05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég tók svo eftir, að frsm. fjvn. byrjaði ræðu sína á því að lýsa því yfir, að ekki mundi verða útvarpsumr. við 2. umr. fjárl. að þessu sinni.

Hann sagði, að það væri ekki þörf á því að hafa útvarpsumr., vegna þess að nú væri svo ástatt, að mikill meiri hl. þingsins stæði á bak við ríkisstj. En ég vil spyrja: Hvaðan hefur hv. þm. þá vissu, að mikill meiri hl. þjóðarinnar standi á bak við ríkisstj.? Þegar flokkarnir, sem nú standa að stj., gengu til kosninga 1937, háðu þeir harða baráttu hver gegn öðrum, og þá töldu þeir hver um sig beinlínis þjóðarvoða, ef andstöðufl. fengi meirihlutaaðstöðu á þingi. Stefna þjóðstj. er þess vegna í algerðri andstöðu við þá stefnu, sem fl. þeir, sem að stj. standa, tóku gagnvart kjósendum sínum 1937. Undir slíkum kringumstæðum virðist sérstök ástæða til þess að hafa útvarpsumr., og alveg sérstök ástæða til þess að krefjast þess, að stjórnarandstöðunni sé ekki varnað máls. Þegar útvarpsumr. hafa verið, sem mjög sjaldan hefur verið síðan ríkisstj., sem nú situr, tók við stjórnartaumunum, þá hafa deilurnar eingöngu staðið milli stjórnarfl. annars vegar og stjórnarandstöðunnar, þ. e. a. s. Sósíalistafl., hins vegar. Stjórnarfl. hafa þá haft nærri fimmfaldan ræðutíma á við þm. Sósíalistafl., og skyldi maður þá ætla, að þeir hefðu ekki óttazt slíkar umr. Það er nú samt svo, að ferill þjóðstj. virðist ekki fegurri en svo, að hún óttast það, að ræður stjórnarandstöðunnar fái að heyrast nokkrar mínútur í útvarpinu, og það á þeim tíma, sem blöð stjórnarandstöðunnar, blað flokksins, er bannað. Því hefur verið haldið fram af málgagni stærsta stjórnarfl., að það væri mjög erfitt að hafa kosningar undir þeim kringumstæðum, að blað stjórnarandstöðunnar væri bannað. Þetta er alveg rétt, að ekki er hægt að hafa lýðræðislegar kosningar undir slíkum kringumstæðum. En nú virðist heldur lítið samræmi í því að neita stjórnarandstöðunni um að fá túlkað mál sitt, um leið og slíkum skoðunum er haldið fram. Annars hefur maður haldið eftir því, sem á undan er gengið, að ríkisstj. hefði ekki eina sál. Ríkisstj. og Alþ. hafa á mjög myndarlegan hátt mótmælt ofbeldi hins erlenda hervalds, er það nú hefur flutt þrjá íslenzka ríkisborgara, þar á meðal einn alþm., af landi brott. Blað utanríkismrh. hefur aftur á móti ekki aðeins varið þessar aðgerðir, heldur beinlínis bent á aðra alþm., sem ástæða væri til að gera sömu skil. Blað stærsta stjórnmálafl. í landinu, Sjálfstfl., hefur með réttu stimplað flokk utanrmrh. í þessum málum sem beinlínis handbendi hins erlenda valds, gegn ríkisstj. og Alþ. Það má þess vegna furðu gegna, ef utanrmrh. verður ekki tafarlaust látinn fara úr stj., og verði það ekki gert, þá er ekki hægt að neita því, að ríkisstj. er öll samábyrg utanrmrh. Það er ekki við því að búast, að hið erlenda vald taki mótmæli slíkrar ríkisstj. mjög hátíðlega. Við þm. Sósíalistafl. höfum krafizt þess, að útvarpsumr. færu fram um fjárl. annaðhvort við 2. eða 3. umr. Við teljum, að brotin séu l. á okkur, ef það er ekki gert. Samkv. þingsköpum á að útvarpa við frh. 1. umr. fjárl., en svör út af fyrirspurnum um þetta efni eru enn ókomin frá flokkunum, nema Alþfl., — hann hefur svarað neitandi eins og vænta mátti.

Þá ætla ég að snúa mér að þeim brtt., sem hér liggja fyrir frá mér og hv. 4. landsk. Menn höfðu búizt við því, að fjárlfrv. fyrir árið 1942 og sömuleiðis till. fjvn. yrðu með öðrum hætti en undanfarin ár, og ber þar tvennt til:

1) að dýrtíðin í landinu hefur vaxið með þeim fádæmum, sem raun ber vitni.

2) að nú er til nóg fjármagn til þess að ráðast í miklar framkvæmdir og ljúka þeim verkum, sem hafin eru.

En frv. og till. fjvn. eru með allt öðrum hætti en við mátti búast. Framlög til verklegra framkvæmda hafa ekki verið hækkuð að sama skapi og dýrtíðin hefur aukizt, og er því lagt til, að framlögin verði raunverulega minni en í fjárl. yfirstandandi árs. Samkv. till. fjvn. hafa framlög til samgöngumála aðeins verið hækkuð um 1/3, enda þótt dýrtíðin hafi skv. vísitölu hækkað um 50%. Er þó almennt álitið, að vísitalan sýni of litla hækkun. Framlög til verklegra framkvæmda samkv. 16. gr. telst mér, að hækki um 7–8%. Nú má búast við því og er enda fullvíst, að dýrtíðin verður meiri 1942 en hún nú er, þótt ekkert verði um það sagt, hvernig hér verður umhorfs að öðru leyti. Till. fjvn. eru því næsta furðulegar.

Við höfum nú heyrt rök n., en þau eru í stuttu máli þessi: Það er þá fyrst og fremst, að skortur sé á vinnuafli í landinu og því eigi ríkið ekki að stofna til. samkeppni um vinnuaflið. Ójá, það er nú svo, en við hvern er að keppa? Stærsti atvinnuveitandinn nú er erlendur innrásarher. Það væri fróðlegt að heyra, hve mikið hinu brezka hervaldi er afhent í innlendu fé til þess að greiða með framkvæmdir vegna hernaðaraðgerða. Ég hef heyrt, að það muni vera allt að 8 millj. kr. á mánuði. Þessar framkvæmdir brezka innrásarhersins greiðir ríkið í raun og veru. Á móti kemur innieign í sterlingspundum, sem eins og er er lítils virði og getur orðið einskis virði. Með þessu móti er verið að leiða hrun yfir okkar litla þjóðfélag.

Væri nú ekki skynsamlegra að nota þessar milljónir til nytsamlegra framkvæmda, til þess að afla matfanga og annarra nauðsynja? Því er borið við, að ekki sé unnt að fá vinnuafl nema með þegnskylduvinnu eða öðrum þvingunarráðstöfunum. Ég held, að þetta sé sagt út í bláinn. Ef íslenzka ríkið býður sömu kjör og Bretarnir og skírskotar til þjóðhollustu manna, fengjust nógir menn. Sama máli gegnir um landbúnaðarframkvæmdir. Ef ríkisstjórnin vildi stuðla að því, að hægt væri að bjóða sömu kjör og Bretarnir bjóða, fást nógir menn.

Það, sem landinu ríður á, er að breyta pappírspeningunum í mat, föt og önnur verðmæti. Þess sjást engin merki, að þm. hafi gert sér. þetta ljóst, þvert á móti hefur komið fram tilhneiging að safna þessum pappírspeningum í gilda sjóði.

Eins og tekið er fram í nál. fjvn., verður ekki komizt hjá því að setja sérstaka löggjöf um aukafjárveitingar. Í þá átt að breyta pappírspeningunum í mat, í föt, mannvirki og ýmiss konar verðmæti stefna till. okkar þm. Sósíalistaflokksins.

Það er jafnvel enn erfiðara að finna rök fyrir þeirri stefnu að skera við neglur framlög til vísinda og lista. Á því sviði er einnig hægt að skapa þau verðmæti, sem eru meira virði en pappírspeningar. Þess vegna flytjum við till. til hækkunar framlaga til menningarstarfsemi. Alls nema till. okkar nokkuð á þriðju milljón króna og þar af til verklegra framkvæmda tæpar 2 millj. kr. Þetta er ekki stór upphæð, þegar borið er saman við þau ógrynni fjár, sem brezka herstjórnin ver til hernaðaraðgerða hér á landi, framkvæmda, sem við verðum raunverulega að greiða.

Ég mun ekki ræða einstakar till. sérstaklega. Við höfum einkum lagt áherzlu á aukin framlög til vegagerða á aðalsamgönguleiðunum og auk þess lagt til, að framlög til viðhalds vegum hækki um ½ millj. kr., ,sem mun ekki af veita. Þegar þess er gætt, að hver km í vegi kostar viða um 24–30 þús. kr., þá sér hver heilvita maður, að hrökkva skammt þessar fáu þús. kr., sem nú er verið að veita í vegina hingað og þangað um landið. Yfirleitt er þessi píringur í vegina óheppilegt búskaparlag, og höfum við þm. Sósíalistafl. alltaf verið því mótfallnir.

Þá leggjum við til, að framlag til brúargerða hækki ríflega og skuli þar af veitt til brúar á Jökulsá á Dal hjá Hjarðarhaga 45000 kr. Þessi brú er á brúalögum og er þýðingarmikil samgöngubót. Höfum við áður flutt till. hér að lútandi, og er það von manna eystra, að þessi till. nái nú fram að ganga.

Þá eru nokkrar hækkanir til hafnargerða, og þarf ég ekki að fjölyrða um þær till. Til framleiðslubóta höfum við lagt til, að veitt verði 1 millj. kr. í stað ½ millj. eins og frv. gerir ráð fyrir, enda er ærin þörf fyrir hærra tillag til framleiðslubóta, m. a. til aukinna ræktunarframkvæmda, og enginn veit nema á árinu 1942 kunni að vera þörf fyrir atvinnubótafé.

Loks leggjum við til, að ríkisstj. verði heimilað að hækka framlög til verklegra framkvæmda um 35% á árinu 1942. Það er meiri þörf á að veita ríkisstj. heimild til að hækka framlögin um 35% en að lækka þau um sama hundraðshluta, eins og lagt er til í till. fjvn. Slíka heimild til lækkunar tel ég hættulegt vald í höndum ríkisstj., en hækkun er óhjákvæmileg, því að hversu hátt dýrtíðin verður komin 1942, er ekki hægt að segja. Ef gert er ráð fyrir, að farið verði eftir fjárl., er hækkunarheimildin nauðsynleg, en mér heyrist á sumum fjvnm., að dregið sé í efa, að svo verði gert.

1. brtt. á þskj. 366 frá okkur þm. Sósíalistafl. þarf skýringar víð. Er það nýr liður: Kostnaður við ráðstafanir til að koma á þrifnaði og betri aðbúð fyrir fangana á Litla-Hrauni, 5000 kr. Á Litla-Hrauni er þrifnaði mjög áfátt. Þar er óþriflega farið með mat, óþriflega gengið um húsakynni, og þar liggur meira að segja lús í landi. Álít ég það ekki vansalaust, ef ekki er úr þessu bætt.

Þá koma till. okkar um styrki til menntamála. Aðaltill. er um hækkun á styrk til skálda, vísindamanna og listamanna og um breyting á aðild við úthlutun styrksins. Í stað þess að menntamálaráð úthlutar styrknum nú, leggjum við til, að bandalag íslenzkra listamanna sjái um úthlutun styrks til listamannanna, en háskólaráð til vísindamanna. Ætla ég ekki að ræða þessa till. frekar, þar sem ég býst við, að hv. meðflm. minn geri henni frekari skil. Þá er lagt til, að fjárveiting til bókakaupa og handrita hækki í 150 þús. kr. úr 24 þús. kr. Nú er tækifæri til þess að gera bókakaup í Bretlandi fyrir innifrosin sterlingspund og bæta þannig úr þeirri þörf að gera mönnum kleift að stunda vísindi hér á landi.

Loks er hækkun á tillagi til bókasafna um 104% og til slysavarna 100000 kr. í stað 8000 kr. Þarf ég ekki að eyða neinum orðum um nauðsyn slysavarnanna, en við teljum ekki vansalaust, að slík starfsemi skuli þurfa að lifa á bónbjörgum á þessum tímum.

Læt ég svo útrætt um till. okkar að sinni.