18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég á litla brtt. við 4. gr. frv., á þskj. 195, sem ég vil gera grein fyrir með fáeinum orðum. En áður en ég sný mér að því, vil ég segja nokkuð álit mitt á þessu frv. almennt.

Ég get ekki látið hjá líða að harma það, að ekki skuli vera tekið meira tillit til sérstöðu útgerðarinnar meðal atvinnuvega þjóðarinnar, sérstaklega togaraútgerðarinnar, og hún látin njóta meiri fríðinda en raun er á samkv. frv., svo hún gæti komizt á þann rekspöl, að ekki sé hætta á, að lík vandræði steðji að henni í bráð og voru fyrir 1939.

Mér hefði fundizt réttara og eðlilegra, ef þeir menn, sem stóðu að þessu frv., hefðu getað orðið ásáttir um að láta skattfrelsisl. halda gildi sínu fyrir árið 1940. Það hefði e, t. v. mátt hugsa sér að leggja á stríðsgróðaskattinn, en mér finnst, að ríkissjóður hefði átt að láta sér nægja það, en bæjarfélögum hefði verið heimilað að leggja á útgerðina þau útsvör, sem þau teljast þurfa gagnvart efnahag sínum.

Menn þurfa að athuga það, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, að þessi atvinnuvegur hefur stórmikla þýðingu fyrir allt landið í heild sinni. Þess vegna tel ég það vera skyldu ríkisstj. og Alþingis að búa svo um hnútana, að útgerðin þurfi ekki að komast fljótlega í sama öngþveitið og áður en þessi óvænti hvalreki barst á fjöru hennar síðastl. ár.

Ríkissjóður þarf ekki eins mikilla peninga við nú og áður vegna þess ástands, sem nú er ríkjandi, og með þeim tollum, sem nú hafa aukizt ríflega, er að verulegu leyti séð fyrir hans þörf, og einnig má á það líta, að nú er niður fallinn, eða a. m. k. mjög mikið minnkaður, atvinnuleysisstyrkur og annað, sem ríkið hefur þurft að leggja til bæjanna. Það er einnig ljóst, að tekjuskattur frá einstaklingum er stórum aukinn, svo að fjárhag ríkissjóðs ætti að vera vel borgið. Aftur á móti hafa bæjarsjóðir og sveitarsjóðir, þar sem stórútgerð er rekin, orðið fyrir barðinu á því, hvernig útgerðin hefur gengið að undanförnu, og þeir fyrir bragðið komizt í fjárþröng, sem er ekki nema sjálfsagt, að Alþingi geri sitt til að koma þeim úr með því, að þeir fái sem mestar ívilnanir og hlunnindi og tekjur af þeim stríðsgróða, sem orðið hefur.

Ég segi því fyrir mig, að ég tel, að ef þeir hv. þm., sem hafa haft þessi mál með höndum og undirbúið undir Alþingi með þessu frv., hefðu haft þetta sjónarmið, hefði það orðið happasælla fyrir þjóðina í heild, og sérstaklega fyrir þá mannmörgu bæi, sem þarna er um að ræða, og alla þá mörgu verkamenn og sjómenn, sem eiga allt sitt undir þessum atvinnuvegi.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en þetta er í sem fæstum orðum það, sem ég álít, að heppilegast hefði verið að gera í þessum málum.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um brtt. mína. Hún fer fram á, að þau félög, sem eiga að leggja fé í nýbyggingarsjóði og fá þess vegna veruleg hlunnindi um skattgreiðslur, þau megi nota til þess þær innstæður, sem þau eru nú skylduð til að eiga í enskum bönkum, af því fé, sem þeim hefur græðzt á ísfiskssölunni, að þau megi hafa helminginn af þessu fé, sem í nýbyggingarsjóðina á að fara, af þessum innieignum í enskum bönkum. Mér finnst þetta svo sanngjarnt, að ég hef ekki komið með aðra kröfu til þess að sjá, hvort nokkur vegur er að fá nokkru breytt í þessu frv., því að ef svo mikilli sanngirniskröfu sem þessari er synjað, þá álít ég ekkert þýða að hrófla neitt við frv., því að þá sé ákveðið, að það skuli ganga óbreytt í gegnum þessa hv. d. og til Nd.

Til að rökstyðja þessa sanngirniskröfu mína vil ég fyrst og fremst segja það, að ég tel sanngjarnt, að útgerðarmönnum sé leyft þetta, þegar um slíka lagasmíð er að ræða og þessa, þar sem þeir hafa gert ýmsar ráðstafanir lögum samkvæmt með fé sitt, sem gerir þeim kannske ókleift að leggja fram tilskilið fé í þessa sjóði, af því að þetta frv. verkar aftur fyrir sig. Þeir hafa ekki vitað annað en að þeir mættu ráðstafa sínu fé á þennan hátt, og þess vegna verður erfitt fyrir þá að uppfylla þau skilyrði, sem fullnægja þarf, til þess að þeir geti notið þessa skattfrelsis að sem mestu leyti. Það eru kannske menn, sem hafa ráðizt í það að kaupa skip dýru verði og hafa hjálpað upp á bankana um leið með því að forða þannig bönkunum frá að verða að festa fé á þennan hátt. Ýmsir menn hafa lánað opinberum stofnunum fé, sem mikil þörf hefur verið að rétta hjálparhönd, þar sem það opinbera hefði annars orðið að koma til. Það ætti ekki að refsa þeim fyrir það, heldur ætti Alþingi að sýna, að það vilji skilja og viðurkenna þegnskap þeirra í þessum málum. Þá ber einnig á það að líta, að stj. hefur gefið út bráðabirgðal. um, að þeir yrðu að hafa fé sitt fast og vaxtalaust í bönkum erlendis. Það væri því ekki nema rétt og eðlilegt, að þeir fengju að nota þetta fé í þessu augnamiði, í stað þess að fá kannske dýr lán hér innanlands til þess að uppfylla þessi skilyrði, sem hér er farið fram á. Þetta er sem sagt svo mikil sanngirniskrafa frá hendi þessara manna, að ég veit, að hver hv. þdm., sem athugar þetta mál, hlýtur að sjá, að það er ekki nema sjálfsagt að samþ. brtt. mína. En ég lít svo á, að ef hún verður ekki samþ., þá sé búið að binda svo hendur þeirra, sem standa að þessu frv., að það þýði ekkert að reyna að hrófla við því eða ræða það og lýsa óánægju sinni yfir því eða einstökum atriðum þess.