18.04.1941
Efri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Þegar lokið var 2. umr. þessa þýðingarmikla máls, sem auk þess er svo óvenjulegt, að því er ætlað að verka aftur fyrir sig, hreyfði ég andmælum gegn því, að málinu væri hraðað í gegnum þessa hv. deild, svo sem raun ber vitni um, þar sem 2. og 3. umr, fara fram með afbrigðum á einum og sama degi, en þetta hefði m. a. komið í veg fyrir, að unnt væri að fá svigrúm til þess að undirbúa á tilhlýðilegan hátt nauðsynlegar till. til breyt., sem til muna gætu dregið úr þeirri hættu, sem ég tel frv. hafa í för með sér fyrir atvinnulífið í landinu.

Með því að ég get ekki sætt mig við þessa málsmeðferð, mun ég sitja hjá við þessa afgreiðslu frv. og greiði ekki atkvæði.