mér þykir leitt, er fulltrúar þeirra kjördæma, sem þegar hafa fengið þessi hlunnindi, leggjast síðan á móti því, að þau taki á sig lítilfjörleg gjöld til þess að greiða fyrir því, að aðrir landsmenn megi einnig njóta sömu lífsþæginda. Hv. þm. minntist á ábyrgðarþóknun þá, er bankarnir taka, en benda má á dæmi, þar sem fyrirtækin taka lán hjá bönkum og greiða gjald fyrir, sem er miklu óhagstæðara en þetta. Þá gat hv. þm. þess, að sum þessara fyrirtækja hefðu fengið ábyrgð fyrir öllu láninu, en sum ekki nema fyrir þrem fjórðu hlutum og því orðið verr úti. Þetta kemur málinu ekkert við, því að gjöldin eiga ekki að miðast við aðra upphæð en þá, sem ábyrgð var veitt fyrir. Mér virtist hv. þm. Ísaf. finna að því, að þóknunin tæki ekki breytingum eftir því, sem ábyrgðarupphæðin færi lækkandi. En það er auðsjáanlega erfitt að gera honum og öðrum til hæfis í þessu efni, því að í frv. því, sem ég bar fram á síðasta þingi, var gert ráð fyrir þessu, en það fann ekki heldur náð fyrir augum hans og sumra annara hv. þm.

Hv. þm. A.-Húnv. kvað ekki vera hægt að fallast á þetta fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir um fjársöfnun í sjóðinn. Þó heyrðist mér hann ekki telja það óeðlilegt, að einhverskonar gjöld væru lögð á rafmagnsveiturnar til þess að safna í sjóðinn, en hann vildi hafa innheimtuna öðruvísi. Ég sé ekki, að þetta geri mikinn mun. Ég tel eðlilegt, að þessi gjöld séu miðuð við upphæð þeirrar ábyrgðar, sem ríkið hefir tekið að sér. Í tilefni af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, get ég lýst yfir því, að ég teldi það geta komið til mála, að tekin væri einnig þóknun af öðrum ábyrgðum ríkissjóðs. En orð hv. þm. A.-Húnv. gat ég ekki skilið á annan hátt en þann, að hann teldi réttmætt, að nokkur gjöld yrðu lögð á rafmagnsveiturnar. En á hitt legg ég mikla áherzlu, að ekki sé farið að skattleggja rafmagnsveitur, sem menn hafa komið upp víða um land án allrar aðstoðar, enda er það kunnugt, að lántökur þær, er ríkið hefir ábyrgzt, hafa yfirleitt verið hagstæðari en aðrar lántökur.

Ég vænti því, að í hv. fjhn. geti orðið samkomulag um þetta, jafnvel þótt hv. n. kynni að breyta eitthvað tekjuöflunaraðferðunum, því að mér þykir sennilegt, að hv. meðflm. mínir muni geta á það fallizt. Aðalatriðið er fyrir okkur að fá þennan sjóð stofnaðan og fé í hann sem allra fyrst. Við gerum ráð fyrir, eins og nú standa sakir, að þetta gjald, sem fást mundi af rafveitum, mundi nema um 50 þús. kr. á ári.

Ef fjhn. getur fundið aðrar leiðir til þess að ná álíka háu gjaldi frá þessum rafveitum, þá tel ég, að höfuðatriði málsins sé borgið.