01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

74. mál, verðlag

Thor Thors:

Atvmrh. og fjmrh. hafa báðir tjáð mér, að þeir hafi verið ókunnugir þessu frv. unz það var lagt fyrir Alþingi. Hæstv. viðskmrh. getur haft sína skoðun á því máli, hvort ástæða sé til andúðar gegn frv. En sannleikurinn er sá, að komið hefir upp meir en lítil óánægja með það hjá flestum þeim, sem eiga atvinnu sína að einhverju leyti undir ákvæðum þess. Honum hlýtur að vera kunnugt álit það, sem bæði Verzlunarráð Íslands og Landssamband iðnaðarmanna hafa látið í ljós um það opinberlega. Við skulum vona, að andúðin hjaðni niður, þegar athugun og reynsla fæst um þessa löggjöf, í framkvæmd hæstv. ríkisstjórnar. Vona ég einnig, að brtt. n. miði að því, að svo geti orðið. Ég vil vona, að ef samvinna helzt í ríkisstj., nái hún einnig til þessara mála og hófs verði gætt í öllu.