30.03.1940
Efri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

84. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var út af þeirri brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 273, sem ég vil taka það fram, að á síðasta Alþ. var, ef ég man rétt, samþ. heimild fyrir ríkisstj. til að verja 45 þús. kr. úr ríkissjóði til þess að gera svo við þjóðleikhúsið, að hægt yrði að koma þjóðminjasafninu þar fyrir. En þessi till., sem hér liggur fyrir, miðar einnig að því að bæta þjóðleikhúsið, og ég hygg, að ef sú till. verður samþ. í þetta. skipti, verði hún til þess að létta undir og stuðla að því, að fært yrði að koma þjóðminjasafninu þar fyrir, því að þegar fé yrði veitt til að gera við húsið, myndi vonandi ekki líða á löngu þar til unnt yrði að bjarga þjóðminjasafninu úr þeim voða, sem það nú er í. Ég geri ráð fyrir, að þetta fé verði notað til þess að koma fyrir hitaleiðslum í þjóðleikhúsið og annara lagfæringa, og ég tel, að það heimildarfé, sem veitt var til þess á fjárl., 45 þús. kr., þurfi að ganga að miklu leyti til þess, en ekki til að innrétta sjálf herbergin. Ég tel það þjóðþrifafyrirtæki og nauðsynjafyrirtæki að koma þessu í verk, og ég held, að þessi till. hjálpi til þess, ef hún verður samþ. Ég treysti mér ekki til að standa móti henni og mun greiða henni atkvæði, því að verði hún samþykkt, mun þjóðleikhúsið fá þó nokkrar tekjur og trygging fást fyrir öryggi þjóðminjasafnsins.