12.04.1940
Sameinað þing: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2545)

80. mál, vegagerð milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Þegar rætt er um verklegar framkvæmdir og önnur þróunarmál nú á tímum, er jafnan vonazt eftir, að þau störf verði látin ganga á undan, sem hægt sé að inna af hendi með eigin rammleik þjóðarinnar. Því meira sem þarf af aðkeyptu, erlendu efni við framkvæmdirnar, þess verra er að leggja fram fé til þeirra, sökum gjaldeyrisörðugleika til kaupa á erlendum vörum. Þegar við lítum um heima fyrir og athugum, hvað næst þarf að leggja áherzlu á í framfaramálum þjóðarinnar, sem verði sem mest í samræmi við þessa meginreglu, þá verða fyrst fyrir okkur beinar framkvæmdir í landbúnaði og vegagerð, þar sem eingöngu atorka landsmanna kemur til greina, en þarf ekki aðkeypt efni. hað vill svo til, þegar maður skyggnist um á þessum vettvangi, hvort vegagerð landsins sé komin í það horf, að henni sé ekki ábótavant, að þá er frá mínu sjónarmiði full ástæða til að láta til skarar skríða með endurbót á vegakerfi landsins.

Ég mun nú ekki hafa frekari formála, en snúa mér strax að till. þeirri, sem ég hefi leyft mér að bera fram um vegamál milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. Ég staðhæfi, að ekkert af stórmálum þjóðarinnar, sem hafa verið rædd síðustu áratugi, hafa átt eins erfitt uppdráttar að komast til heilsteyptra framkvæmda og þetta mál. Þó stafar þetta ekki af því, að svo lengi hafi dregizt að koma því á dagskrá hjá þjóðinni. Það eru milli 49 og 50 ár síðan málið var rætt fyrst. Um 1895, þegar tímaritið „Eimreiðin“ hóf göngu sína, hlaut hún nafn sitt í samræmi við þann framtíðardraum þálifandi hugsjónamanna, að eimreiðin myndi verða samgöngutæki á Íslandi. Þorsteinn Erlingsson sagði þar í hinu þekkta kvæði sínu, hvort við ættum ekki að „brjótast beint“, þó að framtíðarlandið sé fjarri. Þannig voru óskir hugsjónamanna þeirra tíma. Síðan eru liðin mörg ár, og margt hefir verið skrifað og rætt, sem miðar í þessa átt. Ungir áhugamenn með stálvilja hafa komið til landsins, eins og Jón Þorláksson, frá námi sínu erlendis. Þeir hafa haft það sem markmið í framkvæmdum landsins, að bæta samgöngurnar, sérstaklega kringum höfuðstaðinn. Margar greinar voru skrifaðar um þetta, m.a. um hið kunna járnbrautarmál, óskabarn Jóns Þorlákssonar. Það er kunnugt, hve hann hreif marga með sér með stórhug sínum í þessum málum. En margir urðu til þess að andmæla þessum ráðagerðum Jóns, sérstaklega einn maður, Björn Kristjánsson. Hann hafði ekki trú á járnbrautinni, heldur benti á vel gerða vegi sem beztu lausnina á samgöngumálum þjóðarinnar, og áleit bilvegi hentugnsta fyrir Íslendinga. En mjög var hlegið að þessum till. Björns og bent á snjóþyngslin sem óyfirstíganlega hindrun fyrir almennri notkun bila og byggingu bílvega. Þetta var kallað „þjóðargatið“, en ég hygg, að þeir menn, sem hæst hlógu, hafi síðar fúslegast viðurkennt við nánari athugun þessar hugsjónir Björns, sem nú eru okkur til ómetanlegs gagns, þrátt fyrir of litlar framkvæmdir á þessu sviði. Eftir öll þessi ár erum við enn skammt á veg komnir. Í staðinn fyrir að „brjótast það beint“, sem var hin upphaflega hugmynd, höfum við farið ótal krókaleiðir, og þess vegna verr farið en skyldi með árangurinn af þessum framkvæmdum. Hin mikilsverða samgönguleið milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins er nú farin á 3 stöðum, og á hver að vera annarar varaleið. Ein er um Heilisheiðina, önnur um Þingvelli og sú þriðja er Krísuvíkurvegurinn. Allir vita um hlutfallið milli þessara vega, sem nú liggja milli Reykjavíkur og Ölfuss. Hellisheiðarvegurinn er 59 km. Þar næst er vegur, sem verið er að gera eða verður gerður á Þingvallaleiðinni, 93.5 km. Krísuvíkurleiðin var upphaflega áætluð 100 km., en verður í framkvæmdinni 99.6 km. Það hefir legið fyrir till. frá vegamálastjóra um að leggja þann veg um Þrengslin, og er sú leið 70 km.; þ. e. a. s. 11 km. lengri heldur en Hellisheiðarvegurinn, 29:6 km. skemmri en Krísuvíkurleiðin og 23.3 km. skemmri en Þingvallaleiðin. Mönnum ber saman um, að eins og Hellisheiðarvegurinn liggur nú, verða þar alltaf miklu meiri snjóþyngsli heldur en bæði á Þingvallaveginum og Krísuvíkurveginum. Vegna þess að Krísuvíkurveginum er ekki enn lokið, er ókunnugt um þær viðsjár, sem verða á þeirri leið. Er óvíst, hvort gerlegt sé að leggja hann meðfram Kleifarvatni, þar sem þarf að nota dýnamít og önnur sprengiefni, sem nú eru ófáanleg til landsins. Þegar nú liggur fyrir till. frá vegamálastjóra um fullkominn veg austur yfir fjall, svokölluð Þrengslaleið, þá er þetta sama till. sem fyrst kom fram 1932 og hefir verið á döfinni, síðan byrjað var á Krísuvíkurveginum. Þó að Krísuvíkurleiðin sé 38 km. lengri en Þrengslaleiðin, þá er athugandi kostnaðurinn við vegagerðina á hverja 10 km. Eftir rannsóknum, sem liggja fyrir um þessi atriði málsins, hve hlutföllin eru mikil milli hinna einstöku vega, kemur í ljós, et miðað væri við, að Hellisheiðarvegurinn væri 100, þá yrði Þrengslaleiðin 119. Þingvallavegurinn 159 og Krísuvíkurvegurinn 169. Þá eru komin fram eftirtektarverð hlutföll á kostnaðinum, og sú leið er ódýrust, sem nú er farin.

Kunnugir menn hafa sagt mér, að ef vegurinn verður lagður um Þrengslin, spari það mjög mikið viðhald á bílum, vegna þess að leiðin sé skemmri. Nú er umferðin geysimikil, og má búast við, að 100 bílar fari þessa leið á dag, og er þá ekki um litinn sparnað að ræða, sérstaklega þegar hér kemur til greina útlent efni, svo sem gúmmí og benzín. Ég álít þess vegna sjálfsagt að leggja veg þar, sem leiðin er stytzt milli þessara staða.

Það er að vísu vísað til þess, og er það eðlilegt, að þetta myndi verða svo dýrt. Það er þó ekki, þegar litið er til þess, að þau ár hafa komið, að lagt hefir verið til vegamála í landinu nálega 2 millj. kr. Þetta er geysihá upphæð, en af öllum þeim merkilegu framkvæmdum í vegamálum Íslendinga, sem margar hverjar eiga mikinn rétt á sér, þá hlýtur þó framtíðarleið milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins að skipa virðulegan sess.

Það er svo, þegar litið er til vegar eins og Krísuvíkurvegarins, sem er í smíðum, að það mun þegar vera búið að eyða í hann allmiklu fé. Samkv. skýrslum, sem fyrir liggja, þá munu vera komnar í hann 342 þús. kr., og í Ölfusveginn 197 þús. kr. Það er ekki ástæða til að blanda þessum tveimur vegum saman, því annar er nauðsynlegur byggðavegur, sem á sérstakan tilverurétt, hvað sem hinum líður.

Þó ég hafi verið meðal þeirra manna, sem á undanförnum árum hafa orðið að segja nei við þeirri aths., sem hnýtt hefir verið aftan við atvinnubótastyrkinn, að ákveðinni upphæð skuli varið til Suðurlandsbrautar, Krísuvíkurbrautar, þá vil ég engan veginn segja, að hún eigi ekki rétt á sér. Hún er mikilvæg vegarbót fyrir Hafnarfjörð til Krísuvíkur, þar sem er mikið graslendi, sem getur orðið til nytja fyrir Hafnfirðinga. Hún hefir einnig orðið til að hjálpa atvinnulausum Hafnfirðingum um atvinnu, þegar ekkert annað hefir verið að gera, og það má ekki gera lítið úr því. Ég vil segja, að ef hið háa Alþ. tæki það ráð, sem ég vona, að það geri, að samþ. þessa till., og það yrði þá tekið til endurnýjaðrar rannsóknar, hvort ekki megi finna skemmri leið, sem reyndist eins örugg, hvort sem það yrði um Þrengslin eða einhver önnur leið, sem væri í svipaðri fjarlægð við höfuðstaðinn, þá gæti sá vegur engu að síður átt rétt á sér. Það eru engu að síður möguleikar til að hafa hann fyrir atvinnubótastarf.

Ég gæti tekið ýmislegt fram, sem er mjög eftirtektarvert, bæði viðvíkjandi vegarlengd, kostnaði og umferð, en ég álít, að það eigi ekki við. Ég er hér að óska eftir, að þetta sé tekið til endurnýjaðrar rannsóknar. Það er mitt að biðja um hana, en ekki að gefa í skyn, til hvers hún myndi leiða að lokum, enda þótt fyrri rannsóknir séu búnar að leiða ýmislegt í ljós. Ég vil af hugulsemi við hv. þm. stilla orðum mínum í hóf og lengja ekki mál mitt að óþörfu, en ég vænti þess, að hv. þm. taki það með í reikninginn, að það er ekki meiri firra, sem ég fer fram á, en það, að þegar rætt var síðast um þetta mál, þá lágu fyrir tillögur frá vegamálastjóra landsins um að fara svipað að og ég óska eftir að sé rannsakað nú, hvort ekki megi fara tiltölulega beina leið, sem væri öruggur framtíðarvegur milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins.

Ég vil að svo mæltu ljúka máli mínu, en ég treysti því, að hið háa Alþ. samþ. þessa till. og láti rannsókn fara fram á þessum leiðum og hagi síðan framkvæmdum eftir því, sem sú rannsókn leiðir í ljós.