26.04.1941
Neðri deild: 45. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

121. mál, framræslusjóður

*Flm. (Stefán Stefánsson) :

Herra forseti! Á þskj. 243 flyt ég, ásamt hv. þm. Dal., frv. þetta. Það er hvorki stórt né margbrotið, eins og sjá má. Aðalástæðurnar fyrir frv. þessu ná lesa í greinargerð þess, en samt ætla ég nú að fylgja frv. úr hlaði með nokkrum orðum.

Frá því jarðræktarl. voru sett 1923 hefur ræktun landsins fleygt fram, svo nú er ræktað land allt að því helmingi stærra. Við, þeir fáu bændur, sem eigum sæti hér í hv. deild (en við erum því miður allt of fáir), sjáum, og hv. þm. sjá allir, að ræktun er mjög ábótavant. Heyfengur ekki sem skyldi, hvorki að magni né gæðum. Ástæðan fyrir öllu þessu er, að framræsla landsins er af skornum skammti. Bændur hafa ekki treyst sér til að taka lán með þeim kjörum, sem hafa verið fyrir hendi. En það er með 5½% vöxtum. Einnig hefur það verið svo, að bændur hefur skort bæði skilning og þekkingu á þessu sviði, en sem betur fer er áhugi þeirra nú að vakna, og margir hafa nú þegar hafizt handa við framræsluna. Við flm. teljum nauðsynlegt, að ríkisvaldið rétti bændum hér hjálparhönd.

Samkvæmt 1. gr. frv. á að stofna framræslusjóð. Ekki verður með vissu sagt, hve miklu fé sjóðurinn kann yfir að ráða til að byrja með. En það er ekki meginatriðið, heldur hitt, að sjóðurinn verði til.

Samkvæmt 4. gr. er gert ráð fyrir, að lán verði veitt með 2% vöxtum, en hinir raunverulegu vextir yrðu 2½% —, og yrði þetta mikill munur frá því, sem áður var.

Auk þess eru ýmis ákvæði í frv., svo sem að rekstur og stj. sjóðsins fari eftir reglum um Ræktunarsjóð Íslands, því framræslusjóðir eru sérstök deild úr þeim sjóði.

Ég get látið mér detta í hug, að einmitt nú sé ef til vill dálítill áhugi fyrir framræslumálum. Allir eru nú sammála um blessaðar sveitirnar. Þær eru nú griðastaðir fyrir börnin, og einnig hefur verið skorað á verzlunar- og skrifstofufólk að vinna að sveitastörfum í sumarleyfinu. Ég vona, að þetta sé ekki augnablikshugur, heldur megi hann haldast lengi. Hv. Alþingi hefur sýnt skilning í öllu, er að landbúnaði lýtur, og ég vænti þess, að með því að samþ. þetta frv., þá sýni það hug sinn í því, sem er undirstaða allrar ræktunar landsins, og til að framleiðsla megi dafna í landinu.

Ég mun svo ekki segja meira um þetta, en legg til, að málinu verði visað til 2. umr. og landbn.