19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2121)

53. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Bergur Jónsson):

Það er svo langt frá því, að ég vilji slá á hina sterku og ágætu hönd hv. þm. Borgf. í þessu máli. Ég er bara alltaf að reyna að koma honum í skilning um að ég óska eftir að fá úr því skorið hjá hv. deild, hvort hún vill láta ákvæði frv. ná til annars fuglsins eða beggja. Um hitt atriðið stendur mín samvinna enn til boða. Annars þarf hv. þm. ekki að kenna mér, hvernig bera megi fram brtt.; það kemur ekki málinu við. Það þarf ekki endilega að bera fram 2. gr. frv. óbreytta eins og hún var upprunalega, enda þótt það væri heimilt samkv. þingsköpum, þar sem búið er að taka ákvæði hennar yfir í 1. gr. Ég veit til þess, að hv. þm. Borgf. hefir stundum komizt á tæpara vaði í gegnum þingsköpin en þetta.