16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Ég vil strax taka það fram, að ég er algerlega á móti lagasetningum um kaupgjald. Meðan hinsvegar þau l. gilda um kaup verkamanna, sem sett voru með l. um gengisskráningu og breyt. á þeim l., er athugandi að láta aðrar stéttir verða aðnjótandi þeirra réttinda, ef nokkur eru, sem felast í þeim lagaákvæðum. Nú hafa umr. um þetta mál leitt mjög greinilega í ljós, hver var ástæðan til þess, að þessi lög voru sett.

Alþingi virðist skipta verkafólki í tvo hópa: Annarsvegar er sá hluti verkafólks, sem hefir nægilega sterk samtök til þess að knýja fram sæmileg lífskjör sér til handa, en hinsvegar sá hlutinn, sem hefir of veik samtök til þess að geta knúið fram slíkar réttarbætur. Sjónarmið Alþ. hefir verið, að sá hlutinn, sem það álitur að sé nægilega sterkur til að knýja fram kauphækkun með frjálsum samtökum, skuli hindraður í því, og þess vegna setur Alþ. lögin í fyrra og skammtar verkalýðnum lægra kaup en það álítur, að þessar stéttir fyrir mátt samtaka sinna geti samið um. Þetta er gert vegna þess. að AIþ. álítur, að samtök þessara stétta séu svo sterk, að þau geti stofnað atvinnulífinu í landinu í voða, — eins og það er orðað —, ef þeim er beitt. - Það er fjarri því, að Alþ. vilji sýna sanngirni í þessu máli, eins og kom ljóst fram í orðum þeirra hæstv. viðskmrh., hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Borgf. við 1. umr., — það er eingöngu óttinn við verkföll og vinnudeilur, sem knýr AIþ. til þess að setja lög um dýrtíðaruppbót til handa verkalýðnum. Nú fer hv. þm. Snæf. fram á það, að þeim hlutanum, sem ekki hefir nægilega sterk samtök til þess að atvinnurekendur óttist þau, sé sýnd sanngirni af hálfu Alþ. og verzlunarfólki séu tryggð sömu réttindi til dýrtíðaruppbótar og öðru verkafólki. Þá kemur fram það, sem hv. þm. Snæf. með réttu kallaði sjónarmið afturhaldsins: Hv. þm. rísa úr sætum sinum hver af öðrum og segja: Það er engin ástæða til þess að sýna þeim neina sanngirni, sem ekki eru nógu sterkir til þess að vernda sinn rétt sjálfir. — Það er svo sem ekki nema gott, að þjóðin fái að kynnast þessum sjónarmiðum.

Það liggur alveg í augum uppi, eins og mér heyrðist við 1. umr. þessa máls á hv. þm. Snæf., að af till. hans verður sú ályktun dregin, að hún sé fyrir þann hluta verkafólks og starfsfólks, sem Alþ. neitar um að verða aðnjótandi þessara réttinda. Það er aðeins ein leið til, sem þetta verkafólk getur gripið til, til þess að Alþ. beri virðingu fyrir réttindum þess, og það er mátturinn, það er valdið. Það er þessi hluti verkafólks, sem fram að þessu hefir ekki verið sýnt um að gera verkföll, og hefir ekki sýnt sig nægilega harðvítugan til þess að stöðva alla skrifstofu- og verzlunarvinnu hér í Reykjavík, en það kann að vera, að hann fari nú að gera það. Það er alger misskilningur að halda, að þessi hluti verkafólksins sé einskis megnugur. Verkafólk það, er vinnur í búðum og í skrifstofum, er alveg jafnnauðsynlegt eins og hafnarverkamenn, þegar um samgöngur er að ræða, og þeir hafa sín samtök. Einnig ætti skrifstofufólk og það fólk, sem vinnur við afhendingu á vörum í verzlunum, að gera ráðstafanir til að fá ráðið nokkru um það, fyrir hvaða kaup það vinnur. Enda þótt skrifstofuvinna sé mjög eftirsótt, þá er verkamannavinna líka mjög eftirsótt, og ég fæ ekki annað séð en að sú stétt manna hafi alveg sama vald sem verkafólk almennt. Munurinn er aðeins sá, að samtök verzlunarmanna hafa ekki enn lært að skapa samtökum sinum það vald. En Alþ. virðist nú ætla að gera tilraun til þess, að fulltrúar verzlunarmannasamtakanna fari að sýna sitt vald, og get ég ekki annað séð en að það sé þakkarvert, enda þótt það muni vafalaust vera óviljandi gert, ef Alþ. fer að knýja slíkt fram. Meiri hl. Alþingis mun hafa, haldið, að verzlunarmenn myndu aldrei þora að hafa sig í frammi.

En eftir þeim undirtektum, sem rökst. dagskráin hefir fengið hér á Alþ., virðist vera nokkur hætta á, að þessu máli verði vísað frá. En hvaða afleiðingar myndi það hafa? Samtök verzlunarmanna hlytu að draga þær ályktanir af því, að sú stétt verði að styrkja sín samtök, ná samvinnu við verkamannasamtökin og umfram allt beita valdi sínu til þess að stöðva atvinnulífið. En þá mun það verða alveg öruggt, að þegar næsta Alþ. kemur saman, þá bera þessir sömu þm., sem nú eru á móti því að samþ. frv. hv-. þm. Snæf., fram hér á Alþ. mjög langt og ýtarlegt frv. um það, að skylda atvinnurekendur til að greiða verzlunar- og skrifstofufólki sérstakar kaupuppbætur, annars sé hætta á því, að þetta fólk stöðvi alla þá vinnu, sem er lífsnauðsynleg til þess að atvinnulífið í landinu geti haldizt áfram í gangi. Það er alveg gefið, að slíkt frv. verður þvingað fram á einni nóttu. Þá kemur ekki til mála, að það liggi lengi hjá n., heldur mun þá strax þurfa að knýja það fram. Þetta munu hv. þm. fá að sjá, að þá mun í hæsta lagi verða leyft að tala um þetta í 3 klst., því að það liggi svo mikið á að fá þetta frv. afgr., að það megi alls ekki dragast lengur.

Ég tel, að það sé í raun og veru mjög gott, hvernig sem þessu frv. reiðir af hér á Alþ. Ef það verður samþ., gengur Alþ. út á þá braut, að vilja sýna sanngirni gagnvart launþegum, og er það alveg ný braut. Hingað til hefir það sett ákvæði um kaupgjald á þann hátt, að hægt sé að sýna ósanngirni af hálfu þess aðila, sem sterkari er. En ef þessu frv. verður vísað frá með rökst. dagskrá, þá þurfa verzlunarmannasamtökin sjálf að læra það áður en næsta Alþ. kemur saman, að nota það eina vald, sem þau hafa yfir að ráða, sem sé að gera verkföll og beita nógu harðvítugum ráðum til þess að kúska kröfur sínar fram hér á Alþ., sem sé að gera allsherjar verkfall.