29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Fram.(Bernharð Stefánsson):

Ég ætla nú ekki að fara að ræða við hv. 1. þm. Reykv. um skattamál almennt, og það því síður, sem við erum sammála um niðurstöðuna hvað þetta mál snertir og að þetta frv. nái fram að ganga. En út af hinu sífellda tali um það, að skattar séu of háir hér á landi, vildi ég benda á það, að þótt skattar, bæði beinir og óbeinir, þyki allt of háir, eru þó alltaf hærri kröfur um það, að ríkissjóður leggi í eitt og annað til hagsbóta fyrir almenning, heldur en hitt, að skattarnir lækki. Ég mæli þetta ekki til hv. 1. þm. Reykv., því hann hefir ekki lagt það í vana sinn að gera slíkar kröfur, en ýmsir eru þeir, sem hafa gert hvorttveggja í einu, að rífast yfir sköttunum, og líka yfir því, hvað lítið þeir fengju til ýmissa framkvæmda, sem þeir bera fyrir brjósti. Þetta hafa menn gert bæði í ræðu og riti. Ég hefi meira að segja verið þar staddur. sem einn og sami maður flutti tvær till., aðra um það að skora á þingið að lækka gjöldin, og hina um það, að veita ýmiskonar fjárstyrki til fyrirtækja í grenndinni þar sem hann bjó.

Að það væri tími til þess nú að fara að lækka skatta á Íslandi, í því ástandi, sem skapazt hefir við styrjöldina, munu líka flestir vera sammála um, að ekki komi til mála. Það þarf ekki annað en að líta til nágrannaþjóðanna. Allar hafa þær séð sig neyddar til að hækka skattana núna. við Íslendingar erum ekki eins og stendur að hækka skatta, og mér finnst, að við megum eftir atvikum þakka fyrir, að skattarnir fá að standa í stað.

Það er aldrei nema satt, að tekjuskatturinn er tilfinnanlegur, en þó er annar skattur, sem ég held, að öllum finnist tilfinnanlegri en skatturinn til ríkissjóðs, og það er útsvarið. Að vísu má segja, að þetta sé því tilfinnanlegra þegar það kemur saman. Ég vona nú, þar sem hv. 1. þm. Reykv. á einmitt sæti í mþn. í skatta- og tollamálum, að hann finni og beri fram einhver ráð til þess að samræma þetta á einhvern hátt, þannig að það geti orðið léttbært, en að réttmætri tekjuþörf verði þó fullnægt.

Ég skal svo aðeins minnast á brtt. á þskj. 210, um að hækka benzínskattinn um í eyri og verja þeim tekjuauka til brúa. Þegar frv. um brúasjóð lá hér fyrir d. fyrir nokkru síðan, þá greiddi ég atkv. með því, og þegar það var lagt fyrir síðasta þing og vísað til nefndar, sem ég átti sæti í, fjárhagsnefndar, gaf ég út nál. um þetta mál og mælti með því. Það leiðir af sjálfu sér, að ég mun greiða atkv. með þeirri till., sem hér liggur fyrir. Aftur á móti skal ég geta þess, að ég greiddi atkv. á móti því við afgreiðslu fjárlagafrv., að hækka framlag til brúa um 90 þús. kr. og verja því til þess að brúa Jökulsá á Fjöllum. Ég greiddi atkv. á móti því vegna þess, að ekki var séð fyrir neinum auknum tekjum, og ég sá ekki fært að hækka gjaldaliðina nema tekjur kæmu á móti, en hér er lagt til, að tekjur komi á móti þeim útgjöldum, sem farið er fram á með tillögunni.

Til þess að þau rök fái staðizt, sem hv. 1. þm. Reykv. ber fram gegn þessari till., að hann vilji ekki búa til einlæga sjóði, sem verja eigi í ákveðnu skyni, heldur láta allt ganga í ríkissjóðinn og ríkissjóður greiði svo sín gjöld, finnst mér hann ekki vera í góðu samræmi við sjálfan sig, því einmitt í þessu frv., sem hann er búinn að mæla með, að samþ. verði, er gert ráð fyrir slíkum sjóðum.

Orsökin til þess, að ég er með þessari till., er sú, að ég álít, að hvað sem öðrum sköttum líður, þá sé gjaldið af benzíni of lágt, og ég hefi enga von um, að hægt sé að halda uppi nútíma samgöngum, leggja vegi, sem færir séu bifreiðum, halda vegum við og byggja brýr, öðruvísi en að samgöngurnar sjálfar standi að einhverju og miklu leyti undir þessum framkvæmdum. Og hvernig ætti það að vera, að þessi fámenna þjóð í tiltölulega stóru landi ætti að geta komizt af með að skattleggja þetta minna heldur en t.d. Danir, sem búa í minna landi en við og eru 30 sinnum fleiri en við? Og eftir því sem ég veit bezt, hafa þeir 2 aurum hærri benzínskatt en við. Ég hefði því vel getað gengið inn á að hækka benzínskattinn meira en farið er fram á í þessu frv., og lækka þá frekar einhver önnur gjöld, sem ríkissjóður ber nú. Mér finnst ég jafnvel hefði getað gengið að því að hækka þetta gjald um 3 aura á lítra, því þá skilst mér, að það væri jafnt eins og í Danmörku. Án þess að ég vilji segja, að Danir eigi að vera okkar fyrirmynd, og að við eigum í öllu að vera eins og Danir, skil ég ekki, að við getum gengið skemmra. Þó við göngum ekki svona langt, leiðir það af sjálfu sér, að ég mun frekar greiða atkv. með þessari hækkun en að hún verði engin. Ég vil að lokum benda á það, að þessi till. er upprunalega komin frá vegamálastjóra, ef ég veit rétt, og mun hann vera á sama máli og ég um það, að það muni bókstaflega ekki vera hægt að vinna að samgöngubótum á Íslandi eins og þörf er á og óskað er eftir með öðru móti en því, að gjaldið af benzíni hækki frá því, sem nú er.