28.03.1940
Efri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Mér þykir rétt að fylgja frv. þessu úr hlaði með örfáum orðum. Það hefir gengið í gegnum Nd. með litlum breyt., aðeins lítilsháttar orðabreytingu á 2. gr. til skýringar.

Frv. er ekki mikið að vöxtum, en aðalefni þess er að veita uppbætur á slysatryggingu þeirra manna, er orðið hafa fyrir slysum og eiga rétt til bóta samkv. l. um alþýðutryggingar. 2. gr. fjallar um uppbót á ellilaun og örorkubætur. Hvorttveggja er miðað við að bæta að fullu dýrtíðina samkv. verðlagsvísitölu, og liggur til grundvallar, að þessi gjöld, slysatryggingar og ellitryggingar, voru sett svo lág í upphafi, að ekki má við því að draga neitt úr kaupmætti þeirra manna, sem þessa styrktarfjár verða aðnjótandi.

Þar sem Alþ. hefir á síðasta þingi ákveðið uppbætur handa launþegum almennt og nú hefir þessi hv. d. afgr. frv. um uppbætur til handa opinberum starfsmönnum, þá liggur í augum uppi, að þeir, sem hafa orðið fyrir slysum, eru örkumla eða ellihrumir eða hafa misst fyrirvinnu sína, fái uppbætur samsvarandi dýrtíðinni.

Ætla ég, að svo mikil rök og réttlát liggi fyrir máli þessu, að eigi þurfi að eyða að því fleiri orðum.

Vænti ég, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.