13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

85. mál, tollskrá

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Fjhn. hafa nú milli umr. borizt fjöldamargar óskir um breyt. á því frv., sem hér liggur fyrir. Þessar óskir hafa komið frá ýmsum félögum, sérstaklega iðnaðarmönnum.

N. hefur ekki séð sér annað fært en að leita umsagnar ritara milliþn. í skatta- og tollamálum um þessar óskir. Vegna þess hvað flestar óskirnar komu seint fram, hafa umsagnir ekki borizt nema um nokkrar þeirra, sem fyrst bárust. N. hefur því orðið ókleift að taka tillit til þessara tillagna, en mun að sjálfsögðu senda þau bréf, sem henni hafa borizt, til n. í Nd. og gera henni viðvart. Ég vil annars segja það um þessar till., að það er næstum óviðráðanlegt að gera slíkar breyt. að óathuguðu máli. Það er nauðsynlegt, að slíkar till. liggi fyrir milliþn. og fari til ríkisstj. áður en afstaða er tekin til þeirra. Annars gætu þær gert meiri og minni glundroða. N. hefur því ekki treyst sér til að taka neina af þessum óskum til greina.

Tilefni brtt. á þskj. 470 er það, að tveir hæstv. ráðh. komu á fund n. og óskuðu eftir því, að hún flytti þessa till. Þetta voru hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. Till. þessi gengur út á það að afnema algerlega toll af öllum helztu kornvörum. Síðari liður till. er um það að lækka toll á sykri um helming. Það er allerfitt að gera sér grein fyrir, hverju þetta mundi nema. Ef miðað er við árið 1940, þá nemur niðurfelling kornvörutollsins um 465 þús. krónum, en lækkun sykurtollsins mun nema um 565 þús. kr. Það er sem sagt, ef miðað er við venjulegan innflutning, ekki langt frá, að hér sé um að ræða um 1 millj. króna, sem ríkissjóður gefur eftir. Það þótti réttara að setja þetta í bráðabirgðaákvæði, en færa það ekki inn í viðkomandi lið tollskrárinnar. — Ég býst við, að hæstv. fjmrh. muni gera nánari grein fyrir tilgangi þessarar brtt.

Af hálfu n. vil ég aðeins segja það um þessa brtt., að ég er ekki viss um, að n. út af fyrir sig hefði flutt hana. Ég fyrir mitt leyti lít á það dálítið efablandinn, að þetta nái tilgangi sínum. Tilgangurinn er hins vegar lofsverður, að reyna að hamla á móti dýrtíðinni. Þessar vörur, sem hér er lækkaður og afnuminn tollur á, koma mjög til greina við útreikning verðvísitölunnar og mundu þess vegna snerta hag ríkissjóðs og annarra kaupgreiðenda. Ég hef ekki eða n. gert tilraun til þess að reikna út, hverju þetta mundi nema. Ég hef aðeins heyrt það sagt, að þeir vísu menn á þessu sviði haldi því fram, að einnar millj. króna frádráttur á gjöldum mundi nema einu stigi í verðvísitölunni. Þetta getur þess vegna munað talsvert miklu í kaupgreiðslum bæði fyrir ríkissjóð og aðra og þannig hamlað á móti dýrtíðinni. Ég verð að segja það, að ef á annað borð yrði gengið inn á þá braut að gera stórfelldar ráðstafanir til þess að halda dýrtíðinni niðri, t. d, með því að leggja stórkostleg gjöld einhvers staðar á, þá er ekki fráleitt, þó að ríkið á slíkum tímum sem þessum færi einnig þá leið að létta nokkuð tolla á þeim vörum, sem mest koma til greina við útreikning verðvísitölunnar og hag allra landsmanna. N. hefur því flutt þessa till. f. h. þessara hæstv. ráðh.

Sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni.