19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2112)

53. mál, eyðing svartbaks

Sveinbjörn Högnason:

Það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að við höfum í n. gengið til samkomulags um þetta mál, með því móti, að helmingur frv. verði felldur burt.

Það, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, byggðist á því, að ég taldi að vísu óþarft að setja þessi l. um eyðingu svartbaks, þó ég vildi það til vinna, svo að hinn hluti frv., um eyðingu hrafns, yrði felldur niður, þar sem til eru l. um eyðingu svartbaks. En í þeim l. er leyfð eitrun fyrir svartbakinn, en það er ekki í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég tel þetta frv. að því leyti mannúðlegra en gildandi l. og sé því enga ástæðu til annars en samþ. það.

Fyrirvari minn var einnig viðvíkjandi 4. gr., þar sem segir: „Skylt er hverjum búanda að eyða eggjum svartbaks og hrafns á ábýlislandi sínu og öðrum þeim löndum, er hann ræður yfir, ef þess er kostur. Vanræki ábúandi þessa skyldu sína af ásetningi eða skeytingarleysi, varðar það sektum, 50–300 krónum. Sektir renna í sjóð sveitar þeirrar, er hlut á að máli.“ Ef menn vanrækja þessa skyldu sína, þá eru menn orðnir brotlegir við landslög. Nú er það vitanlegt, að þetta er í mörgum tilfellum mjög erfitt, því svartbakurinn verpir uppi um öll öræfi, og er því fyrirfram vitað, að hver einasti landeigandi, eða svo að segja, yrði sekur um að gera þetta ekki. Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að gera sérstakan ágreining út úr þessu, vegna þess að sömu ákvæði munu vera í gildi. Ég vildi aðeins við umr. benda á þetta. Ég tel óheppilegt, að verið sé að setja í löggjöf refsiákvæði, sem vitað er fyrirfram, að hver einasti maður hlýtur að verða brotlegur við. Ég álít, að það ætti að takast til athugunar, að ekki sé verið með lagasetningum að leika sér að því að gera flesta borgara landsins brotlega við l., sem sett eru.