29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sveinbjörn Högnason:

Það var vegna brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 313, sem ég kvaddi mér hljóðs. Um persónufrádráttinn hafði orðið í n. nokkurs konar þegjandi samkomulag að láta hann standa í tveim flokkum, eins og hann kom frá Ed. Að vísu voru menn mjög ósáttir um það. Hv. þm. Seyðf. (HG) vill hafa flokkana fleiri, hann vildi hafa þá fjóra, þótt brtt. á þskj. 309 sé um þrjá. En meiri hl. n., sem stendur að brtt. 313, vill hafa persónufrádráttinn alls staðar jafnan.

Hv. þm. Seyðf. segist bíða þess með mikilli eftirvæntingu að heyra rökin fyrir þeirri till. Ég býst við, að hann þekki þau rök nokkuð áður. Það er eins og að berja í stein að hamra eitthvað inn í skynsemi þeirra manna, sem vilja ekki skilja, og þessi hv. þm. er þar ekki barnanna beztur, heldur öllum mönnum þrárri, þegar hann vill. Hann lítur aðeins á það, að kostnaðurinn við að lifa reynist misjafn eftir því, hvort þeir búa á dýrum, góðum stað eða fleyta fram lífinu sem útgjaldaminnst í sveitum og á ódýrustu og þægindalausustu stöðum við sjávarsíðuna. Ef fara ætti eftir því, yrðu að vera nokkur hundruð flokkar. Jafnvel innan sömu sveitar og á sama bænum er það mjög mismunandi dýrt fyrir menn að lifa, allt eftir aðstöðu þeirra og lífskröfum. Í nágrannakaupstöðum eins og Siglufirði og Akureyri getur þetta munað svo miklu, að samkvæmt hugsanagangi hv. þm. yrðu þar að vera sinn „skalinn“ á hvorum staðnum, „skali“ nálega fyrir hvert kauptún, og næði þó aldrei að fullu tilganginum. En tilganginn skil ég ekki vel heldur. Ég sé ekki nokkurt réttlæti í því, að maður, sem leyfir sér 10–15 herbergja íbúð, eigi fyrir það að fá hærri persónufrádrátt en sá, sem verður að búa í þröngum og lélegum húsakynnum, — skil ekki, að fyrst eigi þjóðfélagið að veita honum margfalt meiri tekjur en hinum og síðan skattfrelsi með miklu hærri persónufrádrætti. Þegar hv. þm. Seyðf. ber saman Vestmannaeyjar og Axarfjörð, er ég viss um, að það er dýrara að lifa í Axarfirði en Vestmannaeyjum. Hvað sem líður landkostum Axarfjarðar, veit ég ekki betur en Vestmannaeyjar eigi þá meir í vegna auðlegðar hafsins í kring. Hv. þm. Seyðf. telur sérstaklega mikinn reginmun dýrleikans í sveitum og kaupstöðum. En að því er gætandi, að margt manna í kaupstöðum hefur skepnur og jarðarafnot, sem gefa þeim að meira eða minna leyti jafnhagstæða aðstöðu og bónda til að lifa á litlu. Bændur, sem framleiða mjólk í Reykjavík, fá ekki aðeins hærra verð fyrir hana en aðrir og sleppa við flutningskostnað, heldur eiga þeir nú í ofanálag að fá miklu hærri persónufrádrátt en aðrir mjólkurframleiðendur, s. s. þeir, sem búa á Álftanesi eða í Mosfellssveit. Hvers vegna? — Eða tökum dæmi af manni, sem lifir l00 km frá Reykjavík og verður að kaupa þaðan mestallar nauðsynjar sínar. Á sumri þungavöru getur flutningskostnaðurinn, sem á leggst, numið nær helmingi verðsins. Það er dýrara fyrir hann að lifa þar en í Rvík, og þó á hann að fá minni persónufrádrátt. Ég get ekki skilið, að þetta sé réttlátt, en það getur vel verið jafnaðarmennska í augum hv. þm. Seyðf. (HG) fyrir því. Þó hélt ég satt að segja, að jafnaðarmennska væri falin í öðru en þessu. Það er háskalegt að draga menn í flokka eftir því, hvaða borgaralegum skyldum þeir gegna í þjóðfélaginu. Sami háski getur það orðið að veita mönnum mismunandi rétt eftir því, hvar þeir búa. Meira að segja í verklýðsfélögum hefur verið haldið stranglega við þá reglu, að allir félagsmenn skyldu njóta sömu kjara. Menn fá minna fyrir vinnu sína í dreifbýlinu. En um leið á að ganga nær þeim í skatti en höfuðstaðarbúum, leyfa þeim minni persónufrádrátt. — Ef þjóðfélagið heldur áfram að veita fólki háar tekjur, þar sem auðveldast er að afla þeirra, og ívilnar því á þeim stöðum í skatti, leiðir af því, eins og þegar sýnir sig, að fólk vill ekki vera í dreifbýlinu, þegar því er refsað fyrir þægindaskortinn og lágu tekjurnar með því að leyfa því lítinn persónufrádrátt. Menn flýja til kaupstaðanna og mest til Reykjavíkur, þar sem verðlaun eru veitt fyrir að njóta góðra íbúða og hvers konar þæginda.

Við flm. brtt. erum sammála um, að það eigi að hverfa frá þeirri stefnu í landinu, sem leiðir til slíks flótta, það eigi að vinna móti misréttinu og það jafnt í launum sem skattgreiðslum. Ef menn geta ekki fallizt á brtt., sýnir það aðeins, hve gagnsýrðir þeir eru af hleypidómum. Hv. þm. Seyðf. sagði réttilega, að frv. misjafnaði mjög aðstöðu manna í landinu, nokkrum stórfyrirtækjum er heimilað að leggja mikið fé í sjóð sinn án skattgreiðslu, en smáframleiðendur mega ekkert slíkt draga frá skatti. Mér skilst nóg vera af ójöfnuði í frv., þótt ójöfnuði í persónufrádrætti sé ekki bætt ofan á.