17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

103. mál, innflutningur á fiskiskipum

Skúli Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð, áður en þessi till. verður borin undir atkv., út af ummælum hv. 2. landsk. Hafi hann skilið orð mín svo, að ég ætlaðist til, að hætt yrði við togaraútgerð, þá er það mjög fjarri því rétta. Það er alls ekki meining mín, þó að ég veki athygli á, að það gæti vel komið til mála, að við ættum að losna við eitthvað af togurunum, og það gæti vel komið til athugunar einmitt í sambandi við endurnýjun skipastólsins, sem hv. 2. landsk. var mér sammála um, að sé mjög nauðsynleg: Við vitum báðir, að sum af skipum togaraflotans eru orðin mjög gömul og úr sér gengin, og þó að möguleikar séu á því að gera þau út nú, vegna þess að verðið á ísfiski, sem seldur er til Englands, er miklu hærra nú heldur en á venjulegum tímum, þá er engin leið til að gera þau út nema með stórtapi á venjulegum tímum. Því miður er það nú svo um þó nokkra íslenzku togarana, að þeir munu innan skamms verða algerlega ónothæf skip, því að þegar skipin eru orðin mjög gömul, er viðhaldskostnaður þeirra svo mikill, að hann gleypir allar tekjurnar. Ég get ekki fallizt á, að það sé nein fjarstæða að leggja til, að þetta sé athugað af n., hvort opnast kynnu möguleikar til þess að selja eitthvað af íslenzkum skipum, og siðan væri hægt að verja andvirði þeirra til þess að kaupa ný og hentug skip, eða — og á það vil ég leggja áherzlu —, að kaupa efni í skip og láta íslenzka iðnaðarmenn smiða þau. Það hefir sýnt sig, að þeir eru vel færir um það. Sá kostur fylgir því að smiða skipin hér á landi, að þá er hægt að haga gerð þeirra eftir því, sem hver og einn telur sér bezt henta. Ég veit ekki betur en að hér á landi hafi verið smíðuð skip, sem eru um 100 smálestir að stærð, og að þau hafi reynzt ágætlega, og ég efast ekkert um, að það eru möguleikar til að smiða enn stærri skip hér á landi. Ef við gætum á þann hátt eignazt stór og góð vélskip í staðinn fyrir eitthvað af gömlu togurunum, sem ég álit ekki hægt að gera út nema mjög skamman tíma enn, væri einmitt stórt spor stigið í þá átt, að endurnýja skipastólinn, eins og hv. 2. landsk. taldi nauðsynlegt.

Ég skal ekki lengja umr. um þetta, en vænti þess, að n. taki öll þessi atriði til yfirvegunar.