04.06.1941
Neðri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2899)

41. mál, krikjuþing

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti! Það gleður mig að sjá, hvað hv. menntmn. tekur vel í þetta mál. Það virðist bera vott um, að hún telji þetta gott mál, sem beri að greiða fyrir, eins og nál. ber raunar með sér. Hins vegar get ég ekki látið umr. líða svo hjá, að ég lýsi ekki afstöðu minni til þess.

Ég álít, að vafasamt sé, hvort setja beri á fót margar nýjar kirkjulegar stofnanir í viðbót. Ég tel, að það eigi ekki að gera nema að vel rannsökuðu máli. Því eins og nú er, má segja, að þeir sem við kirkjunnar mál fást, séu nærri drukknun í hinu mikla flóði skipulags og stofnana.

Fundahöldin og þingin um kirkjumál eru. þegar orðin æðimörg og margvísleg: Safnaðarfundir, sóknarnefndarfundir, héraðsfundir prestafélagsdeilda, prestafélagsfundir, kirkjuráðsfundir og synodus. (PO: Á ekki synodus að falla niður, ef þetta frv. verður að lögum?). Ekki skilst mér það eftir frv. Af því, sem ég gat um, eru prestafundirnir og kirkjuráðið tiltölulega ný. Yfir þeim kemur svo biskupinn. Eins og sést af þessu, er skipulagið orðið bæði margþætt og margdreift. Og ég óttast, að ef bæði gamla og nýja skipulagið helzt, þá sé kröftunum orðið svo dreift, að leitt geti til enn frekari árekstra en nú er orðið og nauðsynlegt er að forðast, því þá verður árangurinn hið gagnstæða við tilganginn.

Mér finnst, að um leið og þetta frv. væri samþ., yrði að koma á meira innra samræmi meðal hinna mörgu stofnana, skipuleggja betur starfskraftana, leggja jafnvel eitthvað af þessu niður eða sameina það öðru. Annars er hætt við, að allt lendi í káki. Eins og nú er, má segja, að fundahaldið sé a. m. k. ferfalt á við það, sem komast mætti af með. Því reynslan er sú, að hinir mörgu fundir gefa ekki eins góða raun og ætlazt er til. Ég get af eigin reynslu borið um það, að fundahöldin eru orðin svo mikil, að heita má, að allt vorið fari í þau. Ég tel, að ef kirkjuþing er stofnað, eigi að leggja kirkjuráðið niður. Því það er ekki ráðlegt, frá mínu sjónarmiði, að dreifa áhrifavaldinu og starfskröftunum milli margra ráðgefandi stofnana, sem í rauninni eru náskyldar að eðli og tilgangi og fjalla um sama efni. En þannig mundi fara, ef frv. þetta yrði að 1. óbreytt.

Hins vegar get ég lýst yfir því, að ég er vitaskuld fylgjandi því, að kirkjuþingi sé komið á fót og það verði gert sem öflugust og starfhæfust stofnun. En til þess að svo megi verða, þarf að sameina margar af þeim stofnunum, sem fyrir eru, eða leggja þær niður. Það mætti t. d. sameina héraðsfundina og aðalfundi prestafélagsdeildanna. Á sama hátt mætti hugsa að kirkjuþing það, sem frv. fjallar um, og kirkjuráð yrðu ein og sama stofnunin, eða öllu heldur, að kirkjuþingið yrði eitt látið nægja.

Þessi atriði vildi ég láta koma fram í þessum umræðum. Ég álít, að n. hafi vanrækt að taka þau til athugunar. Og mér finnst eins og þingið hafi verið að leika sér með þetta mál allt.

Ég tel, að undirbyggja þurfi þetta frv. betur, ef kirkjuþingið á að geta orðið sá kraftur fyrir kirkjuna, sem ég og aðrir óska, að það mætti verða. En til þess að svo megi fara, má ekki skirrast við að varpa því fyrir borð, sem úrelt er orðið, heldur þarf að gera allt, sem unnt er, til þess að kirkjuþingið verði sem færast um að gegna þeim störfum, er að kalla á hverjum tíma. Til þess að það takist, verður allt hið fúna og feyskna í kirkjustarfinu að hverfa. Annars getur kirkjuþingið e. t. v. aðeins orðið kirkjunni fjötur um fót.