26.03.1941
Neðri deild: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að spyrjast fyrir um þáltill. okkar hv. 4. landsk. um skipun nefndar til að rannsaka tjón landsins af innflutningstálmunum á síðasta ári. Till. þessi hefur tvisvar verið tekin á dagskrá, en verið tekin af dagskrá í bæði skiptin.

Þá vil ég beina fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. í tilefni af því, að annar ófriðaraðilinn hefur lýst hafnbanni á Ísland. Vil ég spyrja þess, hvort hæstv. ríkisstj. hafi ekki hugsað sér að ræða við Alþingi um ráðstafanir, sem hægt væri að gera til að draga úr afleiðingum hins harðnandi hafnbanns á landið, þar sem augljóst er, að siglingar til Ameríku geta einnig orðið hættulegar. En slíkar ráðstafanir geta ekki komið að verulegu gagni, nema þær séu gerðar þegar í stað. Ég veit til dæmis, að sakir vanrækslu hæstv. ríkisstj. er nú lítið til af nauðsynjum í landinu. Væri æskilegt, að ríkisstj. svaraði þessari fyrirspurn, ef hún telur sig á annað borð ábyrga gagnvart þinginu og þjóðinni, en ekki einhverjum öðrum aðilum.