09.04.1941
Efri deild: 34. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

85. mál, tollskrá

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Fjmrh. hefur, með bréfi 25. marz, sent fjhn. frv. það, sem hér liggur fyrir, með ósk um, að n. flytti það. Það hefur dregizt nokkuð, að n. flytti frv., og er það vegna þess, að nm. hafa verið önnum kafnir við önnur störf. N. flytur þetta frv. með sínum venjulega formála um, að nm. áskilji sér óbundin atkv. um einstök atriði. — Ég vil strax leiðrétta eitt smáatriði í grg. Þar er sagt, að fjmrh. hafi, í samráði við mþn. í skatta- og tollamálum, tekið til athugunar ýmis atriði tollskrárlaganna. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að rétt eftir að fjhn. fékk málið til athugunar veikist form. mþn., svo að n. gat ekki haldið fund um málið, en ég efast ekki um, að mþn. hefði gert þetta að till. sinni, ef hún hefði getað haldið fund um málið.

Þessar breyt. eru allar í þá átt að bæta úr smávegis annmörkum, sem komið hafa fram við framkvæmd laganna. Ég ætla ekki að fara út í hvert smáatriði, því það er auðvelt fyrir hv. þm. að átta sig á þeim. Um 3. brtt. er það að segja, að beiðni um hana hefur komið frá Lyfjaverzlun ríkisins, og er hún rökstudd með því, að lyfjabúðir flytji inn ýmsar olíur og feiti til lyfja í umbúðum, sem vega undir 15 kg. Það má segja, að þessar breyt. séu mestmegnis orðabreyt. og leiðréttingar, sem ekki orki tvímælis um. Einstaka breyt. er gerð vegna þess, að skilgreiningin hefur ekki þótt tæmandi, t. d. 19. breyt. Þar er lagt til, að þyngd pappírsins sé ákveðin nákvæmlega. Þó má segja, að 3. gr. hafi einna helzt inni að halda breyt., sem nokkru gæti varðað. Það eru þar, að ég ætla, 5 vörutegundir; sem talað er um að færa til meira samræmis en verið hefur. Aðrar vörur, sem verða hliðstæðar þeim, sem falla undir ensku samningana, eru aftur á móti hátt tollaðar, og verður þess vegna mikill vandi að skipta sól og regni, ef svo mætti að orði kveða. Það fyrsta, sem ég tók eftir í 8. gr., að færi undir háan toll,, er stapeltrefjavefnaður, en þetta mun vera efni, sem er t. d. notað í kvensokka og er því í raun og veru algerlega hliðstætt gervisilki, og er alveg óhugsandi að verzla með sokka, ef þeir eiga að koma undir þennan háa toll, en gervisilki undir enska samninginn. Þar sem engin ástæða er til að útiloka sokka úr eins konar gervisilki, þykir rétt að láta þétta falla þar undir, þó ekki sé nauðsynlegt, heldur aðeins til samræmis. Eins er með b-liðinn, um karlmannafataefni, sem blönduð eru öðrum spunaefnum. Það hefur verið framkvæmt mjög út í öfgar. Ef hægt er með smásjá eða vísindalegum aðferðum að finna, að í þau hefur verið dreginn einhver þráður úr silki, þá hefur þetta tau verið tekið og sett í 50% toll, og er þá í rauninni óseljanlegt. En það er í raun og veru ómögulegt fyrir þann, sem pantar efni, að vita um, að það lendi undir þessum hærra tolli. Það er því auðsætt, að setja verður mörkin öðruvísi, að undir enska samninginn falli þau efni, sem sýnilegt er, að ekki eru blönduð öðrum spunaefnum meira en sem nemur 7 hundraðshlutum.

Þá hafa allt frá upphafi verið miklir erfiðleikar með hina svokölluðu prjónavoð, sem er hátt tolluð og notuð er í nærföt, sem gerð eru hér á landi og hafa orðið lítt samkeppnisfær vegna þess, að hún hefur verið of hátt tolluð. Þess vegna er það með þessar 3 breytingar við 3. gr., sem sérstaklega skipta máli, að þær eru allar, að því er ég hygg, mjög eðlilegar.

Nú er náttúrlega ekki hægt að neita því, að það eru fleiri breytingar, sem eru nokkuð stórar, en ekki eingöngu þýðingarlaus atriði, eins og t. d. 17. og 18. till., en algerlega í samræmi við það, að í tollskránni er veitt undantekning með viðartegund, sem notuð er í skip, en það er aðeins til að gera skilgreininguna réttari, svo að það falli raunverulega undir þá ívilnun, sem ætlazt er til, að yrði veitt, með tollskránni.

N. mælir því með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, og sem sagt mælir með því um leið, að þetta mál fái eins greiða afgreiðslu og hægt er svo það geti orðið að lögum, þó að dregizt hafi hjá n. að koma því fyrir þingið vegna annarra anna.