29.02.1940
Neðri deild: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2076)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti Það er ekki nema eðlilegt, að í sambandi. við þetta stóra frv., sem hér liggur fyrir, verði nokkrar umr. almennt um það, hvaða verðlagspólitík sé heppilegust fyrir landbúnaðinn til frambúðar, með tilliti til markaða. Ég tel eðlilegt, að þessar umr. fari nokkuð út fyrir ramma frv. sjálfs, sérstaklega eftir þær ræður, sem hér voru haldnar í gær, einkum eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. Það, sem ég vil gera að umræðuefni, er ekki beinlínis sú verðhækkun, sem varð á kjöti nú í haust, heldur hvaða verðlagspólitík er almennt heppilegust fyrir bændur, þegar til lengdar lætur.

Mér finnst, að þar geti verið um tvennt að ræða. Annarsvegar samvinnu milli bænda og neytenda, en hinsvegar, að hver sjái um sjálfan sig og sigli sinn sjó eftir beztu getu. Það hefir verið reynt hér á Íslandi á undanförnum árum, þótt það hafi ekki verið fullkomlega framkvæmt, að koma á vissri samvinnu á milli neytenda og bænda, þannig, að íslenzkir bændur ættu ekki, sérstaklega hvað kjöt snertir, allt undir erlendum markaði komið, enda mjög erfitt fyrir íslenzkan landbúnað að keppa við framleiðsluvörur eins og kjöt, sem hægt er að framleiða annarstaðar með miklu mínni tilkostnaði og er jafnvel af dýrum, sem ganga að mestu leyti sjálfala allt árið. Það hefir verið reynt að vernda íslenzka kjötframleiðendur fyrir þeim áhrifum, sem kreppurnar hafa á heimsmarkaðinn, en sem þeir ella myndu gjalda, ef öll verzlun væri frjáls. Á undanförnum árum hafa íslenzkir neytendur gengizt inn á að reyna að tryggja afkomu bænda með því að jafna til verði á vörum þeirra eftir árabilum. Reynslan hefir orðið sú, að allur almenningur hefir gert sér ljóst, að þær sveiflur, sem verða á öllum mörkuðum undir hinu „kapitallstiska“ skipulagi, myndu einnig ná til landbúnaðarafurðanna, svo að þegar kreppurnar skyllu yfir, myndi verð þeirra lækka niður fyrir sæmilegt verð, og sömuleiðis þegar kreppunum létti af, myndi verðlagið svo aftur hækka. Aðferðin, sem beitt hefir verið til að reyna að hindra, að bændurnir yrðu fyrir slíkum verðsveiflum, er sú, að leggja sérstaka kvöð á neytendurna innanlands með því að láta þá greiða verðjöfnunargjald af ýmsum landbúnaðarvörum, er síðar er svo notað til verðuppbótar á þeim, og bændurnir þannig verndaðir fyrir áhrifum þeirra lögmála, sem alltaf gilda á heimsmarkaðinum. Einnig hefir verið bannað að flytja inn kjöt til landsins, og það hefir verið gengið svo ákveðið út frá réttmæti þeirra l., að menn hafa talið það siðferðislega skyldu sína að láta sér ekki einu sinni detta í hug að flytja inn kjöt annarstaðar frá, þótt hægt væri að fá það ódýrara á vissum tímum. Það hefir einnig verið reynt að tryggja tiltölulega öruggan markað erlendis fyrir saltkjöt, með því að veita fríðindi á móti á kostnað annars útflutningsatvinnuvegar, sjávarútvegsins, og hið opinbera hefir styrkt landbúnaðinn, og síðast en ekki sízt hafa innlendu neytendurnir tekið á sig að borga hærra verð fyrir innlent kjöt en þeir þyrftu að greiða fyrir erlent kjöt, meira að segja hærra verð en þeir þyrftu að greiða fyrir íslenzkt kjöt, eftir að búið væri að flytja það aftur inn frá Noregi. Á þessu er auðséð, að neytendurnir vilja leggja nokkuð mikið á sig til að vernda bændurna fyrir kreppum og sveiflum heimsmarkaðarins. Það er eðlilegt skilyrði af hálfu neytendanna í sambandi við þessa verndarpólitík, að á þeim tíma, þegar hugsanlegt er, að bændur fái hátt verð fyrir kjöt sitt eða aðrar útflutningsvörur sínar, þá sé einnig hugsað um afkomu neytendanna. Þá yrðu bændurnir einnig að tryggja það, að neytendurnir yrðu ekki fyrir verstu verðsveiflunum á heimsmarkaðinum. Þessi pólitík hlýtur að leiða af sér samvinnu milli framleiðendanna og fjölmennustu neytendanna, verkamannanna í kaupstöðunum. Ef það er ekki gert, hlýtur önnur pólitík að verða rekin, sem sé „braskpólitík“. að láta hvern og einn sigla sinn eiginn sjó, án þess að reyna að hafa áhrif á sveiflurnar, sem verða á vöruverðinu. Það væri pólitík í samræmi við svokallaða frjálsa verzlun, og eftir því, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. og einnig áður í „Tímanum“, sem ákveðinn hluti þeirra manna, sem telja sig sérstaka forsvara bænda, fylgir, virðist það vera sú pólitík, sem heimta eigi, að verði framkvæmd nú. Það er óneitanlega önnur pólitík en sú, sem rekin var 1931 og 1932. því hefir nú verið haldið fram, að það væri verið að gera bændunum mikinn órétt, svo framarlega sem þeim verði ekki leyft að selja sínar vörur fyrir það verð, sem þeir geta fengið hæst fyrir þær. En hver yrði svo afleiðingin, ef þessi pólitík yrði tekin upp? Hún yrði sú, að þegar kreppa skylli yfir, yrðu engin takmörk sett fyrir því, hve lágt verðið gæti fallið, og eftir þeim stefnum, sem komið hafa fram hér í þinginu og í „Tímanum“, virðist það vera það, sem þeir menn vilja stefna að. Ég vil biðja þessa menn, sem telja sig vera fulltrúa bænda og kjötframleiðenda, að hugsa um þetta mál frá fleiri hagsmunasjónarmiðum en bændanna einna. Framtíð íslenzkra bænda veltur á því, hvernig það opinbera hagar sér, þegar kreppa dynur yfir. Það er ekki eðlilegt, að neytendurnir sætti sig við það, að þegar kreppan skellur yfir, þá sé þess krafizt með sérstökum l., að hærra verð fáist fyrir vörurnar á innlendum markaði en hugsanlegt er að fá á heimsmarkaðinum. Sú pólitík, sem tekin var upp af Framsfl., þegar síðasta kreppa kom, varir að miklu leyti enn, en nú virðist, eftir þeim ræðum og skrifum, sem síðan eru fram komin, eiga að æsa bændurna upp til að gera kröfur, án þess að hugsa um, hvernig þá fer um samvinnu þeirra við neytendurna. Slíkt er ekki hyggilegt, því það, sem gert hefir afkomu bændanna öruggari en ella, er það, að þeir hafa getað treyst á innlenda markaðinn, svo ekki verði eins vart þeirra verðsveiflna, sem alltaf eiga sér stað í hinu ,kapítalistíska“ þjóðskipulagi.

Í öðru lagi kom hæstv. forsrh. inn á það, að það væri réttarfarsleg skerðing á frelsi bænda, ef þeir yrðu með valdboði skyldaðir til að selja vörur sínar lægra verði en erlendis fengist. Það er einkennilegt, þegar hæstv. forsrh. fer að tala um valdboð sem eitthvað nýtt í sambandi við verð á þessum vörum. Ég veit ekki betur en að flestir íslenzkir atvinnuvegir, bæði útflutningsatvinnuvegir og þeir, sem vinna vörur fyrir innlendan markað, séu háðir valdboði um vöruverð, en hlíti ekki framboði og eftirspurn á frjálsum markaði. Nú á síðasta þingi voru líka sett l. um það, að engar vörur mætti flytja úr landi nema með leyfi ríkisstj., og sú skipun var gerð með það fyrir augum, að tryggt væri, að nægilegt yrði til í landinu af matvælum og öðrum nauðsyjavörum. Er það í nokkru samræmi við slík l., að forsrh. segi, að sjálfsagt sé, að bændur flytji út allt sitt kjöt, ef þeir geti fengið fyrir það betra verð erlendis en innanlands? Ég veit ekki betur en að það valdboð gildi um allar útflutningsvörur sjávarútvegsins, að ekkert af þeim megi flytja út nema með leyfi hins opinbera. Það er því ekkert nýtt, þótt bændum verði bannað að flytja út kjöt. Enginn má flytja út neina vöru nema með leyfi ríkisstj. Mönnum er jafnvel bannað að stunda sjávarútveg nema með leyfi opinberrar n. Það er einkennilegt, að hæstv. forsrh. skuli tala um valdboð gagnvart bændum, eins og það væri eitthvað, sem hann hefði aldrei áður heyrt nefnt. Hann, sem hefir sjálfur verið að vefa því hlekki um allt athafnalíf í landinu, að allt er háð valdboðum, og hann þarf ekki að undra, þótt þeir hlekkir komi einhvern tíma við bændurna.

Þá talaði hæstv. forsrh. um, að það næði engri átt að heimta það af bændum, að þeir seldu vörur sínar undir markaðsverði. Ég vil skjóta því til hæstv. forsrh., hvort hann telur, að það, sem er óréttlátt, þegar það tekur til bændanna, geti verið réttlátt, þegar það tekur til verkamannanna. Það kom fram í þessum umr., að talið er, að verð á erlendum vörum hefði hækkað allt að 80% og innlendar vörur um 19%, og að það sé allt of lítil hækkun, en það var ekki talað um það, að laun verkamannanna hækkuðu í janúar um 9% og hafa ekkert hækkað síðan, og munu ekki gera það fyrr en í marz, ef þessi l. verða áfram í gildi. Þessi hækkun á laununum var þegar eyðilögð í janúar með aukinni dýrtíð, og í öðru lagi vegur hún ekki upp á móti því, sem vinna verkamanna hefir raunverulega orðið dýrari, því atvinna þeirra hefir minnkað um meira en 9%. Hæstv. forsrh. talaði um, að bændur myndu neita að selja kjöt sitt, svo framarlega sem þeir fengju ekki það verð, sem þeir teldu rétt. Er hæstv. forsrh. með þessum ummælum að skora á alla verkamenn landsins að risa upp gegn gildandi l.? Það getur ekki verið rangt af verkamönnum, ef það er rétt af bændum að gera það. Ég sé ekki annað en að hæstv. forsrh. sé með þessu að hvetja verkamennina til að gera verkfall. Það er því harla einkennilegt, að fulltrúar bændanna skuli vera að sjá eftir þessari litlu kaupuppbót til verkamannanna, en undrast það jafnframt, þó að eitthvað séu fettir fingur út í hina miklu kjöthækkun, sem átt hefir sér stað nú fyrir skömmu.

Hv. þm. Borgf. sagði, að bændur yrðu að bera þungann af hinni sífelldu kauphækkun án allra bóta, en ég vil spyrja þennan hv. þm.: Eru það kannske ekki bændurnir, sem eiga að fá ókeypis vinnuafl, þegar hinir nýju fátækraflutningar eru komnir í fullan kraft? Ég veit ekki betur. Og það er eina svarið, sem verkamenn fá, þegar þeir fara fram á að fá bætt kjör sín vegna hinnar sívaxandi dýrtíðar. Nei, um það verður ekki deilt, að bændafulltrúarnir tala yfirleitt af litlum skilningi um málefni verkalýðsins. Annars mega þeir vita það, þeir háu herrar, að hagsmunir bændanna eru ekki fólgnir í því, að hlaupa með afurðir þeirra eftir duttlungum verðsveiflnanna, — hitt er sýnu nær, að samræma verð afurðanna við kaupgetu neytendanna og láta það svo haldast sem jafnast árið um kring. Andúð verkamannanna á móti því fyrirkomulagi, sem nú er, má ekki skilja svo, að þeir óski eftir að slíta samvinnu við bændur um ákvörðun verðlagsins á innlendum markaði, og það því síður, sem það er vitað, að það er aðeins lítill sérhagsmunahópur úr bændastéttinni, sem reynir hér að ganga fram fyrir skjöldu og berjast gegn hagsmunum verkamanna, eins og t. d. í gengismálinu í vetur, að ógleymdum sveitaflutningunum.