18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Hæstv. viðskmrh. hefur nú tekið af mér ómakið og svarað hv. þm. Vestm. (JJós). En ekki gat ég séð það, að í þeim ummælum, sem hæstv. viðskmrh. hafði hér við 1. umr. málsins, liggi nein viðurkenning á því, að útgerðin hafi verið komin á höfuðið vegna skattkúgunar. Því að það er alveg sitt hvað, að hagur eins fyrirtækis sé svo kominn, að það geti ekki haldið áfram að borga skatta, eða hitt, að hag þess sé svona komið vegna skattanna. Enda er það nú svo, að í þeirri ræðu, sem hv. þm. Vestm. flutti hér í fyrrakvöld og ég sé, að hér er komin prentuð í Vísi, þá telur hann réttilega margt fleira sem ástæður til þess, að hagur útgerðarinnar var illa kominn heldur en skattana, t. d. kaupkröfur, markaðstöp og verðfall, En að vísu bætti hann við: „og síðast en ekki sízt skattaálagning“. En hann sleppir að segja frá aðalatriðinu, sem er aflaleysið, sem á þessum árum átti sér stað. En hvað gerði svo Framsfl., þegar einmitt hagur útgerðarinnar var illa kominn? Hann stóð að því að samþ. l. um það að losa útgerðina undan skatti og gjaldi til bæjar- og sveitarfélaga. Þrátt fyrir þetta hefur Sjálfstfl. klifað á því, að framsóknarmenn beri óvildarhug til útgerðarinnar, eins gáfulegt og það nú er, að nokkur fl. geti haft slíkan óvildarhug til eins stærsta atvinnuvegar landsmanna.

Í þessu sambandi spurði hv. þm. Vestm. þess, hvaða fl. hafi borið ábyrgð á skattaálögunum eftir l., sem giltu hér 1938, og telur það Framsfl. En það er vandi að svara, því, hvaða fl. ber ábyrgðina á skattalöggjöfinni á hverjum tíma. Það er ekki víst, að sá flokkur, sem verður að sjá um að afla teknanna, af því hann er við stjórn, beri aðalábyrgðina. Þeir, sem gera fjárkröfurnar á hendur ríkissjóði, bera ekki síður ábyrgð. Ef farið er út í þá sálma, þá er óhætt að segja, að allur almenningur í landinu eigi sök á því, að skattar hafa hækkað, því hann hefur farið fram á og fengið framlög úr ríkissjóði til alls konar framkvæmda sér til hagsbóta. Og þetta er orsökin til þess, að skattarnir og tollarnir, yfirleitt gjöldin til ríkissjóðs og bæjar- og sveitarfélaga, hafa farið hækkandi á síðastl. árum, hverjir sem við völd hafa verið. Það hefur svo oft verið rætt um þetta, að ég ætla að láta allar frekari umr. um þetta falla niður, þó að margt mætti um það segja.

Eftir þeim tón, sem hefur verið hjá hv. þm. Vestm. og hans líkum, að það sé skattkúgun Framsfl. að kenna, hvernig útgerðin var komin 1938, þá er það náttúrlega Framsfl. að kenna líka, að borgarastyrjöldin brauzt út á Spáni og fiskurinn var ekki á miðunum o. s. frv. Nú eru sjálfstæðismenn komnir í stj. landsins. Hagur útgerðarfyrirtækjanna og annarra fyrirtækja hefur batnað. Ég efast ekki um, að það verður þakkað því, að sjálfstæðismenn eru í ríkisstj. nú. En það vita allir, að það, að nú hefur um skeið gengið vel fyrir þessum fyrirtækjum, er vegna atvika úti í heimi, sem enginn Íslendingur ræður við, og efast ég um, að Sjálfstfl. vildi láta „þakka“ sér þá atburði, þó að hann vildi kannske gjarnan koma því á Framsfl. að hafa komið af stað Spánarstyrjöldinni og að hafa fælt fiskinn burt af fiskimiðunum kringum landið.

Þá fannst mér hv. þm. Vestm. lesa frv. eiginlega dálítið skrýtilega, þegar hann var að tala um, að eftir því væri útgerðarfélögum skylt að geyma þá sjóði, sem þar um ræðir, vaxtalausa.

Í fyrsta lagi veit ég ekki til, að það sé nein skylda eftir frv. að leggja fé í þessa sjóði. Ef útgerðarfélög leggja ekki í þessa sjóði, borga þau bara skatt, eins og t. d. hv. þm. Vestm. gerir sem einstaklingur og ég geri og allir skattskyldir menn. Í öðru lagi er það, að þó að í þessa sjóði sé lagt, þá þarf ég ekki annað en minna hv. þm. Vestm. á það, sem hv. frsm. n. veik að, einmitt í svari sínu til þessa hv. þm. út af þessu sama atriði, að það eru ýmsir möguleikar til þess, bæði nú og virðast verða framundan í enn ríkara mæli, að ávaxta fyllilega þessa sjóði.

Í því sambandi vil ég minna hv. þm. á það, sem hv. form. n. benti honum á við 1. umr., að nú liggur fyrir d. frv. um innanríkislán. Með því að kaupa bréf í því láni, og það er útgerðarfyrirtækjum heimilt, má fá allríflega vexti. Ég skal játa, að almennar umr. um málið eiga nú ekki við við þessa umr., en ég hef það til afsökunar, að ég hef ekki talað við 1. umr. Það, sem ég vildi sérstaklega benda á, var þetta, sem ég reyndar gat um áðan, að mér finnst það ekki viðeigandi, að einn af þeim mönnum, sem tilheyrir stuðningsfl. stj., skuli,, eftir að búið er að hafa mjög mikið fyrir því að ná samkomulagi, rísa upp með brigzl um samstarfsfl. sinn. En brigzl voru í ræðu hv. þm. hér við 1. umr. málsins.