19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2111)

53. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Bergur Jónsson):

Eins og hv. þm. mun kunnugt, lá þetta frv. fyrir síðasta þingi og var þá samþ. hér í d. samkv. till. meiri hl. allshn. Meiri hl. n. er vitanlega fylgjandi frv. óbreyttu, en til samkomulags við minni hl. n. hefir hann gengið inn á að fella hrafninn burt úr frv., og leggur n. til, að samþ. verði brtt. á þskj. 154. Aðalefni brtt. er það, að frv. verði eingöngu um eyðingu svartbaks, en ekki hrafns. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því, með tilliti til þess, að búast má við, að um minni fjárhæð verði að ræða, sem greidd verði í verðlaun, að ríkissjóður greiði þessi verðlaun einn.

Tveir nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara. Annar þeirra, hv. þm. N.- Ísf., mun að því er ég bezt veit vera mótfallinn því að sleppa hrafninum úr frv., en hv. 1. þm. Rang., sem var mjög andstæður málinu í vetur, hefir eitthvað að athuga við 4. gr., en hefir hinsvegar lýst yfir fylgi sínu við frv. að öðru leyti í n.