04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1941

*Árni Jónsson:

Herra forseti! Það er orðið einhverskonar þegjandi samkomulag um það milli okkar þm., sem hér erum, að reyna að stytta hæstv. forseta stundir, úr því að hann verður að verða af þeirri skemmtun, sem öðrum þm. er búin í kvöld. Mér datt nú í hug erindi eftir horstein Erlingsson, ég held úr Eiðnum, sem ég ætla að fara með:

“En gaman væri að verða að flugu,

það veit minn guð, og ná í smugu,

og gá, hvort Evu og Adams blað

er enn á sínum gamla stað.

Þau tvö þar engum augum kvíða,

en okkur kitlar furðu víða

í von um þennan unaðsyl,

ef eitthvað skyldi hnikast til.“

Ég veit ekki, hvernig því stóð, að mér datt þetta í hug, en kannske hefir það verið af því, að flestir hv. þm. hafa haft meiri áhuga á því að fara í leikhúsið í kvöld heldur en að vera hér, líklega í von um einhvern „unaðsyl þar, og Það er ekki þakkarvert, þar sem ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að banna að sýna þetta leikrit á leiksviði. En að öðru leyti sýnir þessi leikhúsferð mjög mikinn áhuga á fögrum listum, og ég býst við, að sá áhugi eigi eftir að koma til góða sumum brtt. við fjárl., en þær snerta nú flesta listamenn okkar.

Ég ætla ekki að fara að ræðu mikið um það hér, hvort heppilegt sé að Alþ. hafi með höndum úthlutun á styrk til skálda og listamanna, eins og lengst af hefir verið, eða að hún sé í höndum menntamálaráðs. Það kynni þó að horfa betur að tala um það nú, eins og salur Nd. er nú skipaður, þar sem hér eru að mestu leyti hinir gömlu tryggu áheyrendur, sem alltaf eru hér, það eru stólarnir, heldur en ef hér væru fleiri viðstaddir, sem kynnu að verða til andsvara. Á síðasta Alþ. var háð mikil deila um það, hvort þessi úthlutun skyldi vera í höndum Alþ. eða menntamálaráðs. Fráfarandi fjmrh. (EystJ) hafði brotið þá venju, sem verið hafði áður, með því að leggja til, að úthlutun á listamannastyrknum yrði tekin af Alþ. og færð undir menntamálaráð. Hér á Alþ. var háð mikil senna um þetta, og sá, sem mest barðist fyrir menntamálaráðið, var form. þess, hv. þm. S.-Þ. (JJ). þegar loks var gengið til atkv., voru 22 þm., sem vildu, að menntamálaráð hefði úthlutun þessa styrks með höndum, en 21 þm., sem vildi, að sú úthlutun yrði ákveðin hér á Alþ. eins og áður. Hinn tiltölulega litli meiri hl., sem hér er um að ræða, þar sem aðeins 22 þm. voru með menntamálaráði, gefur alls ekki skýra mynd af þingviljanum um þetta. Sérstaklega verður að vefengja það, að þingvilji liggi til grundallar þessum úrslitum, vegna þess að þeir tveir þm., er úrslitum réðu, eiga háðir sæti í menntamálaráði, og manni virðist að nokkru leyti eins og þeir væru að dæma í sinni eigin slík. Þessir þm. eru form. menntamálaráðs, hv. þm. S.-Þ. (JJ), og hv. 1. þm. Skagf (PHann). En eftir að Alþ. var slitið, var mikill eftirleikur um þetta. Form. menntamálaráðs skrifaði langa grein um þetta mál í blaðið „Tímann“. Það var nokkurskonar eftirmáli um „skáldin sjö“, „grenjaskytturnar“, og ásakanir um það, sem gert var á Alþ. En á Alþ. hafði hann m.a. talað um, að það væri einkennilegt, að maður eins og Jóhannes Kjarval málari skyldi gleymast 49 þingmönnum. Í sambandi við það var það formælandi form. menntamálaráðs, sem kvað vísu um þetta. Ég er ekki alveg viss um að hafa hana rétt yfir, en ég vona, að hæstv. forseti (HG) taki ekki af mér orðið, þó að ég þurfi að hugsa mig ofurlítið um. Mér finnst það ekkert saka, þó að þessi erindi birtist í Alþt.:

„Lævi blandið húm af heimsku

hylur allan þingsins geim,

svífa menn í svefni og gleymsku,

svo að Kjarval týnist þeim.

Meinleg gleymska manninn hrjáði,

meðan í stj. og þingi sat,

en uppi í menntamálaráði

mundi hann allt, sem hugsazt gat.“

Þetta þótti dálítið einkennilegt, að þm. lýsti því yfir frammi fyrir 49 þm., að þeir hefðu gleymt Kjarval, en var þó sjálfur einn af þeim 49, sem hann sakar hér um gleymsku.

Ég ætla nú ekki að fara að tala mikið um þessa úthlutun styrk til skálda og listamanna, sem menntamálarúð hefir ákveðið, en það er hætt við, að hún sæti misjöfnum dómum. Forsendurnar fyrir því, að þess var krafizt með svo miklum krafti, að menntamálaráð tæki að sér þessa úthlutun, voru þær, að því væri betur trúandi en öðrum til þess að sjá um, að þeir menn, sem unnið hefðu að óþjóðlegri og þjóðskaðlegri starfsemi, yrðu ekki viðurkenningar eða styrks aðnjótandi af opinberu fé. En það fór nú svo, að sumir þeirra manna, sem þeir, er börðust fyrir menntamálaráði, munu hafa átt við, þótt nöfn veru eigi nefnd, — að þeir héldu sínum fulla styrk, viðurkenningu og öðru. eins og áður hafði verið, þrátt fyrir það þó að þeim hefði verið blandað inn í umr. hér á Alþ. til að fá þm. til þess að aðhyllast þessa ráðstöfun. En hvað hann snertir, sem ég hygg, að hafi verið talinn skaðlegastur, var fjárveitingin til hans lækkuð nokkuð frá því, sem áður hafði verið. Hann hafði haft á fjárl. undanfarinna ára 5 þús. kr., en menntamálaráð lækkaði styrkinn til hans niður í 1800 kr. Nú má segja það um slíka fjárveitingu sem styrkurinn til skálda og listamanna er, að það sé ekki eingöngu styrkur, heldur einnig heiðursviðurkenning. Það er líka eftirtektavert, að styrkurinn fer í sumum tilfellum dálítið eftir því, hvort sá, sem við honum tekur, er verulega þurfandi fyrir hann eða ekki. Ég get ímyndað mér, að hvað þann mann snertir, sem hér um ræðir, mann, sem þekktur er ekki aðeins hér al landi, heldur einnig utan landsteinanna, hafi lækkunin á upphæðinni til hans getað stafað af því, að menntamálaráð hafi litið þannig á, að hann hefði ekki þörf fyrir hærri upphæð en þetta, en hinsvegar gert þá ráðstöfun, að láta hann fá 1800 kr., til að sýna, að hann nyti viðurkenningar af hálfu þjóðfélagsins sem áður. Í stuttu máli má segja það, að þó að styrkurinn hafi verið skertur, hafi heiðursviðurkenning hans verið óskert eftir úthlutun menntamálaráðs. Þegar hæstv. núverandi fjmrh. (JakM) hefir tekið þessa fjárveitingu aftur í hendur Alþ. með fjárlfrv. fyrir árið 1941, hefir hann nú fellt niður nöfn þeirra manna, sem deilan stóð mest um. Hann hefir tekið þau út og fellt niður viðurkenninguna og styrkinn til þessara manna. Þess vegna held ég, að þannig mætti líta á, að þeir, sem endilega vilja, að menntamálaráð haldi áfram að úthluta þessu fé, geri það beinlínis til þess, að þessir menn, sem annars eru taldir aliskaðlegir þjóðfélaginu, fari ekki á mis við þá viðurkenningu og þann styrk, sem þeir hafa hlotið fram að þessu. Mér finnst nú, að hæstv. forseti (PO) sé mér sammála, bæði er hann þannig á svipinn, og svo tel ég engan vafa á því, vegna þess að hann kinkar kolli til samþykkis.

Ég ætla að lokum að nefna þær brtt. við fjárl., sem ég hefi gerzt fim. eða meðflm. að. Það eru æðimargar brtt., en þó að ég flytji nokkuð margar brtt. við fjári., þá held ég samt. að mér sé óhætt að fullyrða það, að samþykkt þeirra muni ekki hafa neina sérstaka erfiðleika í för með sér fyrir afkomu þjóðarinnar í heild sinni né breytir miklu útkomu fjárl.

Ég ætla fyrst að minnast á brtt., sem ég á á þskj. 308, undir tölulið XVIII. Hún er um það, að 1500 kr. verði veittar Blaðamannafélagi Íslands. Blaðamannafélagið er nú orðið gamalt félag, en það hefir til skamms tíma látið fremur lítið til sín heyra, en hin síðustu ár hefir færzt nýtt líf í það. Blaðamannafélagið hefir upp á síðkastið látið mjög mikið að sér kveða. Það stóð fyrir því, að hingað komu frá Danmörku á síðastl. sumri 9 blaðamenn í heimsókn og ferðuðust um hér á landi. Ég byst við því, að heimsókn dönsku blaðamannanna á síðastl. ári hafi miklu fremur en margar aðrar heimsóknir, sem við höfum fengið á undanförnum árum, orðið til þess að efla einlægt vináttusamband milli þessara tveggja landa. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að hvernig sem allt kann nú að snúast, þá hafi sambúð okkar Íslendinga við sambandsþjóð vora, Dani, síðan við urðum þó svo stórir, að við þóttumst standa nokkuð á okkar eigin fótum, verið mjög viðunandi. Það er eftirtektarvert, að því fer svo fjarri, að kali hafi aukizt milli þessara tveggja þjóða við það, að Íslendingar fengu fullveldi sitt viðurkennt. að þvert á móti hefir sambandið orðið miklu hlýrra og innilegra heldur en áður var. Nú eigum við Íslendingar eftir að stíga síðasta sporið í þessu máli, og ég hygg, að það sé okkur öllum sameiginlegt áhugamál, að úrslitin geti farið fram með sem allra friðsömustum hætti við sambandsþjóð okkar. við höfum þann málstað í því máli, að bezta trygging okkar fyrir því, að sá málstaður nái tökum á hugum manna hjá sambandsþjóðinni, svo að hún geti skilið sjónarmið okkar og fallizt á það, er, að hingað komi áhrifamenn þaðan, sem fái tækifæri til þess að kynnast landi og þjóð, hugsunarhætti manna og viðhorfi eins vei og frekast er unnt í slíkum heimsóknum. Ég álít, að þessi blaðamannaheimsókn tryggi þetta eiginlega betur en flestar aðrar heimsóknir. Hér voru menn frá blöðum allra meiriháttar stjórnmálaflokka í Danmörku, og sumir þeirra mjög þekktir og mikilsvirtir blaðamenn. Það var ekki sá ófrelsisbragur á þessari móttöku eins og oft vill verða, þegar um opinberar heimsóknir er að ræða, sem kannske eru í þeim tilgangi gerðar að kynnast einungis efsta broddinum af þeim mönnum, sem helzt með völdin fara, og svo þeirra nánasta úrvalsliði. Þessir dönsku blaðamenn fengu tækifæri til að kynnast íslenzku þjóðinni á miklu víðara grundvelli en flestir aðrir, sem koma hingað til lands. Ég hygg, að það hafi verið talað alveg hispurslaust við þá um hlutina. Mér skildist af viðtali við þessa menn, sem ég hafði þá ánægju af að kynnast, að við Íslendingar myndum mjög vel við það una, ef sambandsþjóð vor yfirleitt væri þannig „stemmd“ í okkar garð eins og þeir voru, er þeir létu héðan í haf.

Þessi heimsókn kostaði vitanlega mikið fé, því að það var farið með blaðamennina í bílum norður í land, og sú ferð tók langan tíma. Auk þess voru veitingar við þá ekki neitt skornar við neglur og kostuðu allmikið fé. En fyrir þetta komst Blaðamannafélag Íslands í allmikil fjárhagsleg vandræði, og hefir það gert mjög mikið til að vega upp á móti því með ýmsu móti. Það hefir haldið 2–3 kvöldvökur í vetur með mjög fjölbreyttum skemmtiatriðum, og á þann hátt hefir það fengið nokkurt fé. Auk þess var haldin árshátíð blaðamama, sem síðan hefir verið kölluð „sjáball“, vegna þess að dr. Guðm. Finnbogason landsbókavörður fann upp það nýyrði, að kalla það „sjá“, sem á útlendu máli og vondri íslenzku hefir verið nefnt „pressa“, og út af því fór einhver náungi að velta því fyrir sér, hvort menn gætu orðið blindir á „sjáballi“. Ég veit ekki, hvernig það hefir verið á þessu tilfærða „sjáballi“. En á þessu „sjáballi“ var það í fyrsta skipti tekið upp hér á landi, að hæstv. forsrh. (HermJ) hélt pólitíska ræðu. hað hefir aldrei áður verið gert hér á landi, að forsrh. haldi stórpólitíska ræðu á gleðisamkomu, en í öðrum löndum, t.d. í Englandi, er það mikill siður.

Annars þarf ég ekki að fjölyrða mikið um þessa till., sem ég tel sjálfan mig sérstaklega flm. að. Það má segja, eins og stundum stóð í ritdómum hér á árunum: Nafn höfundarins er trygging fyrir innihaldinu. Ég vil segja það, að nöfn flm. hljóta að vera allmikil trygging fyrir því, að hér sé gott mál á ferðinni, þar sem flm. að henni eru auk mín, hæstv. viðskmrh. (EystJ), sem hefir aldrei svo ég muni eftir borið fram brtt. við fjárl., hæstv. forseti Sþ. (HG), hæstv. fyrrv. atvmrh. (SkG) og hv. 3. þm. Reykv. (Hv). Ef hæstv. forseti (PO) hefir ekkert á móti því, ætla ég að láta lokið máli mínu um þennan lið.

Þá, að öllu gamni slepptu, því að ég sé, að hv. þm. eru að smátínast af samkomunni, þar sem von var á skemmtiatriðum, og ég ætla að vona, að hv. varaforseti (PO) haldi þeim hér við, úr því að þeir eru kontnir inn á annað borð, ætla ég að snúa máli mínu að alvarlegra efni. Ég hefi teygt allmjög lopann í ræðu minni fram að þessu, en skal nú reyna að ljúka máli mínu á mjög skömmum tíma.

Næsta brtt., sem ég ætla að tala um, er um, að tekinn verði upp á fjárl. 2 þús. kr. styrkur til Sveins Þórarinssonar listmálara. Það er rétt, að ég geti þess, að ég er þessum manni ekki persónulega kunnugur, og get ég þess vegna vísað þegar á bug öllum ótta manna um það, að hér væri nein persónuleg vitneskja á ferðinni hvað þennan mann snertir. En ég hefi séð nokkuð af verkum hans og leitað mér upplýsinga hjá kunnugum mönnum um hann. Sveinn er einn þeirra manna, sem brotizt hafa úr mikilli fátækt til mikilla mennta, og um hann eins og suma aðra má segja, að þeir standa mörgum öðrum framar, þótt erfitt ættu í upphafi, og lifa langdvölum erlendis, enda eru fáir hér á Íslandi of sælir, sem eiga yfir listrænum hæfileikum að búa. Sveinn fór ungur utan og lauk námi við Kunstakademiet í Kaupmannahöfn. Síðan ferðaðist hann um ýmis önnur lönd, einkum Frakkland, til þess að kynnast fyrirmyndar listaverkum annara þjóða en Dana einna. Sveinn sýndi mikla þrautseigju í að leggja á sig hið mesta erfiði án þess að njóta nokkurn styrks. Ef þessi till. verður samþ., þá er það í fyrsta skipti, sem Sveinn hefir notið nokkurrar viðurkenningar frá hinu opinbera. En þó að Sveinn hafi dvalið mikið erlendis, ber list hans það með sér, að hann er í engum greinum sporgöngumaður eða eftirherma annara. Nám hans og dvöl meðal erlendra þjóða hefir orðið til þess að auka og þroska hina miklu listgáfu hans sjálfs. En það er víst óhætt að segja, an Sveinn er í verkum sínum sérkennilegastur allra íslenzkra listmálara. Ég hefi heyrt á mörgum, sem um hann hafa rætt, að þeir telja hann íslenzkari í list sinni en flesta aðra. Hann velur fyrst og fremst viðfangsefni sín úr íslenzkri öræfanáttúru, íslenzku þjóðlífi og sveitalífi. Stærstu og beztu listaverk Sveins eru mörgum kunn, þeim, sem á annað borð hafa áhuga á málaralist. Svo að ég nefni nokkur, ætla ég að nefna Herðubreið, Dettifoss, Lestaferð, Gangnamenn og Heyskap, en það mætti nefna ýmis fleiri. Sveinn hefir vakið mikla athygli hvar sem hann heldur sýningar. Hann hefir sýnt listaverk sín víða erlendis, og nú síðast í vetur í Kaupmannahöfn, og hlaut þar mikið lof og riðurkenningu. Það var ekki lakari maður en Einar Nielsen, einn af beztu málurum Dana, sem lauk hinu mesta lofsorði á list hans. Sveinn er kvæntur danskri konu, sem einnig er listmálari, og hefir hún einnig hlotið lof fyrir sýningar á listaverkum sínum. Þau hjónin bjuggu lengi búi sínu í Ásbyrgi í Kelduhverfi, og það var, að ég hygg, eingöngu vegna lasleika konu Sveins, að þau urðu að flytja frá þessum fagra, þekkta stað, að þeim báðum nauðugum, eftir því sem ég bezt veit. Ég skal geta þess, að hagur þeirra hefir verið að mörgu leyti ömurlegur, vegna þess að konan er alvarlega veik og hefir legið langan tíma á sjúkrahúsi. Ég lít svo á, að þessi styrkveiting og viðurkenning, sem hér er farið fram á til Sveins Þórarinssonar, sé fyllilega réttlát. Ég treysti því, þó að fáir séu hér viðstaddir, nema hinir trúu stólar, að þá verði þó sú raunin á, að þessi till. komist í gegn.

Ég á hér nokkrar brtt. ásamt öðrum þm., en þar sem ég er ekki 1. flm. að þeim, þá stilli ég mig um að tala um þær. En ég ætla að fara örfáum orðum um brtt. mína á þskj. 308, XXVIII, sem er 1200 kr. styrkur til Péturs Jónssonar söngvara. Það má segja um Pétur Jónsson, að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Þeir eru nú orðnir allmargir þeir listamenn okkar, sem lagt hafa út á þá braut, að gera sönglist að atvinnugrein sinni, en til þessa dags hefir enginn náð jafnmiklum árangri og Pétur Jónsson. Hann dvaldi meðal þeirrar þjóðar, sem er söngmenntuðust af öllum þjóðum álfunnar og gerir yfirleitt hæstar kröfur í þeim greinum. En Pétur komst svo hátt í Þýzkalandi, að hann var talinn þar í fremstu röð tenorsöngvara, sem létu til sín heyra þar í landi. Hann var orðinn óskabarn Þjóðverja; það var hætt að kalla hann Jónsson, heldur kölluðu þeir hann „unser Peter“. En á meðan Þjóðverjar kölluðu hann „unser Peter“, þá gleymdi hann aldrei ættjörð sinni og lét ekkert tækifæri ónotað til að komast hingað heim og láta okkur verða aðnjótandi söngs síns. Ég mun ekki rekja hér tildrögin til þess, að Pétur Jónsson hætti á listamannsbraut sinni fyrr en búizt var við, en aðalástæðan var hað almenna hrun, sem varð í Þýzkalandi og öllum er kunnugt um. Nú er svo, að hér heima fyrir er vitanlega ekki hægt, jafnvel þó að Pétur Jónsson sé einhver mesti Wagnersöngvari sinnar tíðar, að færa hér upp óperur Wagners eða greiða á annan hátt fyrir Pétri, svo að hann geti haft atvinnu af söng sínunt. Þess vegna hefir Pétur orðið að snúa sér til borgaralegrar iðju og hefir rækt störf sín af hinni mestu kostgæfni og samvizkusemi, enda mjög vel metinn starfsmaður hér í hænum. Það mætti raunar segja, að honum væri ekki vandara um en öðrum opinberum starfsmönnum að lifa af sínum launum. En ég vil segja þar á móti, að hart sé aðgengið, ef Pétur á að gjalda þess, að hann vill vinna fyrir sér á borgaralegan hátt, þegar honum lokast listamannsbraut og frægðarferill erlendis af ástæðum, sem hann fékk ekki við ráðið. Ég stend einn að þessari brtt., taldi að ég þyrfti ekki að hafa aðra menn með mér, mér betri og áhrifameiri, því eins og ég sagði, er ég talaði fyrir till. næst á undan, er nafn fim. trygging fyrir því, að gott mái sé á ferðinni, og þá ætti nafn okkar Péturs Jónssonar að vera trygging fyrir því, að Alþ. sjái sér fært að láta þennan listamann verða styrksins aðnjótandi. Svo læt ég máli mínu lokið.