23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3301)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Mér virðist það hafa komið fram, að hv. 7. landsk. sé í verulegum atriðum sammála flm. um þetta frv., þ. e. a. s. um innheimtu skatts af verðbréfum, því athugasemdir hans hafa yfirleitt snert veðskuldabréfin. Hv. þm. segir, að vextir, sem greiddir séu af slíkum handhafaveðskuldabréfum, muni nema mörgum hundruðum þúsunda, jafnvel einni milljón króna.

Eins og hv. þm. Seyðf. benti á, var þetta frv. upphaflega samið af milliþn. í skatta- og tollamálum. Ég vil gjarnan rifja upp nokkuð af því, sem fram kemur í nál., sem út kom fyrir 2 árum, að því leyti sem það snertir veðdeildarbréfin. N. gaf þar nokkra skýringu á því, hvernig með þetta hefði verið farið af skattyfirvöldunum. Eftir að hafa lýst því, segir n. á þessa leið :

„Þetta fyrirkomulag, sem er samkvæmt ákvæðum núverandi reglugerðar um tekju- og eignarskatt, gefur nokkurt öryggi um framtal og skattgreiðslur af veðskuldabréfum, en því fylgja þó ókostir. Má þar fyrst nefna, að sá hluti handhafaskuldabréfa, sem eigendur finnast eigi að og eru skattlögð hjá skuldunautunum sjálfum eða umboðsmönnum skuldareigenda, sleppa að jafnaði með mun lægri skattgreiðslu en vera mundi, ef bréfin og vextirnir væru fram talin af hinum rétta skuldareiganda. Slíkir lántakendur, sem hér er um að ræða, eru venjulegast eignalausir eða með lága skattskylda eign, og sjaldan tekjuháir, en hins vegar ástæða til að ætla, að hlutaðeigandi lánveitendur kæmust nokkuð ofarlega í skattstiganum.“

Þetta segir í þessu nál., og n. hefur athugað þetta atriði gaumgæfilega. Ég get ekki fallizt á, að mikil hætta sé á, að margir þeir, sem skulda og hafa gefið út slík bréf og halda eftir hluta af vöxtunum, muni láta hjá líða að afhenda þennan hluta af vöxtunum, vegna þess að þeir mega eiga það víst, að það kemst upp, ef þeir ekki skila þeim, og er þá heimild til að taka þessar greiðslur lögtaki. Það kann að vera í einhverjum tilfellum, að. dráttur verði á þessu, en ég held, að ekki sé ástæða til þess að gera mikið úr þeirri hættu. Hv. þm. var að tala um einhvern, sem ætti 39 hús og mundi skulda mikið. Ég sé ekki ástæðu til að óttast, að slíkir menn mundu láta hjá líða að skila vaxtaskattinum, því afleiðingin yrði sú, að einhver eignin yrði tekin, ef það kæmist upp. Ef hins vegar hv. þm. hefði tilbúna einhverja brtt., sem gengi í þá átt að tryggja betur en gert er í frv., að vaxtaskattinum yrði skilað, þá skal ég ekki vera á móti því.