12.03.1940
Efri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

25. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að hér væri verið að veita vestmannaeyjakaupstað alveg sérstöðu hvað þennan vörutoll snertir. Út af þessum orðum hv. þm., sem er tiltölulega nýr þm., vil ég taka það fram honum til upplýsingar, að þingið hefir einmitt litið svo á, að vestmannaeyjar hefðu líka sérstöðu frá náttúrunnar hendi, og einmitt vegna þessarar sérstöðu væri fært að veita vestmannaeyjakaupstað rétt til að leggja vörugjald á, þó öðrum kaupstöðum hafi verið synjað um það, vegna þess, að vestmannaeyingar legðu þetta gjald aðallega á sjálfa sig, en væri fleiri kaupstöðum leyft að leggja slíkan skatt sem þennan á hjá sér, myndi hann óhjákvæmilega koma niður á fleirum en íbúum kaupstaðarins eða kauptúnsins, þar sem hann væri lagður á. Að bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar hefir verið leyft að leggja skatt þennan á, er því eingöngu vegna sérstöðu eyjanna. Annars höfum við þm. Eyf., eins og kunnugt er, farið fram á að fá leyfi til handa bæjarstjórn Siglufjarðar að leggja á líkt gjald og þetta, en ekki fengið. við höfum haldið því fram, að Siglufjörður hefði ekki ósvipaða sérstöðu frá landfræðilegu sjónarmiði og Vestmannaeyjar, en þær röksemdir hafa ekki fengið hljómgrunn hjá Alþingi. Hinsvegar skal ég taka undir þá ósk hv. 10. landsk., að flýtt verði sem verða má löggjöf um þessi efni.