10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

57. mál, bygging sjómannaskóla

*Frsm. (Finnur Jónsson) :

Við sex þm. fluttum áskorun þessa til hæstv. forseta um að taka þetta mál á dagskrá, vegna þess að okkur skildist það, að það væri ætlunin að láta það ekki koma fyrir á þessu þingi framar. En þar sem þetta mál hefur hlotið mjög einróma afgr. þingsins, töldum við flm. frv., að það mundi á engan hátt geta orðið til þess að tefja þingstörf, þó að málið yrði tekið fyrir nú, þar sem ekki er vitað, að ágreiningur sé um að málið eigi fram að ganga.

Að vísu hefur hæstv. atvmrh. flutt brtt. við fjárl., um heimild til að leggja fram 500 þús. kr. til sjómannaskólabyggingarinnar á árinu 1942, og sú heimild hefur verið samþ. En ég fæ ekki séð, að hún komi neitt í bága við þetta frv., því að þó svo sé, að hún sé nokkuð rýmri heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv., þá mun það að sjálfsögðu á engan hátt gera það að verkum, að frv. sé þar með óþarft.

Hæstv. atvmrh. lofaði því við umr. um fjárl. nú, að hann mundi á næsta þingi leggja fram frv. um byggingu sjómannaskóla, að mér skildist, ef þetta frv. næði ekki samþykki þingsins. En það er vitanlegt, að þó að heimilt sé á árinu 1942 að leggja fram fé til skólans, þá virðist fyrir þá, sem vilja koma málinu í framkvæmd, vera enn ríkari ástæða til þess að setja 1. um málið á þessu þingi, svo að fyrsta greiðsla verði innt af hendi til skólabyggingarinnar á þessu ári, einmitt því ári, þegar við vitum, að ríkissjóður hefur nokkuð rúmar hendur. Fyrir þá, sem vilja koma þessu máli sem fyrst í framkvæmd, virðist því vera einsætt að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og vil ég eindregið leggja til, að svo verði gert.