27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

89. mál, sjómannalög

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Frv. þetta er flutt af sjútvn. þessarar hv. d., eins og það ber með sér, en tilefníð er erindi frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sem hefir mælzt til, að fluttar yrðu þessar brtt. við sjómannal., og koma þessi tilmæli nú fram í annað sinn, því að áður munu þau hafa komið fram, en voru þá ekki tekin til greina.

Í frv. er farið fram á það, að loftskeytamenn á fiskiflotanum og verzlunarflotanum verði gerðir jafnréttháir öðrum yfirmönnum skipanna. Aðrar breytingar gerir frv-. ekki í raun og veru á sjómannal. Með frv. er ekki gengið á nokkurs manns rétt, þeirra er nú búa að þessari löggjöf, heldur er hér stigið spor í þá átt að samræma stöðu loftskeytamanna við lífið sjálft, ef svo mætti að orði komast, og venjur þær, er skapazt hafa. Þeir hafa þegar af útgerðarmönnum verið settir í flokk með yfirmönnum, og þá virðist ekki vera ástæða til að hafa þá öðruvísi setta lagalega.

Þess er rétt að geta, að það var upplýst í n., að við síðustu kjarasamninga höfðu fulltrúar loftskeytamanna afsalað sér fyrir hönd þessarar stéttar nokkru af þeirri kaupuppbót, er þeim bar, fyrir þá sök, að þeir vildu telja sig til þeirrar stéttar flotans, sem yfirmenn á skipunum eru til taldir. Og er þeir hafa þannig af fúsum vilja kosið að taka á sig nokkrar fórnir í þessu skyni, má segja, að það sé enn ein ástæða til þess að synja ekki um lagalega staðfestingu á þessari málaleitun. Á það má benda, að eins og skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar verða að hafa sérstakt próf til þess að geta gegnt störfum sínum, eins þurfa loftskeytamenn að ganga undir próf, og eiga þeir því einnig að þessu leyti samleið með yfirmönnum skipanna.

Ég vona, að hv. þd. fallist á þessa lagalegu réttarbót, ef svo má að orði komast, að því er snertir stöðu loftskeytamanna á flotanum, ekki sízt þar sem sýnt er, að hún getur átt sér stað án þess að nokkur réttur sé tekinn af öðrum mönnum, er á skipunum vinna.