17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2676)

103. mál, innflutningur á fiskiskipum

Skúli Guðmundsson:

Ég varð þess ekki var, að hv. þm. Vestm. gerði till. um að vísa þessu máli til n. til athugunar„ sem mér finnst þó eðlilegt, að gert væri, og vildi ég því gera það að till. mínni, ef slík till. er ekki fram komin. En áður en málið fer lengra, vildi ég segja um það nokkur orð.

Ég er sammála hv. flm. um það, að skipafloti okkar mun brátt ganga úr sér, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess, að flutt séu inn eða smiðuð skip í stað þeirra, er heltast úr lestinni. Það getur verið rétt að greiða fyrir innflutningi hentugra fiskiskipa, ef hægt er, þó að líta beri á það, að nú eru tímar erfiðir til þessa, þar sem skip eru í mjög háu verði. En það er fleira í sambandi við þetta, sem ég vildi láta koma fram og teldi gott, að n. athugaði einnig. Það er vitað, að mörg af fiskiskipum okkar eru orðin gömul og óhentug, og á ég þar aðallega við togarana, sem munu að meðaltali vera orðnir 20 ára, og þó að margir þeirra hafi verið reknir með góðum árangri síðan styrjöldin hófst, held ég, að óhætt sé að segja, að á venjulegum tímum muni ekki vera hægt að reka þá þannig, að afraksturinn hrökkvi fyrir gjöldum, með því afurðaverði, sem fengizt hefir að undanförnu. Það eru aðeins fá skip í flotanum, sem að undanförnu hafa verið rekin með sæmilegri útkomu. Ég tel því ástæðu til að athuga í þessu sambandi, hvort ekki myndu vera tök á að selja eitthvað af þessum skipum, ef hægt væri að losna við eitthvað af þeim og þau gætu reynzt öðrum hentugri en okkur. Hér á ég einnig sérstaklega við togarana. Eins og nú er komið í útvegsmálum, eru þeir okkur óhentugri en smærri skip, t. d. á síldveiðum, sem nú eru orðnar miklu stærri þáttur í útgerðinni en áður. Kostnaður við rekstur þeirra er meiri en smærri skipa, en afli or þó oft ekkert meiri á togurum.

En þegar um það er að ræða að auka skipastól okkar, kemur fleira til greina en innflutningur skipa, sem sé smíði skipa hér á landi. Ef hægt væri að selja nokkra togara úr landi góðu verði, mætti fyrir andvirðið kaupa efni í skip, sem smíða mætti hér á landi. Reynsla hefir fengizt fyrir því, að íslenzkir iðnaðarmenn geta smíðað hér allstór skip, sem hentug eru fyrir okkur. Þetta tel ég ástæðu til að athuga í sambandi við þetta mál, úr því að það er fram komið. Fer ég svo ekki fleiri orðum um þetta, en óska þess, að hv. allshn„ sem ég legg til, að fái till. þessa, athugi þessa hlið málsins.