05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

18. mál, áfengislög

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég skal ekki lengja þessar umr. En mér fannst ég ekki geta látið 2. umr. líða hjá án þess að benda á nokkur atriði í sambandi við þær.

Ég hef hlustað á mál hæstv. forsrh., og ég verð að segja, að ég hef oft heyrt hann færa betri rök fyrir máli sinu en nú. Hann sagði, að þetta væri allmikið fjárhagsatriði. En ég verð að mótmæla því og benda á, að einmitt hefur nýlega verið lagt til að afnema 2 gjaldstofna, sem hvor um sig, og einkum báðir til samans, gáfu ríkissjóði margfalt meiri tekjur en öltollurinn getur gefið. Þessir gjaldstofnar eru greiðslumerkin, sem gáfu um 70 þús., og veitingaskatturinn, sem árlega gaf 100–200 þús. kr. Hins vegar er sannað, að öltollurinn gefur ekki nema ca. 29 þús., eftir afköstum verksmiðjunnar að dæma, en í allra hæsta lagi 40–50 þús., þegar allt er komið í fullan gang.

Hæstv. forsrh. lýsti nauðsyn bráðabirgðal. um þetta. En þær ástæður hafa ver ið hraktar af öðrum á undan mér. Og ég vil taka undir með hv. 2. landsk. og hv. þm. Hafnf., að þau l., sem brezka setuliðið hefur þegar brotið, eru orðin svo mörg, að það hefði verið alveg óhætt að leyfa því að brjóta þessi l. einnig.

Þá var því haldið fram, að ef Bretar hefðu ekki fengið ölið hér, þá hefðu þeir flutt það inn sjálfir. En hvernig má það vera, ef ekki er hægt að fá hráefni í nóg öl? Nú hefur það komið í ljós, að Bretar hafa ekki svo mikinn skipakost, að þeir megi eyða skiprúmi í ölflutninga. Hvað þá um innflutning?

Því hefur verið lýst átakanlega af hæstv. forsrh., hve miklum árekstrum og truflunum ölæði setuliðsmanna hafi valdið meðan þeir höfðu aðgang að vínum áfengisverzlunarinnar. Nú var gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir það. En svo er leyfð bruggun áfengs öls. Og þá er engin hætta á árekstrum milli Íslendinga og setuliðsmanna, þótt þeir drekki frá sér vitið í hinu sterka öli.

Ég ætla ekki að fara út í reynslu bannlaganna hér. En ég tel það vera. kaldhæðni örlaganna, að hv. þm. S.-Þ., fyrrv. dómsmrh., skuli vera aðalforsvarsmaður sterka ölsins, hann, sem gaf bannlögin upp á bátinn, af því að hann hafði hvorki vilja né getu til að framfylgja þeim, svo þau kæmu að tilætluðum notum.

Því var haldið fram, að þetta frv. verði að samþykkja, vegna þess að ríkisstj. ber það fram. Ég get ekki fallizt á þessa mótbáru, því ég tel víst, að hæstv. ríkisstj. láti sér í léttu rúmi liggja, hvort frv. er samþykkt eða ekki. Og tel ég enga ástæðu til, að hún geri það að fráfararatriði, þótt frv. verði fellt.