05.06.1941
Neðri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Mér er sagt, að það hafi verið beðið eftir, að ég gæfi yfirlýsingu um þá brtt., sem fyrir liggur frá hv. þm. N.-Þ. Ég hef ekki getað aflað mér svo ýtarlegra upplýsinga um það, hve mikilli upphæð mundi nema að flytja fé gegnum sýkt svæði, að ég geti gefið ákveðna yfirlýsingu um það, hvort ríkisstj. sér sér fært að greiða hann allan. En ég hef hugboð um það, að þetta sé þó svo víða, að það verði talsvert veruleg fjárhæð, og það vegna þess ekki sízt, að nú er mikil vöntun á bifreiðum og þær dýrar. Að vísu má segja, að því meiri ástæða sé til, að þessi kostnaður sé að einhverju leyti greiddur; og ég tel satt að segja, að l. heimili að taka tillit til þessa að einhverju eða öllu leyti, sem ég býst þó ekki við, að verði gert. En ef sérstaklega stendur á á einhverjum stöðum, að aðstaða sumra, sem þurfa að flytja fé yfir ósýkt svæði, er stórum verri en annarra, þá er mér óhætt að lýsa því yfir, að það mundi verða greiddur mismunur á þeim kostnaði. En að gera það að almennri reglu að greiða kostnaðinn, treysti ég mér ekki til að lýsa yfir á þessu stigi málsins.