12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

145. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mjög, því að það er búið að ræða þetta svo mikið og svo oft, að þess gerist ekki þörf. — En það er samt komið fram í málinu eitt nýtt viðhorf, sem ég vil ekki alveg leiða hjá mér. Það er það viðhorf, sem felst í till. hv. þm. Hafnf., að leyfa að hafa þetta gjald áfram og verja því í sérstöku augnamiði. Ég hef í huganum verið að hoppa í kringum landið og gá að stöðum, sem á sama hátt ættu að fá fargjöld til að setja í stand vegi, sem liggja í gegnum þorpin. Ég hef séð Blönduós, sem þarfnast þess, ég hef fundið Akureyri, þar sem aðalgatan liggur eftir endilöngum bænum og þarfnast fargjalda til viðhalds. Ég hef fundið Húsavík og ýmsa fleiri staði.

Ég vildi áður en þetta mál kemur til atkvæða, benda á það, að ef Alþingi eða þessari hv. þd. finnst það rétt leið að lofa þeim þorpum, hreppum og kauptúnum á landinu, sem þjóðvegirnir liggja í gegnum, að skattleggja þá, sem ferðast með bílum og þurfa að fara gegnum þessi þorp, til þess að geta haldið við þeim vegarkafla, sem liggur gegnum þorpin, þá álít ég, að það sé rétt að samþ. till. hv. þm. Hafnf., en þá koma bara margar aðrar till. á eftir, því að ef á að fara inn á þá braut að leggja sérstakt gjald á þá, sem ferðast með bílum um þessa vegi, til þess að hægt sé að halda við þessum hluta veganna, sem bæjarfél. eða hreppsfélögunum er annars ætlað að halda við, þá munu vitanlega hinir koma á eftir, því að Hafnarfjörður hefur hér ekki neina sérstöðu. — Mörg önnur kauptún og hreppar hafa sömu aðstöðu.

Ég geri ráð fyrir því, að ef till. hv. þm. Hafnf. verður samþ., þá hafi þm. Eyf., sem lengstan veg hafa í gegnum sinn bæ, ástæðu til þess að koma þar með skatt á bíla, og margir fleiri, hver fyrir kaupstaði og þorp í sínu kjördæmi, o. s. frv.