11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

11. mál, vitabyggingar

Bergur Jónsson:

Við tveir af nm. höfum skrifað undir nál. með fyrirvara.

Eins og tekið er fram í grg. frv., hefir áður verið nokkuð mikill styr um aðalatriði þessa frv. hér á Alþ., t.d. 1937. (Það er prentvilla í grg. Þar stendur 1927, á að vera 1937).

Það, sem okkur, sem gerum fyrirvara um þetta mái, og hv. 6. þm. Reykv. greinir aðallega á um í þessu máli, er ekki það, hvort leggja eigi fram svo mikið fé sem þörf er á til vitamála, því að um það er öll sjútvn. sammála, heldur eru skoðanir skiptar um það, hvort binda eigi vitagjaldið og framkvæmdir í vitamálum algerlega saman, eða hvort fylgja eigi þeirri meginreglu, sem við hv. þm. V.-Húnv. (SkG) teljum réttari, að framkvæmdir á því sviði fari sumpart eftir nauðsyn á þeim og sumpart eftir getu ríkissjóðs á hverjum tíma, en láta ekki þá tilviljun, sem ræður því, hversu hátt vitagjaldið reynist í hvert sinn, ráða framkvæmdum. Skoðun hv. 6. þm. Reykv. féllst Alþ. 1937 ekki á.

Fyrirvari minn og hv. þm. V. Húnv. er reistur á þeim röksemdum, sem ég nú hefi greint, og ennfremur á því, að þar sem ákveðið er í 2. gr. frv., að l. þessi, ef frv. verður samþ., eiga ekki að koma til framkvæmda meðan styrjöldin, sem nú stendur yfir, varir, þá álítum við, að ekkert liggi á nú að vera að samþ. þetta frv. og að það hafi því enga sérstaka þýðingu, þótt hv. þm. vilji ef til vill breyta afstöðu sinni frá því, sem hún var á Alþ. 1937 En vegna þess síðastgreinda ákvæðis frv. tel ég ekki þörf á að hafa harðar deilur um málið nú. Hvenær styrjöldinni lýkur, veit enginn, og gefst því áreiðanlega síðar nýr tími til þess að deila um efni frv.